07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í D-deild Alþingistíðinda. (4409)

162. mál, fiskideild hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins

Atvmrh. (Ólafur Thors):

Ég vil leiða athygli síðari flm. till. að því, að í því bréfi, sem ég las upp, frá fjmrn., er miðað við tekjur sjóðsins 31. des. 1950. — Varðandi fyrirspurn hv. þm. Ísaf. get ég ekki gefið aðrar upplýsingar en þær, sem þessi bréf bera með sér. Ég sé eins og hann, að það veltur á árferðinu, hvort þessi sjóður, hvora deildina sem um er að ræða, síldveiðideildina eða þorskveiðideildina, reynist fær um að leysa þær þarfir á hverjum tíma, sem skapast í atvinnurekstri sjávarútvegsins. Ég sé þar ekki lengra fram í tímann en aðrir. En ég tel, að viðhorfið í dag sé í rauninni ekki alvarlegra eða verra en það var þegar þessi löggjöf var sett. Löggjafinn vissi það, þegar hann sneið þennan stakk, að hann gat reynzt of þröngur. Það vita allir, að yfir okkur vofir alltaf hætta misærisins, og það verður að lokum einmitt það, hversu þung sú alda er, sem ríður yfir, sem sker úr um það, hvort svo lánlega tekst til, að sjóðnum megi vaxa fiskur um hrygg, áður en kvaðir leggjast á hann, eða hvort hann jafnan verður í kreppu hallærisins. — Ég sé sem sagt ekki betur fram í tímann en hv. þm. Ísaf. og aðrir þm.