29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 342 í D-deild Alþingistíðinda. (4354)

901. mál, límvatn til áburðar

Fyrirspyrjandi (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svarið. En ég harma hins vegar, að hann hefur látið undir höfuð leggjast að framfylgja hér vilja Alþ. í þessu máli. Hann hefur í sambandi við það lesið upp langa skýrslu frá atvinnudeildinni til afsökunar á því, að hann hefur ekki gert þetta, lesið skýrslu, sem mér var kunnugt um, því að ég var búinn að fá þá skýrslu áður en þáltill. var samþ. Ég get sagt hæstv. ráðh., að aðrir menn hafa gert þessar tilraunir með góðum árangri, sem hæstv. landbrh. vanrækti að gera. Og það er svo að segja enginn tilkostnaður við að gera þessar tilraunir, sem ætlazt er til eftir þáltill., því að það mundi hver tilraunastöð vera fús til að taka við litlu magni af þessu límvatni, t. d. 5–10 tunnum, til að bera það á ákveðna reiti á tilraunastöðinni, blönduðu með ýmsum áburðartegundum öðrum, og gera þannig raunhæfar tilraunir með þetta. Þetta er hægt að gera án þess að veita nokkurt sérstakt fé til þess. Tilraunastöðvarnar geta gert svona litlar tilraunir, sem hér er ætlazt til, án neins teljandi kostnaðar, en þó með árangri. Hins vegar hefði mátt spara að lesa allar þessar hugleiðingar frá atvinnudeildinni, sem þeir hafa þar skemmt sér við að búa út, þegar þeir höfðu ekkert annað að gera. Ég vildi hins vegar, að hæstv. landbrh. léti gera tilraunir með þetta næsta vor, nálægt stöðinni, þar sem límvatnið er framleitt. Og ef hann vill ekki láta kosta til þess að aka nokkrum tunnum af límvatni til ræktunarstöðva, ætti hann að láta gera þessar tilraunir rétt við húsveggina, þar sem límvatnið er framleitt. — Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. láti í ljós, að þál. þessi verði framkvæmd, eins og til var ætlazt, þegar hún var samþ. á þinginu 1950.