29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 340 í D-deild Alþingistíðinda. (4352)

901. mál, límvatn til áburðar

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Þann 18. jan. s. l. var samþ. þál., þar sem Alþ. skorar á ríkisstj., að hún hlutist til um að láta framkvæma þegar á næsta vori — þ.e. s. l. vor — tilraunir með límvatn sem áburð til ræktunar. Var ætlazt til þess, að tilraunastöðvum ríkisins í jarðrækt yrði falið að gera þessar tilraunir.

Það er vitað, að slíkar tilraunir hafa einnig verið gerðar í nágrannalöndunum, m. a. í Noregi, við góðan árangur, og vildi ég því spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort þessar tilraunir hafi verið gerðar á s. l. sumri, sem fyrirskipað er í þál., og ef svo er, hver árangurinn hafi orðið.