09.02.1951
Sameinað þing: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í D-deild Alþingistíðinda. (4237)

166. mál, atvinnuvandræði Bílddælinga

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, aðeins leiðrétta ummæli hv. þm. Barð. um það, að kaupfélagið á Bíldudal hafi flutt fé af viðskiptasvæði sínu til Sambandsins til einna eða annarra framkvæmda. En hann lætur sér ekki nægja það, heldur fullyrðir hann, að kaupfélagið á Bíldudal hafi slitið sig úr sambandi við allt athafnalíf á þessu svæði. Þetta eru ósanngjörn ummæli. Þó að ég sé ekki kunnugur þar, þá veit ég, að það er ekki venja kaupfélaganna að slíta sig úr sambandi við athafnalífið á þeim svæðum, sem þau starfa á. Þess vegna er það ósanngjarnt af hv. þm. að segja þetta, eftir að hann sjálfur hefur dregið sig til baka og látið fólkið þar á staðnum afhenda sér fjárfúlgur fyrir það, sem hann hafði átt þar, og flutt allt með sér til Reykjavíkur. (HV: Hann var aldrei í neinum tengslum við atvinnulífið.) En hafi hv. þm. Barð. verið í einhverjum tengslum við atvinnulífið, eins og ég vil trúa, þá er óréttlátt að saka kaupfélagið þarna um það, sem hann ber á það í þessu efni.