22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (4265)

178. mál, rekstur gömlu togaranna

Flm. (Sigurður Guðnason) :

Herra forseti. Varðandi fsp. hv. þm. Barð. um það, hvort við flm. ætluðumst til, að ríkið borgaði hallann af rekstri gömlu togaranna, þá þóttist ég hafa tekið það fram í framsöguræðu minni, að atvinnuleysið væri orðið svo alvarlegt fyrst og fremst fyrir bæjarstj. og ríkisstj., að það yrði að gera einhverjar ráðstafanir í þessum efnum, jafnvel þótt þar yrði einhverju að fórna. Öll ræða hv. þm. Barð. snerist aðeins um það, hvort hægt væri að gera togarana út þannig að rekstur þeirra bæri sig, en án nokkurs tillits til hinnar brýnu nauðsynjar, sem býr að baki þessa máls. — Þá talaði hv. þm. Barð. um, að það hefðu verið verkamenn og sjómenn, sem hefðu látið togarana liggja aðgerðalausa í sumar, en það er nú engin ný bóla að heyra, að verkamönnum sé kennt um togaraverkfallið í sumar, því að það er gert í hvert skipti, sem minnzt er á atvinnumál verkalýðsins. Ég vil aðeins minna á það í þessu sambandi, að þetta verkfall hafði staðið í mánuð, áður en nokkrar sættir voru reyndar, og það þarf enginn að álíta, að sökin sé algerlega öðrum aðilanum að kenna. Það er viðurkennt, að sjómenn þurftu að fá þessar réttarbætur, sem þeir fóru fram á, og þungasökin á þessu verkfalli liggur hjá Alþ. og þ. á m. hjá hv. þm. Barð. eins og öðrum, sem voru á móti frv. mínu um að lengja hvíldartíma sjómanna á togurum, því að það er mikið vafamál, hvort til nokkurs verkfalls hefði komið, ef sú till. hefði verið samþ.

Varðandi kostnað við að setja olíukyndingu í gömlu togarana, þá er ég satt að segja ekki dómbær um þá hluti, en ég hef þar farið eftir reynslu og upplýsingum frá útgerðarmönnum.

Þá ræddi hv. þm. Barð. um, að það þyrfti að greiða sjómönnum annað kaup á gömlu togurunum en þeim nýju, en ég veit þó ekki til, að nokkurn tíma hafi verið gerðir samningar um mismunandi kaup á togurum. — Þá vil ég aðeins geta þess, af því að alltaf er verið að tala um, að sjómenn á karfaveiðum hafi fengið 5 þús. kr. á mánuði, að það er sagt, að atvinnurekendur hafi gert ráð fyrir því, þegar samið var, að þeir mundu fá 3 þús. kr., og að þeir hafi ekki reiknað með, að skipin öfluðu svo vel, að afleiðingin varð sú, að kaupið varð svona hátt.

Eins og ég tók fram í upphafi, að við, sem flytjum þetta mál, gerum okkur ljóst, að ríki eða bær verður á einhvern hátt að taka á sig hallann af rekstri gömlu togaranna, ef þeir verða gerðir út, en við teljum þó, að það verði minni útlát fyrir þessa aðila heldur en þeir yrðu að láta úti, ef mörg hundruð manna þyrftu lengi að ganga atvinnulausir.