21.02.1951
Sameinað þing: 43. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (4276)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er á allra vitorði og alkunna, að afkoma Íslendinga hefur um langan aldur og fyrst og fremst byggzt á sókn þeirra á miðin. Þessi mið eru talin ein hin auðugustu fiskimið í heimi, og þau eru sá grundvöllur, sem byggt hefur verið á og valdið því, að afkoma þjóðarinnar hefur batnað mjög á s. l. hálfri öld. Auðlegð fiskimiðanna er að verulegu leyti grundvöllur þeirra lífskjara, sem við búum við í dag. En sú staðreynd verður ekki sniðgengin, að á undanförnum árum hefur átt sér stað geysimikil rányrkja á fiskimiðunum. Fjöldi erlendra fiskiskipa, búinna fullkomnustu tækjum, hefur sótt þangað. Raunar hafa Íslendingar aflað sér þessara tækja, en oftast á eftir hinum erlendu keppinautum, og sótt síðan á miðin. En vitað er, að fjöldi hinna erlendu veiðiskipa er miklu meiri, og rányrkjan stafar fyrst og fremst af þeirra völdum. Þessi staðreynd — rányrkja fiskimiðanna — hefur orðið auðsærri eftir því, sem árin hafa liðið. Fiskigöngur á fiskimiðin hafa orðið tregari og tregari, og ég bygg, að það sé ekki of mikil svartsýni, þótt sagt sé, að ef þessari rányrkju heldur áfram á grunnmiðunum, er grundvellinum kippt undan íslenzka vélbátaflotanum. Það er því ljóst, að aukin verndun grunnmiðanna er ekki aðeins hagsmunamál allra útgerðarmanna, heldur og allrar þjóðarinnar. Takmarkið er, að allt grunnmiðið kringum Ísland verði friðað fyrir botnvörpuveiðum, en botnvarpan hefur valdið einna mestum spjöllum og er eitt hið háskalegasta tæki alls lífs í sjónum.

Þessi till. til þál. á þskj. 659 lýtur að verndun fiskimiðanna fyrir Vestfjörðum og fer fram á það, að hv. Alþingi skori á ríkisstj. að hraða sem mest setningu reglugerðar um verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum á grundvelli laga nr. 44 frá 5. apríl 1948. Í þeim lögum, 1. gr., segir, að sjávarútvegsmálaráðuneytið skuli með reglugerð ákvarða takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skuli háðar íslenzkum reglum og eftirliti.

Ríkisstj. hefur á grundvelli þessara laga gefið út reglugerð um verndun fiskimiðanna fyrir Norðurlandi, er sett var 22. apríl s. l., og var henni mjög fagnað, ekki aðeins af fiski- og sjómönnum í þessum landshluta, heldur og af öllum þeim, er láta sig útvegsmál einhverju skipta. Með þessu var mörkuð stefnan og fyrirheit gefin um það að hefja aðgerðir til þess að koma í veg fyrir rányrkju fiskimiðanna.

Vestfirðingar hafa beðið mikinn hnekki af völdum botnvörpuveiðanna, því að kunnugt er, að fyrir Vestfjörðum eru einhver hin beztu togveiðimið landsins, og er þar svo að segja allan ársins hring fjöldi erlendra veiðiskipa. Áhrif þessa eru nú að koma fram. Um mörg ár hefur þorskafli orðið tregari og tregari, og það má segja, að nú á þessari vertíð hafi verið um algert fiskileysi að ræða. Vélbátaflotinn hefur sótt á hin sömu mið og alltaf lengra og lengra út á sjóinn, en hann hefur ætíð orðið þurrari og þurrari af fiski. Fiskigöngur hafa orðið strjálli og strjálli á þessi mið. Það þarf ekki að lýsa því, hvaða áhrif þetta hefur á fólkið, sem byggir afkomu sína á þessari atvinnu. Vestfirðingar byggja atvinnulíf sitt fyrst og fremst á vélbátaútgerðinni. Togaraútgerð þaðan hefur verið lítil, aðeins frá 2 stöðum, Patreksfirði og Ísafirði, um nokkurra ára skeið. En Vestfirðingar hafa horft upp á innlend og erlend skip, hvernig þau hafa girt fyrir fiskinn með þrotlausum togveiðum. En hinn minnkandi afli vélbátaflotans hefur hins vegar haft áhrif á starfsemi hraðfrystihúsanna, og hafa þau fengið sáralítið hráefni til vinnslu. Afleiðingin af þessu verður atvinnuleysi og stórkostleg þrenging lífskjaranna. — Hér hef ég aðeins stiklað á stærstu steinunum, enda mun ekki gerast þörf að lýsa þessu nánar. Hv. þingmenn vita, að saga þessi er sönn og styðst við raunveruleikann.

Vestfirðingum er það mikið áhugamál, að svipaður háttur verði hafður á málefni þessu og þegar sett var reglugerðin 22. apríl s. l. um verndun fiskimiðanna fyrir Norðurlandi. Með henni var stigið merkilegt spor og álitið, að gefið hafi verið fyrirheit um það, að haldið yrði áfram um að auka verndun fiskimiðanna hringinn í kringum landið. Því hef ég leyft mér að flytja þessa till., og vænti ég þess, að hv. alþm. skilji þá djúpu alvöru, sem hér liggur á bak við, og komi auga á þá hættu, sem orsakazt hefur af skefjalausri rányrkju á miðunum, þar sem heill landshluti byggir lífsafkomu sína á. — Ég legg áherzlu á það, þótt nú sé áliðið þingtímans, að till. þessi verði samþ. og sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, megi starfa sem greiðlegast að afgreiðslu málsins. Ég mun ekki gera hér að umtalsefni þær brtt., sem fram hafa komið, því að öl] rök hníga að verndun fiskimiðanna, og alls staðar koma fram kröfur, er ganga í þessa átt, en hins vegar getur það verið framkvæmdaratriði, hvort sjóða á eina till. upp úr þessum eða hafa þær hverjar í sínu lagi. Það er bezt að láta nefndina um það.

Ég vil endurtaka það, að ef ekki verður að gert í þessu efni og reynt að spyrna hér fæti við, þá liggur við landauðn í þessum landshluta, og það ástand, sem nú er ríkjandi á Vestfjörðum, er einmitt fyrir áhrif rányrkjunnar. — Ég óska, að till. þessari verði vísað til hv. allshn. að þessari umr. lokinni.