07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 367 í D-deild Alþingistíðinda. (4422)

908. mál, Metzner og aðstoðarmaður hans

Jóhann Jósefsson:

Herra forseti. Ég ætla, að rétt sé að horfast í augu við þá staðreynd, að þessi fyrirspurn var flutt af hálfu hv. þm. V-Húnv. til þess að koma á mig lagi fyrir þau afskipti, sem ég hafði af þessu máli, þegar ég var ráðh. Fyrir þessu færi ég þau rök, að ekki er vitað um, að þessi hv. þm. hafi nokkurn tíma haft áhuga fyrir nýjum leiðum, sem gætu greitt fyrir sjávarútveginum og afurðum hans.

Það var í september 1948, sem mikilsmetinn útgerðarmaður heimsótti sig sem sjútvmrh. og sagðist hafa vitneskju um, að dr. Metzner, kunnur vísindamaður, sem hafði áður verið kvaddur hingað, væri fús til að koma til Íslands og láta þekkingu sína í té hér, ef hann fengi ríkisborgararétt fyrir sig og aðstandendur sína, Ég kann ekki tölu á þeim viðræðum, sem fóru á milli mín og áhugamanna sjávarútvegsmálanna. Hafði ég ýmislegt við það að athuga að taka málið upp. Mér var ljóst, að þar gátu orðið ýmsir agnúar á. En því meir sem leið á haustið, var þetta fastar sótt af mönnum, sem ég hafði fulla ástæðu til að ætla að kynnu fótum sínum forráð í þessu efni. Gat verið varhugavert að hundsa gersamlega þessa málaleitun. Gat svo farið, að sú vitneskja, sem dr. Metzner átti að búa yfir, yrði verkfæri í höndum keppinauta Íslendinga, ef við hefðum bægt henni frá fyrir tortryggni sakir. Ekki var hér um að ræða nein fjárútlát frá ríkinu. En ég bar ugg fyrir, að eitthvað mundi reynast öðruvísi en haldið var. Það var því ekki fyrr en, eins og hv. þm. V-Húnv. sagði, seint í janúar 1949, að ég lét til leiðast að flytja frv. á Alþingi, eftir að hafa ráðfært mig við menn úr ríkisstj. og komizt að samkomulagi við stjórnarflokkana og jafnvel fleiri.

Hv. þm. V-Húnv. las upp úr ræðu minni, að ég hefði öðlazt sannfæringu. Þetta er alveg rétt, og allt, sem ég gerði í þessu máli, var af því, að eftir þær upplýsingar, sem ég hafði fengið, hafði ég þá sannfæringu, að hér gæti verið um að ræða merkilegt atriði fyrir sjávarútveginn. Hitt voru vonbrigði, eftir að þetta var gert og hann hafði gefið skriflega yfirlýsingu um, að hann væri reiðubúinn að veita aðstoð, ef farið væri fram á það við hann, — þá voru það vonbrigði, að félagsskapur útgerðarmanna og þessi maður virtust ekki geta komið sér saman. En það var ekki á mínu valdi að blanda mér inn í það mál, sem var á milli útgerðarmanna og dr. Metzners.

Hitt var annað, að viðvíkjandi yfirlýsingunni um að aðstoða ríkið, ef með þyrfti, þá reyndi aldrei á, að hann stæði við hana. Það mál, sem þeir voru með, var svo yfirgripsmikið, að ég sá ekki ástæðu til að rella á hann um smærri atriði.

Ekki er það á valdi neins okkar að hindra, að íslenzkir ríkisborgarar fari til útlanda. Ég hef frétt, að hann hafi farið til þess að leita lækninga handa einhverju af sínu fólki.

Viðvíkjandi því, að hv. þm. V-Húnv. talaði um haldlitlar upplýsingar í þessu máli, er ástæðan sú, að ég gat ekki prófað hjörtu og nýru þessara manna, en byggði á upplýsingum, sem íslenzkir aðilar gáfu mér. Ég hefði talið það of mikla ábyrgð, ef ég hefði ekki viljað aðstoða í þessu máli. Ég er ekki grunlaus um, að ef dr. Metzner hefði verið ráðinn í öðru landi með sína þekkingu og nýjungar, að þá hefði einhver, jafnvel einhver þm. V- Húnv. álasað mér, ef ég hefði fótum troðið þetta tækifæri og dr. Metzner hefði verið ráðinn til einhverra keppinauta okkar, t. d. Norðmanna. Ég verð að segja, að ég hafði ekkert á móti þessu, eins og á stóð.