22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (4266)

178. mál, rekstur gömlu togaranna

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég ætla að svara hv. flm. nokkrum orðum. Hann talaði hér eins og hann væri kominn á verkalýðsfund til að agitera fyrir launakjörum. Ég var að benda á þá erfiðleika, sem væru í sambandi við framkvæmd þessa máls, og er óþarfi að vera með hnífilyrði í minn garð fyrir það, sem ég sagði. — Hv. flm. sýndi það með ræðu sinni, að hann og hans meðflm. hafa ekkert hugsað um málið, ekki athugað hin einföldustu atriði þess, hvað þá brotið það til mergjar. Hann viðurkenndi þó það — og virði ég það — að þeir ætluðust til þess að ríkissjóður — og hann sagði einnig bæjarsjóður, sem er auðvitað algerlega utan við verksvið Alþ. — ætti að greiða hallann af þessari útgerð. — En úr því svo er, hefðu flm. vitanlega átt að láta þetta koma fram í grg. og áætlun um rekstrarkostnað slíkrar útgerðar og halla af henni, og það væri hið mesta ábyrgðarleysi af fjvn., ef hún afgr. slíka till. án þess að hafa nokkra hugmynd um, hvað hún mundi kosta ríkissjóð. Fjvn. á kröfu á því, þegar till. er borin fram um slíkt stórmál, að það sé vegið og metið í grg., hvað ríkissjóður tekur á sig þungan bagga með samþykkt till. og hvað hann mundi taka á sig þungan bagga, ef hún yrði felld, því að hv. flm. sagði, að þá skildum við, hvað það kostaði ríkissjóð, ef til slíks kæmi. Hér hefur hins vegar ekkert komið fram um það í grg. eða framsögu, hver kostnaðurinn muni verða við framkvæmd, þessa máls eða eftir hvaða leiðum eigi að afla fjár til þess. Hv. flm. hefur aðeins upplýst, að ætlunin sé, að ríkissjóður greiði hallann.

Þá vildi hv. flm. halda því fram, að höfuðsökin á togaraverkfallinu í sumar væri sú, að Alþ. hefði ekki viljað samþ. frv. hans um 12 klst. vinnu á togurum, og vildi kenna mér þar um. En ég get upplýst, að ég hef aldrei haft tækifæri til að segja neitt um þetta mál, því að málið var aldrei flutt í Ed., þar sem ég á sæti, svo að hann veit ekkert um afstöðu mína til þessa máls, nema hann haldi, að ég sé bundinn á sama klafann í mínum flokki og hann í sínum, en það er ég ekki.

Hv. flm. sagði, að það væri ekki ný bóla, ef rætt væri um kjarabætur verkamönnum til handa, að menn segðu, að það væri það sama og að setja þjóðfélagið á hausinn. Ég var ekkert að ræða þau mál, heldur um þá erfiðleika, sem af því hlytust, ef það ætti að láta menn í sömu starfsgrein vinna við mismunandi aflamöguleika, því að það er ekki hægt að fá á gömlu skipin nema lélega menn, sem aftur leiðir af sér léleg afköst, nema með því að yfirborga því fólki, sem réðist á gömlu skipin, en það þolir útgerð gömlu skipanna miklu siður en nýju togaranna. — Annars viðurkenndi hv. þm., að hann hefði ekkert vit á þessum breytingum, sem þyrfti að gera á skipunum, og hann veit ekkert um rekstrarkostnað þeirra eða hvað ríkissjóður kæmi til með að greiða. Hann veit bókstaflega ekkert um málið.

Ég vil svo að lokum mótmæla því, að ég hafi gefið nokkurt tilefni til þess, að hann héldi því fram, að ég eða aðrir væru að sjá eftir því, þótt sjómenn hefðu 5 þús. kr. mánaðarlaun, o., ég hygg, að hann muni ekki finna einn einasta útgerðarmann, sem finnur að því, ef skip hans aflar vel, að skipverjar geti fengið hvaða hlut sem er, eftir að búið er að semja.

En mér skildist það á hv. þm., að útgerðarmenn hefðu gert ráð fyrir, að sjómenn á karfaveiðum mundu ekki geta fengið nema 3 þús. kr. á mánuði, en af því að aflinn hefði orðið svo mikill, hefðu þeir fengið 5 þús. kr., og að alltaf væri verið að telja þetta eftir. Þetta er tómur hugarburður, sem hefur myndazt í höfði hv. 6. þm. Reykv., en hefur hreint ekki neina stoð í veruleikanum.

Ég mun ekki treysta mér til sem form. fjvn. að fylgja till. til síðari umr. nema fyrir liggi miklu nánari upplýsingar um málið. Till. verður að sendast ákveðnum aðilum, sem eiga að reikna út kostnað við framkvæmd málsins og gefa nánari upplýsingar um það, og það þýðir, að till. mun ekki ná fram að ganga á þessu þ., úr því að flm. hennar hafa vanrækt að láta þessar upplýsingar fylgja málinu.