29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (4375)

905. mál, sama kaup karla og kvenna

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson) :

Herra forseti. Þessi fyrirspurn hv. 4. þm. Reykv. er í raun og veru í tvennu lagi, þó að það tvennt sé um sama efni. Fyrst um það, hvort ríkisstj. hafi borizt fyrirspurn eða till. um sama kaup karla og kvenna fyrir sömu störf, og get ég svarað því játandi. Slíkar fyrirspurnir hafa borizt. Síðari hluti fyrirspurnarinnar er: „Ef svo er, hefur þá ríkisstj. svarað fyrirspurninni, og hver var afstaða ríkisstj. til málsins?“ Um það atriði vil ég segja þetta:

Það var á sínum tíma ákveðið að ræða einmitt þetta mál á alþjóðavinnumálaþinginu í Genf á s. l. sumri. Áður mun alþjóðavinnumálaskrifstofan hafa samið grg. um þetta mál og sent hana öllum aðildarríkjum stofnunarinnar til athugunar. Þ. á m. barst slík grg. til félmrn. hér. Í þessari grg., sem send var til athugunar, var spurningalisti, alllangur og sundurliðaður, um þetta efni, sem ríkisstjórnunum var ætlað að svara. Og spurningar þessar — eins og fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda áðan — fjölluðu um væntanlegar alþjóðareglur um ýmis atriði í sambandi við þetta mál.

Það, sem rn. hefur aðhafzt í þessu máli, er, að spurningar þessar, sem eru langt skjal, voru þýddar á íslenzku og sendar til Vinnuveitendasambands Íslands, til Alþýðusambands Íslands, til Kvenfélagasambands Íslands og til Kvenréttindafélags Íslands. Þetta var sent út 10. marz s. l. Jafnframt var þess sérstaklega óskað af rn., að þessi félagasambönd létu álit sitt í ljós á því, hvernig þessum spurningum skyldi svarað, og þá sérstaklega þeim atriðum að sjálfsögðu, sem hv. fyrirspyrjandi nefndi áðan. — En svo einkennilega hefur við borið, að ekkert af þessum félagasamböndum hefur virt rn. svars um þetta efni. T. d. hafa hvorki Kvenréttindafélag Íslands né Kvenfélagasamband Íslands svarað þessu bréfi og þessum fyrirspurnum ráðuneytisins.

Á alþjóðavinnumálaþinginu í sumar, sem háð var í Genf og setið var af fulltrúa Íslands, Jónasi Guðmundssyni skrifstofustjóra í félmrn., þá fjallaði sérstök nefnd um þetta dagskrármál. Og af þeim fréttum, sem borizt hafa, bæði frá hálfu þess fulltrúa og eftir skýrslum, sem borizt hafa, kom í ljós, að mjög misjafnra skoðana gætti um þetta mál á því þingi, þannig að engin leið var þar að ná samkomulagi um málið. Það var loks samþ., að þetta mál skyldi tekið til lokaafgreiðslu á næsta þingi, sem skyldi halda sumarið 1951, og þá var gengið frá uppkasti að slíkri alþjóðasamþykkt, sem þó var ekki samkomulag um nema sem uppkast til að bera undir aðildarríkin. Félmrn. hefur nú fyrir skömmu borizt slík samþykkt, og það er þegar búið að senda hana þessum félagasamböndum, sem ég áðan nefndi, til athugunar. Ég vil leyfa mér að vænta þess fyrir hönd rn., áður en margar fleiri fsp. koma um þetta mál, að það komi hljóð úr horni frá þessum aðilum, sem hér eiga hlut að máli. Og ég vil taka fram fyrir hönd félmrn., að ég mun ekki svara þessum fsp., fyrr en svör hafa borizt frá einhverjum þeim aðilum, sem rn. hefur sent þessi mál til umsagnar. Tel ég mjög eðlilegt, að leitað sé umsagnar stærstu félagasamtakanna hér á landi, sem með þessi mál fara, og ekki sízt kvenfélagasambandsins.

Ég held það sé ekki fleira, sem ég hef um þetta að segja, og vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi láti sér nægja það, sem ég hef getað upplýst um málið á því stigi, sem það er nú.