22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í D-deild Alþingistíðinda. (4263)

178. mál, rekstur gömlu togaranna

Flm. (Sigurður Guðnason):

Herra forseti. Þetta mál er nú, eins og till. á þskj. 654 sýnir; flutt af mér, 2. þm. Reykv. og 4. landsk. þm. og er um rekstur gömlu togaranna. Flutningur þessarar till. er gerður að undanfarandi samþykkt verkamannafél. Dagsbrúnar, fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði o. fl. félaga um, að gömlu togararnir verði gerðir út, og einnig hefur till. þess efnis verið borin upp í bæjarstjórn Rvíkur. Vegna þessara óska, sem fram hafa komið, fannst okkur rétt, að málið kæmi til Alþingis, ef það flýtti fyrir því, að gömlu togararnir fari á veiðar. Viðvíkjandi undirstöðunni að flutningi þessarar till. er það að segja, að auðvitað er ástæðan hið geigvænlega atvinnuleysi, sem hér hefur verið í vetur. Í byrjun febrúar voru hér í Rvík 500–600 atvinnuleysingjar. Það þarf ekki að skýra fyrir hv. Alþ., hvaða afleiðingar það muni hafa fyrir menn að ganga atvinnulausir í þessari dýrtíð, sem nú er. Við, sem komnir erum á þann aldur, sem ég er á, munum gömlu atvinnuleysistímana, og viðvíkjandi því var reynt að finna upp ýmislegt, sem hægt væri að gera mönnum til hjálpar, en þá komu andstæðingar verkamannanna og sögðu, að það væri ónauðsynleg vinna, sem verið væri að framkvæma. Bæði ég og aðrir höfum verið að vona, að þessi vofa ætti ekki eftir að koma hér aftur og ógna þjóðinni með öllum sínum hörmungum eftir öll þau orð, sem fallið hafa um það, að það yrði að gera allt, sem í mannlegu valdi stæði, til þess að bægja henni frá, og allir eru sammála um það, að versta plágan, sem yfir þjóðfélagið geti gengið, sé sú að láta fjölda fólks ganga atvinnulaust. Enda hefur verið hér blómlegt atvinnulíf undanfarin ár, og sýndi það, að hér voru sköpuð geysimikil verðmæti, þegar öll þjóðin hafði næga vinnu. Í gamla daga var ekki fyrir hendi arðbær atvinna, en nú gegnir öðru máli, því að nú eigum við stórvirk atvinnutæki.

En í þessu sambandi er það þrennt, sem fyrst liggur fyrir, en það er í fyrsta lagi verksmiðjurnar hér í Rvík, í öðru lagi vinnuaflið og í þriðja lagi öflun hráefnanna. Fyrst eru það verksmiðjurnar, Faxaverksmiðjan, sem er nýtízku verksmiðja, og Hæringur, sem bæði er tilbúinn og hefur nýtízku tæki. Nú verður verkamönnum, sem eru atvinnulausir, á að spyrja sjálfa sig, hvernig á því geti staðið, að varið hefur verið tugum milljóna kr. í hin fullkomnustu atvinnutæki, sem svo eru látin standa ónotuð. Auðvitað er það hin mesta sóun á fé að verja tugum millj. til verksmiðjubygginga, ef þær eru svo látnar standa auðar, og það er enginn vafi á því, að þessar verksmiðjur eru mjög fljótvirkar og þurfa lítið vinnuafl til þess að afköstin verði mikil. Faxaverksmiðjan getur til dæmis unnið úr togarafarmi á sólarhring með 15–16 mönnum.

Þá er það vinnuaflið, en það er önnur hliðin á þessu máli. Nú er það að segja, að ég gæti ímyndað mér, að ónotað vinnuafl — ef framboð er fyrir Ameríkumarkað — sé svo ódýrt, að hvergi sé til eins ódýrt vinnnafl. Á Keflavíkurflugvelli var kaup verkamanna árið 1948 1 dollar 70–80 cent, og nú er kaup Ameríkumanna á flugvellinum 1 dollar 70–80 cent, en kaup Íslendinganna er komið í 60–65 cent, svo að það þarf 3 Íslendinga til þess að vinna á móti 1 Ameríkumanni. Ætti því að vera auðvelt að framleiða fyrir þennan markað, og er ekki undarlegt, að mönnum finnist einkennilegt, að þessi atvinnutæki séu látin standa ónotuð. — Ég skal viðurkenna, að gömlu togararnir eru ekki nýtízku tæki til þess að afla hráefnanna.

En þegar tekið er tillit bæði til vinnuaflsins og hinna stóru verksmiðja, þá er það ekki svo ýkjamiklu dýrara að reka gömlu togarana en hina nýju. Og ég get vel sett mig inn í, að það sé mikill mismunur að vinna á gömlu togurunum eða hinum nýju. Ég álít eftir þessu, að útgerð gömlu togaranna sé svo mikið hagsmunamál fyrir bæjarfélagið og raunar þjóðfélagið í heild, að jafnvel þótt bærinn eða ríkið yrði að bera nokkurn halla af útgerð þeirra, þá væri þó hitt miklu mikilsverðara, að það vinnuafl verði notað, sem annars er látið ónotað, sérstaklega að vetrinum. Því að þá kæmi það til greina, að það fengi fjöldi manna vinnu við að skapa útflutningsverðmæti í stað þess, að nú er fjöldi heimila þessara manna, sem bæjarsjóður verður að hafa á framfæri sínu. Og nú er eitt, og það er sú fjármálavizka að láta þessi tæki vera ónotuð í öllum þeim gjaldeyrisvandræðum, sem við eigum við að stríða. Ég get ekki skilið, hvaða hugsun vakir fyrir þeim mönnum, sem taka stórfelld erlend lán, sem milljónum skipta, til þess að leggja í atvinnutæki, en láta þau atvinnutæki, sem fyrir hendi eru, liggja og grotna og fúna niður.

Hugsum okkur t. d., að menn færu og settu stíflu í vatnsrennsli að Sogsvélunum, sem búið er að kaupa fyrir of fjár, svo að þær gætu ekki starfað. Menn mundu álíta, að þeir menn væru ekki normal. Það er nákvæmlega það sama, sem hér er verið að gera. Í landi eru stórvirkar verksmiðjur, sem skortir hráefni til að vinna úr og standa þess vegna auðar, að það eru ekki gerð út skip til að afla þeirra. Þetta væri því greinilega fundið fé á allan máta, ef þessi skip væru gerð út. Og það getur ekki viðgengizt, að skipin séu látin grotna þarna niður og verksmiðjurnar látnar standa auðar, meðan mennirnir labba um hafnarbakkann dag eftir dag og fá ekki handtak að gera.

Við, sem berum þessa till. fram, gerum ráð fyrir því, að jafnvel þó að ekki yrði hægt að reka togarana með hagnaði eins og þeir nú eru, þá mætti reyna, hvort ekki reyndist hagkvæmt að setja í þá olíukyndingu. Menn hafa gert áætlanir um það, hvað þessi breyting mundi kosta, og hafa áætlanir manna verið nokkuð mismunandi, allt frá 200–500 þús. kr. á hvern togara. Og ég er viss um, að það mundi gera þá hæfari til notkunar, ef þetta yrði gert. Og það er vitað, að þeir mundu á tiltölulega skömmum tíma afla miklu meiri erlends gjaldeyris en þessi breyting mundi kosta, auk þess sem þeir mundu veita þeim mönnum, sem nú eru atvinnulausir, arðbæra atvinnu. Það er öllum kunnara en frá þurfi að segja, hverjar afleiðingar aukið atvinnuleysi hefur í för með sér, og þess vegna er það glapræði að gera ekki allt, sem í mannlegu valdi stendur, til að auka atvinnulífið, svo að atvinnuleysið leiði ekki svelti yfir heimili fjölda manna.

Ég mun svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni, en óska eftir því, að þessu máli verði vísað til hv. fjvn.umr. lokinni.