22.02.1951
Sameinað þing: 45. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í D-deild Alþingistíðinda. (4293)

184. mál, námslánasjóður

Flm. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt fyrra þm. Rang. að flytja á þskj. 691 till. til þál. um námslánasjóð. En þar er farið fram á, að Alþingi skori á ríkisstj. að undirbúa fyrir næsta reglulegt þing frv. til l. um lánasjóð, er veiti lán íslenzkum námsmönnum, er nám stunda erlendis. Alþingi veitir nú mikið fé til námsmanna, bæði hér heima og erlendis, eða kr. 1075000, og af því fá námsmenn við Háskóla Íslands kr. 250000. Þetta er ríflegur fjárstyrkur, og ég held mér sé óhætt að segja, að þetta sé tiltölulega meira fé en nágrannaþjóðir okkar veita í þessu skyni. En ég held jafnframt, að þetta mikla fé komi ekki að eins miklum notum og æskilegt væri og nauðsynlegt. Stefna sú, sem hér er fylgt, er vafasöm. Ég tel tvímælalaust heppilegra að veita færra námsfólki styrki, en hafa styrkina til þeirra, sem þá fá á annað borð, ríflegri. Nú er námsmönnum erlendis ekki veittur styrkur nema til fjögurra ára. En þetta veldur því, að námsmenn, sem leggja stund á lengra nám — og flest nám við háskóla tekur lengri tíma en 4 ár — lenda í fjárþröng á síðasta hlutanum, en hann er, eins og kunnugt er, oftast dýrasti hluti námsins Ég hygg, að sá mikli styrkur, sem Alþ. veitir námsmönnum, leysi ekki vandræði neins námsmanns til hlítar. Það er engin trygging fyrir því, að afburðanámsmenn verði ekki að hverfa frá námi eða leggi jafnvel ekki út í að stunda nám vegna fjárskorts. Ég tel því rétt að breyta um stefnu og taka upp — auk styrkjanna — lánveitingar í allstórum stíl. Ég álít æskilegt, að ríkið styrki þá námsmenn ríflega, sem sýna, að þeir eru afburðanámsmenn, bæði til að tryggja, að efnilegir námsmenn hefji nám og geti síðar orðið landinu til hins mesta gagns, og verðlauna hæfileikamenn, svo að það verði þeim til hvatningar og eflingar til nýrra átaka.

En auk þess sem ríkið styrkti ríflega góða námsmenn, þá væri æskilegt, að það veitti öðrum lán, svo að þeir gætu átt kost á að stunda nám. Slík lán eru vel þekkt erlendis og hafa gefið góða raun, þar sem þau tíðkast. Einnig hefur þetta fyrirkomulag reynzt vel, hvað endurgreiðslu slíkra lána viðkemur, því að slíkir námsmenn verða oft efnamenn, sem hafa góðar aðstæður til þess að endurgreiða lánið.

Ég hygg því, að rétt væri að breyta um stefnu og beina því fjármagni, sem ríkissjóður treystir sér til að sjá af í þessu skyni, til þess að koma upp sjóði, sem yrði undirstaðan undir slíkar lánveitingar, og ég tel ástæðu til þess að rannsaka, hvort ekki væri athugandi að fá nokkuð af stofnfénu með því að fá menn til þess að endurgreiða þá styrki, sem ríkið hefur veitt þeim á námsárum þeirra og voru þeim mikils virði á þeim tíma, þótt þeir séu ekki neinar verulegar upphæðir nú. — Ef að þessa væri horfið, mætti gera ráð fyrir, að ríkið sparaði nokkuð af því fé, sem nauðsynlegt þykir að veita í styrki, en í stað þess yrði komið upp ríflegum sjóði, sem gæti létt þessa byrði ríkissjóðs. Til að byrja með væri eðlilegt, að Landsbanki Íslands lánaði nokkurt fé í þessu skyni, en ég ætla ekki að ræða þá hlið málsins nú, því að eðlilegra er, að metið verði allt það, sem til greina kemur í þessu sambandi, þegar frv. yrði rætt hér í þinginu. Þótt þessi till. nái aðeins til þeirra námsmanna, sem stunda nám erlendis, koma hinir, sem stunda nám hér á landi, auðvitað til greina líka um lán úr slíkum sjóði. En þörfin er þó brýnni fyrir þá, sem erlendis dveljast. Hér er um að ræða almennt hagsmunamál fyrir námsmenn, og vænti ég, að till. verði tekið vel af hv. þm. Hún fjallar einungis um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að undirbúa frv. um námslánasjóð, og kæmi málið þá auðvitað aftur til kasta þingsins, og gæfist þá kostur að ræða málið í einstökum atriðum. — Ég leyfi mér svo að óska eftir, að till. verði vísað til hv. fjvn. að þessari umr. lokinni.