29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í D-deild Alþingistíðinda. (4364)

903. mál, dýpkunarskipið Grettir

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Varðandi rekstrarkostnað dýpkunarskipsins Grettis hef ég hér í höndunum skýrslu frá vitamálastjóra. Og ég hef tilhneigingu til að svara fyrirspurninni þannig, að það hafi verið gerðar virðingarverðar tilraunir til þess að draga úr rekstrarkostnaði við þetta skip og að þær hafi borið góðan árangur. Ég tel, að nokkur sönnun þess finnist við samanburð á útgjöldum ársins 1949 og 1950 við rekstur skipsins, þar sem niðurstöðutölurnar eru þær, að kostnaðurinn 1949 var 1289 þús. kr., en 1950, að sönnu með færri útgerðardögum, kr. 849 þús. kr. Ég viðurkenni, að það er svona aðeins rúmlega í járnum með afkomu skipsins á árinu, en við það er því að bæta, að á árinu hafa farið fram mjög víðtækar viðgerðir á skipinu, sem munu hafa kostað um 400 þús. kr., og viðgerðarkostnaðurinn er færður allur á rekstrarkostnað, auk 65 þús. kr., sem varið hefur verið sömuleiðis til viðhaldsins. — Ég býst við, að það varpi enn skýrara ljósi á það, sem um er spurt, að ég lesi kafla úr bréfi frá vitamálastjóra, varðandi einstaka liði. Þar segir:

„Skipt var um matsvein á skipinu, enda hefur fæðiskostnaður lækkað mjög verulega, þrátt fyrir að allt verðlag á matvælum hefur hækkað á árinu.

Leitazt hefur verið við að hafa vinnu skipsins samfellda allt vinnutímabilið og skipshöfnin afskráð yfir vetrarmánuðina. Var í byrjun ársins gerð áætlun um vinnu skipsins allt árið og leitazt við að raða henni þannig niður, að flutningskostnaður yrði sem minnstur.

Yfirvinna var takmörkuð, þó þannig, að ef viðkomandi staður, sem unnið var fyrir, óskaði eftir yfirvinnu, var hún leyfð á hans kostnað.

Það má geta þess, að leitazt hefur verið við að draga úr flutningskostnaði pramma og áhalda milli staða eins og hægt hefur verið. Hefur vitaskipið Hermóður verið notað til þessara flutninga að langsamlega mestu leyti og reynt að samræma þá öðrum ferðum skipsins, svo að kostnaður yrði sem minnstur.

Dagleiga fyrir skipið hefur ekki verið hækkuð þrátt fyrir hækkandi verðlag, en flutningskostnaður milli hafna hefur verið færður leigutaka til gjalda, en þessi kostnaðarliður hafði áður verið lækkaður mjög, eins og þegar er sagt.

Niðurstaða reikningsins sýnir að vísu aðeins um það bil jöfnuð á rekstrarreikningi, án afskriftar, en þar við er að athuga, að höfuðviðgerð hefur farið fram á árinu, sem kostað hefur um 400 þús. kr., sem öll er færð á þessa árs rekstur.“

Ég tel, að þessar upplýsingar ættu að svara nægilega fyrirspurn hv. þm. Barð.