08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (4324)

900. mál, Bernarsambandið

Viðskmrh. (Björn Ólafsson) :

Varðandi tvær fyrstu fyrirspurnirnar skal það tekið fram, að mjög erfitt hefur reynzt að fá upplýsingar um það efni. Ráðuneytið hefur snúið sér til fjárhagsráðs, en það hefur ekki getað gengið úr skugga um, nema með mjög miklum fyrirvara, hve miklar yfirfærslur sé hér um að ræða. En þó er vitað, að um mjög litlar yfirfærslur er að ræða, og stafar það af því, hve erfitt hefur verið að fá fjárhæðir yfirfærðar, en vegna skorts á upplýsingum vil ég engar tölur nefna í því sambandi.

Um annan lið er ekki vitað með vissu nema um 1273.51 kr., sem STEF hefur móttekið fyrir flutning á íslenzkum verkum erlendis. Landsbankinn hefur lofað að athuga þetta nánar, en ég hygg, að þar sé ekki um neinar verulegar tekjur að ræða.

Þá er þriðji liður spurninganna um það, hve miklar tekjur STEFS hafa verið síðan það var stofnað og hversu mikið það hefur greitt fyrir höfundarrétt og hversu mikill hefur verið stjórnar- og skrifstofukostnaður þess.

Tekjur STEFS til 31. des. 1949, eða fyrsta árið, sem það starfaði, reyndust vera 361396.29 kr., þar af 359524.20 kr. frá ríkisútvarpinu fyrir flutning á verkum þar, Mismunurinn, 1872.09 kr., er vaxtatekjur 598.58 kr. og fyrir flutning á íslenzkum verkum erlendis 1273.51 kr.

Stjórnar- og skrifstofukostnaður STEFS árið 1949 nemur samkv. reikningum, er ráðuneytinu hafa borizt, 92454.67 kr., og þar við bætast 124639.70 kr., sem greiddar eru árið 1949, en reiknaðar stofnkostnaður á reikningum STEFS, en að dómi ráðuneytisins er mjög vafasamt að telja það stofnkostnað, svo að stjórnar- og skrifstofukostnaður STEFS 1949 hefur numið 217094.37 kr., en þar í er falinn nokkur stofnkostnaður.

Fyrir höfundarrétt hefur STEF fengið greitt 1273.51 kr. fyrir flutning erlendis, eins og áður segir.

Í úthlutunarsjóði STEFS voru í árslok 1949 72656.43 kr., en af því hefur engu verið úthlutað. — Ég hygg, að með þessu sé þessum spurningum svarað.