07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í D-deild Alþingistíðinda. (4404)

162. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með l. frá 25. maí 1949, um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, er gert ráð fyrir, að sjóðurinn starfi í tveim deildum, fiskideild og síldveiðideild, og að hvor deildin hafi sinn aðskilinn fjárhag. Jafnframt er gert ráð fyrir því, að sjóðurinn taki til starfa að einu ári liðnu frá gildistöku l., þó ekki fyrr en þær reglugerðir eru samdar, sem gert er ráð fyrir í l. Á s. l. hausti var sett reglugerð fyrir síldveiðideildina, en á sama tíma var ekkert farið að vinna að samningu reglugerðar fyrir fiskideildina. Í okt. s. l. bárum við fram þáltill. í sameinuðu þingi, ég og hv. þm. N-Þ., þar sem skorað er á ríkisstj. að hlutast til um, að sett verði sú reglugerð, sem ráðgert er og nefnd í l. Við rökstuddum þessa þáltill. m. a. á þann veg, að okkur væri kunnugt um, að á s. 1. sumri hefði verið aflabrestur í ýmsum verstöðvum norðan- og norðaustanlands og þess vegna væri nauðsynlegt að hraða setningu reglugerðar fyrir fiskideildina, svo að útgerðarmenn og sjómenn ættu þess kost að njóta þeirra hlunninda af sjóðsins hálfu, sem þeim bæri samkvæmt 1. Þessi þáltill. var samþ. 1. nóv. s. l., og tók hæstv. atvmrh. og ríkisstj. mjög vinsamlega undir efni hennar um það að hlutast til um, að þessi reglugerð yrði eftir atvikum samin eins fljótt og mögulegt væri.

Nú eru liðnir 3 mánuðir frá því að nefnd þál. var samþ., og útgerðarmenn og sjómenn á þessu svæði, Norðaustur- og Austurlandi, telja sig nokkrum misrétti beitta, meðan svo er, að það stendur á reglugerðinni fyrir deildina og þeir geta þar af leiðandi ekki notið þess réttar, sem l. gera ráð fyrir að útgerðarmenn og sjómenn geti notið, þegar um aflabrest er að ræða. Við, hv. þm. N-Þ. og ég, höfum leyft okkur, þar sem ekkert hefur gerzt í málinu, að bera fram fyrirspurn um það, hvað líður setningu reglugerðar fyrir hina almennu fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins og hvenær megi vænta útgáfu hennar. — Enn fremur berum við fram fyrirspurn til hæstv. ríkisstj. um það, hverjar séu tekjur hinnar almennu fiskideildar þessa sjóðs til 31. des. 7950.