12.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í D-deild Alþingistíðinda. (4236)

166. mál, atvinnuvandræði Bílddælinga

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af orðum hv. 2. þm. N-M. vil ég taka það fram, að ég sagði ekki, að kaupfélagið hefði brugðizt skyldu sinni. Ég veit ekki til, að það hafi neinar skyldur í þessa átt, en ég sagði, að það hefði verið heppilegra að verja fénu til framkvæmda heima á Bíldudal en að senda það til Reykjavíkur. Ég veit, að kaupfélagið hefur ekki farið með fé rit í atvinnulífið, eins og ég og aðrir þeir, sem verzlun hafa stundað á Bíldudal. Ég hóf peningaverzlun á staðnum, en fólkið myndaði sitt eigið kaupfélag, en krafðist þess jafnframt af mér, að ég héldi uppi atvinnulífinu á staðnum, þó að ég þyrfti að greiða 10–20 þús. kr. í skatta á meðan kaupfélagið greiddi sama sem ekkert, eða 2 til 3 þús. Þetta var því svo ójöfn aðstaða, að ekki var hægt að halda uppi samkeppni, svo að samkomulag varð um það, að ég drægi mig til baka og kaupfélagið tæki við verzluninni. En ég benti þeim á, hversu óheppilegt það væri að slíta sundur verzlunina annars vegar og athafnalífið hins vegar, og það hefur komið á daginn. Hitt veit ég líka eins vel og hv. 2. þm. N-M., hvað mikið fé hefur verið dregið úr sparisjóðnum og úr veltu hjá kaupfélaginu m. a. til þess að byggja eitt af þeim skipum, sem S. Í. S. á. Það er ekki stór fúlga, sem farið hefur til þess. En það er stór fúlga, sem farið hefur úr sparisjóðnum til þess að standa undir kaupfélaginu, sem leysti sig úr sambandi við athafnalífið.

Varðandi það, að ég hafi verið að kalla eftir aðstoð Framsfl. — ég veit ekki, hvort ég hef sagt það þannig —, vil ég taka fram, að ég sagði þá, að þrír flokkar hefðu verið um að bera fram þáltill., sem ég talaði um.

Patreksfjörður, sem hefur s. l. tuttugu og fimm ár haft togaraútgerð, vill nú fá nýjan togara og er tilbúinn að greiða hann. Nú er það á valdi hæstv. forsrh., sem er yfirmaður þessara mála, að hafa áhrif á þetta. Ég vonast til þess, að hans flokkur líti sanngjörnum augun á þetta mál og setji að minnsta kosti ekki fótinn fyrir það. Það væri kannske betri lausn en að bera fram þáltill., sem hér er gert meira í auglýsingaskyni. Ég vænti þess, að hv. þm. leggi því lið og ekki sé gengið á rétt þeirra manna, því að það teldi ég gengið á rétt þeirra, ef þeir fengju ekki eitt af þeim skipum, sem þeir fyrir löngu hafa pantað og eru tilbúnir að greiða og þurfa að hafa til þess að halda uppi venjulegu atvinnulífi á staðnum. — Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, fyrst hv. þm. fór að ræða þetta mál.