08.11.1950
Sameinað þing: 12. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í D-deild Alþingistíðinda. (4325)

900. mál, Bernarsambandið

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir glögg svör. Ég leyfi mér að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra, hvort ráðuneytinu hafi verið þessar tölur lengi kunnar eða það hafi aflað sér þessara upplýsinga nú, þegar þessar fyrirspurnir komu fram, og ef svo er, hvort ráðuneytið sjái ekki ástæðu til breytinga á skipulagi þessara mála. Tekjur erlendis nema nær engu, og engu hefur verið úthlutað til höfunda innanlands. Í úthlutunarsjóði eru aðeins rúmar 72 þúsundir, en stjórnar- og skrifstofukostnaður rúmar 217 þúsundir, eða næstum þreföld sú upphæð.