22.02.1951
Sameinað þing: 44. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (4280)

179. mál, verndun fiskimiða fyrir Vestfjörðum

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að hér á Alþingi séu fáir eða engir, sem telja, að þessi till. um verndun fiskimiða, sem hv. þm. N-Ísf. ber fram á þskj. 659, sé að óþörfu fram komin. Ég segi þess vegna, að eftir því, sem ég þekki til, hef ég svipaðar skoðanir og hann og skal því ekki hafa orð mín mörg. Get ég gert hans orð að mínum orðum. Fyrir Norðausturlandi mæðir svipað á, þótt á öðrum árstíma sé. Þar er það um sumartímann, á Vestfjörðum um vetrartímann. En sjómenn á Norðausturlandi eiga við svipaðar aðstæður að etja og hafa svipaðar áhyggjur í sambandi við fiskimiðin. Þær áhyggjur eru yfirleitt sameiginlegar sjómönnum og útgerðarmönnum og stafa af veiðum innlendra og erlendra togara. Það verður að draga úr þeim afleiðingum, sem þær hafa, og er nauðsynlegt að gera tilraun til að vernda meira af landgrunninu. Í samræmi við þetta er þegar sett reglugerð frá 22. apríl 1950 um verndun fiskimiða fyrir Norðurlandi og er byggð á lögum frá 1948. Var uppi nokkur óánægja á Norðausturlandi yfir, að friðunarsvæðið skyldi ekki ná lengra en að Langanesi. Var talið, að það hefði átt að ná að Glettingsnesi austan Borgarfjarðar. Vil ég því leyfa mér að bera fram brtt. við brtt., um að á eftir orðunum „frá Horni að Reykjanesi“, komi: og fyrir norðausturströnd landsins á svæðinu frá Langanesi að Glettingsnesi. Ætla ég ekki að hafa orð mín fleiri, en vænti þess, að n. taki brtt. til athugunar.