13.12.1950
Sameinað þing: 25. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í D-deild Alþingistíðinda. (4400)

129. mál, störf Grænlandsnefndar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hygg, að ekki sé hægt að segja með réttu, að þetta mál hafi dregizt óeðlilega á langinn. Það eru til þess fullgild rök, að það hefur dregizt. Hitt er annað mál, að ef til rannsóknarinnar væru skipaðir menn, sem engum öðrum störfum ættu að sinna, gæti verið, að eitthvað skjótar mundi sækjast, sérstaklega eftir að búið er að viða að sér gögnum, en það tekur vitanlega langan tíma.

En ég vil vara við að leggja of mikinn trúnað á það, þegar hv. þm. Borgf. talaði um hin umfangsmiklu skrif Jóns Dúasonar sem tæmandi rannsókn á þessu efni. Á þeim einum verður ekki hægt að byggja í þessu efni. Með því að segja þetta er ég ekki að gera neitt lítið úr ritum hans, en það er alkunna, að „betur sjá augu en auga“.

Ég tek undir það með hv. þm. Borgf., að það er augljóst, að rannsókninni verður fyrr lokið, ef starfsmenn hafa ekki öðrum störfum að gegna en að sinna henni. Ég hitti einn þessara manna, mann, sem hefur einna mest unnið að þessu, og lét hann uppi við mig, að ef hann ætti að geta sinnt þessu starfi sem hann vildi, þá teldi hann sig verða að fá frí frá öðrum störfum. Nú veit ég ekki, hvort þörf er eða hægt er að gera svo með alla mennina í rannsóknarnefndinni, en ef hæstv. Alþingi teldi nauðsyn að veita öllum eða einhverjum þessara frí frá öðrum störfum til að ljúka þessu verki, þá væri æskilegt, að það léti upp það álit sitt. Ég vil benda á, að það væri mjög æskilegt, að hæstv. Alþingi léti í ljós álit sitt. Í sambandi við afgreiðslu fjárlaga gæti það heimilað með sérstakri fjárveitingu að verja fé til launa manna, sem fengnir væru til að gegna störfum Grænlandsnefndarmanna í fjarveru þeirra vegna rannsóknarinnar. (PO: Eða með þingsályktun.) Það gæti orðið seinfærara að koma þingsályktun fram, en mjög fljótlegt og einfalt að koma þessu fram í sambandi við afgreiðslu fjárlaga.