09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í D-deild Alþingistíðinda. (4233)

166. mál, atvinnuvandræði Bílddælinga

Flm. (Einar Olgeirsson) :

Herra forseti. Ég þarf ekki frekar en þeir hv. þm., sem hér hafa talað á undan mér, að tala fyrir minni till. Hún er mjög stutt, en henni fylgir ýtarleg grg. og sérstaklega ýtarleg fylgiskjöl, og er tilgangur okkar með flutningi þessarar till., að Alþ. sinni beiðni þeirri, sem kemur fram í fylgiskjölunum. Menn geta séð, hve erfitt verkamenn á Bíldudal eiga um atvinnu og alla afkomu, þegar ástandið er þannig í ágúst, að 12 fjölskyldumenn með 39 á framfæri sínu höfðu samtals 8124 kr. í vinnulaun, 677 kr. að meðaltali, eða 159 kr. til framfæris hvers einstaklings. Í september höfðu 12 fjölskyldumenn með 39 á framfæri sínu samtals kr. 11082.00 í vinnulaun, kr. 923.00 að meðaltali, eða 217 kr. á einstakling. Í október höfðu 12 fjölskyldumenn með 39 á framfæri sínu samtals kr. 9354.00 í vinnulaun, 780 kr. að meðaltali, eða 183 kr. á einstakling. Og er nákvæmara farið út í sundurliðun á þessu í síðara fskj. frá verkalýðsfélaginu. Síðar hef ég fengið skýrslu um afkomuna í nóv. til jan. s. l. Í nóv. höfðu 13 fjölskyldumenn með 41 á framfæri sínu, þar af 28 börn, í vinnulaun samtals kr. 3958.00, 304 kr. að meðaltali, eða 73 kr. á hvern einstakling. Í des. höfðu 15 fjölskyldumenn með 54 á framfæri sínu, þar af 40 börn, í vinnulaun samtals kr. 6753.00 450 kr. að meðaltali, eða 98 kr. á einstakling. Í jan. höfðu 14 fjölskyldumenn með 48 á framfæri sínu, þar af 34 börn, í vinnulaun samtals kr. 4246.00, 303 kr. að meðaltali, eða 68 kr. á einstakling. Ég veit, að ég þarf ekki að lýsa því, hvað slíkt þýðir. — Ég mun svo ekki hafa fleiri orð um þetta og legg til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til fjvn. Það er síður en svo, að lausn þessara vandræða, sem þarna steðja að, sé aðeins bundin við það, sem segir í grg., heldur hvað eina, sem til bóta horfir.