29.11.1950
Sameinað þing: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (4381)

906. mál, réttarstaða og atvinnuskilyrði kvenna

Forsrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Út af þessari fsp. skal ég taka þetta fram: Hv. fyrirspyrjandi las þál. upp, svo að ég þarf ekki að endurtaka það, en þar stendur, að ríkisstj. skuli falið „að gera ýtarlega athugun á réttarstöðu og atvinnuskilyrðum kvenna.“ Í þessu orðalagi felst það, að ætlazt er til, að hér sé ekki um neina bráðabirgðaathugun að ræða, heldur að málið sé athugað mjög gaumgæfilega. Hefur verið hafizt handa um þetta atriði, m. a. var hv. 8. þm. Reykv. (RÞ) falið að fara utan til að kynna sér þetta, eftir því sem efni stæðu til, og kynnti hún sér þessi mál nokkuð á Norðurlöndum og í Sviss og kannske víðar, en við þá fljótlegu athugun um þessi mál kemur það fram, að þetta mun vera töluvert meira verkefni en búizt var við í fyrstu, og yfirleitt mun þessi athugun víða vera skammt á veg komin. En rn. hefur gert ráðstafanir til þess, að þetta verði athugað í sambandi við alþjóðaþingið, sem nú er haldið fyrir vestan. Vil ég geta þess, að sendiherra Dana á Íslandi, sem situr það þing fyrir hönd Danmerkur, sýndi okkur þann velvilja að lofa að safna öllum gögnum um þetta mál og ná í þær upplýsingar, sem unnt væri. Það hafa borizt nokkrar bráðabirgðaskýrslur frá henni, en áreiðanlega fást margar fleiri upplýsinga., þegar sendiherrann kemur heim. — Lengra en þetta eru þessar athuganir ekki komnar, en ég vil taka fram, að ekkert er í þál. um það, að ríkisstj. skuli leggja skýrslu um athuganir sínar fyrir þetta þing, sem nú stendur yfir.