21.11.1950
Sameinað þing: 16. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1553 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

Varamaður tekur þingsæti, rannsókn kjörbréfs

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég efast ekki neitt um það, að niðurstaða hv. kjörbréfanefndar muni vera rétt, að hlutaðeigandi varamaður sé rétt kjörinn varamaður og eigi því að taka sæti hér á Alþ. um stundarsakir, ef þm., sem hann er varamaður fyrir, hefur haft lögleg forföll til þess að fara af þingi. Nú er ég ekkert að draga það í efa beinlínis, að svo hafi verið, að hann hafi haft lögleg forföll til þess, en vil benda á, að ekkert er greint frá því. Mér barst aðeins bréf frá formanni Sósfl., að þessi þm. þyrfti að fara til Danmerkur í nauðsynjaerindum, en ekkert minnzt á veikindaforföll eða annað. Ég er ekki að gera neinar sérstakar aths. út af þessari mannabreytingu hér á þinginu, sem nú liggur fyrir, en nota tækifærið til að láta það í ljós, að mér er farið að finnast þetta dálítið einkennilegt, að það er svo að segja í hverri viku tilkynnt, að einhver af hv. þm. þurfi að fara af einni eða annarri ástæðu, og beðið um, að varamaður komi í staðinn. Ég hef skilið bæði stjskr. og þingsköp Alþingis svo, að þetta eigi því aðeins rétt á sér, að þm. falli frá, verði veikir eða hafi önnur gild forföll. Nú virðist það eiga að gilda, að þm. fái þessa undanþágu, ef þeir aðeins vilja hvíla sig frá störfum eða eitthvað slíkt. Ég ætlast ekki til, að það sé neitt sérstakt gert út af þessu núna og mun samþ. kjörbréf þessa varamanns, en vildi gjarnan, að hv. kjörbréfanefnd færi að athuga það hér eftir, ef þessi mannaskipti halda áfram jafnótt og verið hefur, hvort það eru lögmætar ástæður fyrir þm. að mæta ekki á þingi og senda varamann. Ég skil þau ákvæði, er hér að lúta, þannig, að þm. eigi alls ekki að öllu leyti að ráða þessu sjálfur, heldur eigi hans ástæður að ráða því, hvort hann hefur rétt til þess að hverfa af þingi og senda varamann í staðinn.