29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 344 í D-deild Alþingistíðinda. (4359)

902. mál, soðkjarnaverksmiðja

Atvmrh. (Ólafur Thors) :

Herra forseti. Ég tel mig bezt og í skemmstu máli svara fyrirspurn hv. þm. Barð. með því að lesa meginkafla úr bréfi frá Síldarverksmiðjum ríkisins, sem fengu þessa fyrirspurn hv. þm. til umsagnar. En umsögn þeirra er í aðalefnum þessi:

„Skömmu eftir að Alþingi hafi samþykkt lagafrumvarpið um að reisa stöð til hagnýtingar efna úr síldarsoði, tók stjórn Síldarverksmiðja ríkisins að athuga frekar leiðir til framkvæmda.

Sökum breytingar þeirrar, er varð á gengi ísl. krónunnar eftir að lagafrumvarpið var samþykkt, voru fyrri áætlanir endurskoðaðar, og hækkaði þá stofnkostnaður stöðvarinnar úr 4 millj. í rúmar 6 milljónir.

Rætt var við skrifstofustjóra viðskiptamálaráðuneytisins um útvegun Marshallfjár til kaupa á nauðsynlegum tækjum í Bandaríkjunum, og taldi hann fé það til reiðu, ef Síldarverksmiðjur ríkisins gætu tryggt fé í mótvirðissjóði og fé til greiðslu á innlendum kostnaði. Enn fremur var rætt við fjárhagsráð um fjárfestingu.

Sökum hins mikla stofnkostnaðar, svo og hins, að ýmislegt var að gerast erlendis í þessum efnum, einkum í Noregi, er leitt gæti inn á nýjar brautir, þótti stjórninni rétt að bíða átekta, en sendi verkfræðing sinn á s. l. vori til Noregs til frekari athugana. Leiddu þær athuganir í ljós, að fara megi greiðari og ódýrari leiðir en áður var ráð fyrir gert. Þar sem og einsýnt var, að eigi mundi koma til framkvæmda fyrir síðustu sumarvertíð, ákvað stjórn S. R. að fresta málinu, þar til séð yrði, hvernig afkoma verksmiðjanna mundi verða. Svo sem kunnugt er, brást síldveiðin hrapallegar síðasta sumar en nokkru sinni fyrr og raskaði þeim grundvelli, er fyrrgreindar áætlanir voru reistar á, þ. e. meðalafkomu síðastliðinna sumra.

Þó að síldveiðarnar hafi brugðizt og stjórn S. R. því eigi talið ráðlegt að hefja framkvæmdir, hafa karfaveiðarnar skapað ný sjónarmið, er gefa verður gaum, því að karfasoðið er, engu síður en síldarsoðið, mikilsvert hráefni til framleiðslu fóðurefnis. Er nú í athugun, hvort ekki muni fært að reisa soðvinnslustöð, er sé talsvert minni en sú, sem ráð var fyrir gert í lögunum, en orðið geti mikilsvert reynsluspor í þessum málum. Framkvæmdir hljóta þó að fara eftir fjárhagsgetu verksmiðjanna og hvernig kann að takast um útvegun lánsfjár til framkvæmdanna.“

Ég hef í sjálfu sér engu við þetta að bæta öðru en því, út af síðustu spurningu í ræðu hv. þm., um hvort Marshallfé væri til umráða til að byggja þessa verksmiðju fyrir, þá dreg ég það mjög í efa, eins og komið er málum, að það fé verði hægt að fá til þessa, þar sem búið er að ráðstafa svo verulegum hluta af Marshallfénu til virkjana og áburðarverksmiðjubyggingar.