07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í D-deild Alþingistíðinda. (4426)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Mér þykir ekki smátt höggvið í fyrirspurn hv. þm. V-Húnv. Er það merkilegt, hversu samvizka hans er glaðvakandi í dag, þegar það er vitað, að sami háttur hefur verið hafður á um veitingu vínveitingaleyfa öll þau ár, sem hv. þm. V-Húnv. hefur setið á Alþingi og verið í lófa lagið að vekja fyrr athygli á því, ef hér er um svo stórkostlegt brot að ræða.

Ég tel, að þetta sé meira vandamál en svo, að ástæða sé til að ýta sökinni á einn aðila, heldur væri nær að reyna að finna lausn á vandamálinu, sem allshn. viðurkennir í nál. um endurskoðun áfengislaganna að sé fyrir hendi, þar sem hún, með tilvitnun til þessara leyfisveitinga, telur, að ástæða sé til að endurskoða þessi mál. Það er rétt að geta þess, að mér hefur borizt bréf frá Áfengisvarnanefnd Reykjavíkur, dagsett 18. jan. 1951. Eftir venjulegum afgreiðsluháttum á stjórnarskrifstofum er ekki hægt að segja, að það sé óvenjulegur dráttur að draga í tvær til þrjár vikur að taka afstöðu til slíkra bréfa. Áfengisvarnanefnd hefur átt viðtal við blöð og skýrt frá því, að svar væri ekki komið. Ég sagði form. n., að ég væri reiðubúinn að ræða við hann um málið. Að gefnu tilefni gat ég þess, að enginn óeðlilegur dráttur hefur verið hafður, þó að bréfinu sé ekki svarað fyrr. Að sjálfsögðu vaknar sú spurning hjá mönnum, hvers vegna athygli hefur ekki verið vakin á þessu fyrr. Ég bendi á það atriði, sem áfengisvarnanefnd gerir að uppistöðu í máli sinn, og fullyrði, að það hefur átt sér stað allan þann tíma, sem hv. þm. V-Húnv. hefur átt sæti á Alþingi. Í bréfi frá n. segir m. a.:

„Áfengisvarnanefnd telur, að heimild sú, sem um ræðir í 17. gr. 2. mgr. áfengisl., geti ekki náð til æskulýðsfélaga gegn skýlausum fyrirmælum 13. gr. sömu laga um, að ekki megi veita áfengi yngri mönnum en 21 árs, þar sem vitað er, að meginþorri meðlima í æskulýðsfélögum er undir þeim aldri.“

Ég fullyrði, að allan þann tíma, sem núverandi áfengislög hafa verið í gildi, hefur æskulýðsfélögum verið veitt vínveitingaleyfi. Ég man vel eftir því, að þegar ég varð stúdent árið 1926, var haldið Rússagildi. Þar var veitt vín, og er stúdentafélagið ekkert annað en æskulýðsfélag. Slík samkoma hefur verið haldin á hverju ári síðan. Ef um breyt. á þessu er að ræða, þá hafa allir dómsmrh. á þessum tíma og allir lögreglustjórar og áfengisvarnanefndir brotið gegn landslögum. Ég viðurkenni fúslega, að hér sé um að ræða þjóðfélagsvandamál, sem laga þarf með þolinmæði og íhugun, en ekki með því að ráðast á lögreglustjórann fyrir það, þó að hann framfylgi lögunum á sama hátt og fyrirrennarar hans. Það er ljóst, að þó að óheimilt sé að veita unglingum innan 21 árs vín, er það ekki framkvæmanlegt að binda veitingaleyfin við það, að engir unglingar séu í félaginu. Þó að þetta séu æskulýðsfélög, þá getur hámarksaldur verið 30–40 eða 45 ár, og er þá vafasamt, hve margir unglingar eru í þessum félögum. Það er því augljóst, að ekki tjáir að halda, að með þessu sé brotið á móti reglugerðinni. Skylda hvílir á löggæzlumönnum að sjá um, að áfengi sé ekki selt yngri mönnum en 21 árs. Árið 1949 hlutaðist ég til um, að sérstakur löggæzlumaður var skipaður til að sjá um, að unglingum innan 21 árs væri ekki selt vín.

Áfengisvarnan. skýrir frá því í blöðum, að s. 1. föstudag hafi hún komið inn á skemmtistað í bænum og séð menn, sem henni virtust yngri en 21 árs, sitja við drykkju. N. hefði þegar í stað átt að ganga úr skugga um, hvort grunur hennar væri á rökum reistur, og taka niður nöfnin á þessum mönnum. Þá fyrst hefði verið hægt að koma fram kæru á hendur þeim, sem sekir voru, ef grunur hennar hefði reynzt á rökum reistur. Það er gagnslaust að bera það, að þeim hafi sýnzt þeir vera yngri en 21 árs, og telst það ekki gild sönnun. Hér segir í bréfi n.: „Í opinberum umr. um þetta mál hefur það komið fram — og ekki verið mótmælt —, að sum veitinga- og samkomuhús hér í bænum neiti að leigja húsnæði, nema því aðeins að þeim sé útvegað vínveitingaleyfi. Bendir það ótvírætt til þess, að viðkomandi samkomuhús græði á vínveitingum, þvert ofan í fyrirmæli 16. gr. reglugerðar 7. ágúst 1945, um sölu og veitingar áfengis.“ Ég hef látið athuga þetta nokkuð, og það er rétt, að í einstaka tilfelli hefur verið haldið fram óskum um þetta. En það er rangt, að þetta sé algilt, og veit ég ekki, hvernig stendur á því, að þessu hefur verið haldið fram. Aftur á móti er því haldið fram, að félögin sjálf sækist eftir þessum vínveitingaleyfum. Þeir telja, að samkomur þeirra séu betur sóttar, ef vín er veitt. En annars veit ég ekki, hvað vakir fyrir þessum mönnum, og þarf að láta athuga þetta atriði nánar. Það er ekki nóg að segja, að húsin fáist ekki leigð nema með því, að veitingaleyfis sé aflað. Þetta verður að sanna, á hvorn veginn sem það fer. Ég hef fyrirskipað athugun á þessu til að ganga úr skugga um, hvort tilefni sé til þessara ummæla eða hvort þetta á sér enga stoð. Það er öllum ljóst, að ef fara á eftir bókstafnum, þá er orðið ærið erfitt að réttlæta það, að nokkurt leyfi sé veitt. En hér er sú regla látin gilda, sem hefur gilt undanfarið. Það er vitanlegt, að húsin sækjast eftir þessum leyfum til þess að hafa hagnað af þeim, en félögin sjálf hafa ekki hagnað af þeim. Ég fæ ekki séð, ef á að fylgja bókstafnum, eins og sumum mönnum virðist hafa dottið í hug allt í einu, að það sé þá hægt að veita nein leyfi. Hv. þm. hefur engin vínveitingaleyfi viljað veita og hefur hangið í bókstaflegum skilningi reglugerðarinnar.

Þá segir enn fremur í bréfi áfengisvarnan.: „Nefndin hefur fulla ástæðu til að ætla, að það hafi einnig komið fyrir, að íþróttafélögin hafa fengið sér leyfi til vínveitinga til þess að græða sjálf á sölu áfengisins, og er það einnig brot gegn sömu grein reglugerðarinnar.“ Eftir því sem ég hef fengið upplýst, fær þetta ekki staðizt. Það eru tvö félög, íþróttafélag og stjórnmálafélag, — ég greini engin nöfn, því að ég ætla ekki að velta ábyrgðinni á aðra, sem hafa hús á leigu og hafa þess vegna haft hagnað af veitingum. Það er ekki hægt að neita þessum félögum um leyfi frekar en öðrum, ef þau vilja stunda þessa þokkalegu iðju sér til framdráttar. En af því, sem ég hef sagt, er það ljóst, að félögin hafa ekki beinan hagnað af vínveitingunum. En hvers vegna sækjast þeir þá eftir leyfunum? Ég álit það rétt svar, sem form. eins félagsins gaf mér. Hann sagði, að þær skemmtanir, þar sem ekki væri veitt vín, væru mun verr sóttar, og þykir það ekki ómaksins vert, nema leyfin fáist, að standa að slíkum skemmtunum. Félögin hafa því af þessu óbeinan hagnað. Það er fundið að því, að lögreglustjórinn veiti þessi leyfi. En sé ástandið slæmt á þeim stöðum, sem fá leyfin, er það þeim mun svívirðilegra á þeim stöðum, þar sem ekki eru veitingaleyfi. Það má segja, að lögreglan ætti að koma í veg fyrir þetta, en það er viðurkennt, að ástandið sé ekki gott á sveitaskemmtunum, og ætti þó að vera hægara að hafa eftirlit með því þar en hér, sem mörg hundruð manns eru saman komin. Lögreglan getur ekki fylgzt með því, hvort pelar séu teknir upp eða ekki. Skýrslur lögreglunnar sýna, að það sé verr drukkið á þeim stöðum, þar sem ekki eru veitingaleyfi, en á hinum. Þetta er sorglegt, og umræður um þetta vandamál eru nauðsynlegar, því að heilbrigt almenningsálit er sterkara í þessu máli en afskipti lögreglunnar.

Ég gat þess áðan, að það var látið í veðri vaka, að hér væri um nýtt fyrirbrigði að ræða.

En þetta hefur verið mjög svipað, þótt það sé í sumum tilfellum breytt, og hefur staðið svo í fullan mannsaldur. Það er síður en svo, að lögreglustjórinn sé ginnkeyptur að veita þessi leyfi. Hann hefur fylgt venju og óttast, að ástandið yrði verra, ef vínið væri ekki haft löglega um hönd. Það er ástæða til að ætla, að núverandi ríkisstj. skilji þetta eins og fyrrverandi stjórnir. Að sjálfsögðu má deila um einstök leyfi, og skal ég ekki fara að rekja það nánar, því að fá eða engin lagaákvæði eru svo, að ekki megi deila um framkvæmd þeirra. Það er ástæða til að taka ekki strangara á þessu en öðrum skemmtunum, sem eru hæpnari. Auðvitað liggur það á bak við leyfin, að einu veitingahúsi er gert hærra undir höfði með sérákvæði. Það er á valdi dómsmrh., hvaða hús hafi þetta leyfi, en ég hygg, að það sé þessu máli sízt til framdráttar, ef gera ætti breytingu á þessu. Ég vil vekja athygli á því, að þó að ákvæðin um vínveitingaleyfi á einu hóteli séu gömul, eða síðan 1935, voru þau endurnýjuð árið 1945. Það mætti ætla, að þá hafi verið ríkt haldið í leyfin og ekki farið lengra en fullkomlega væri ljóst, að gæti staðizt. En 1945 voru veitt 423 færri leyfi en nú. En með þeirri miklu veitingahúsaaukningu, sem orðið hefur síðan reglugerðarákvæði þetta var sett, er það greinilegt, úr því að þessi leyfi eru veitt á annað borð, að ómögulegt er fyrir lögreglustjórann að standa á móti verulegri aukningu leyfa frá því, sem áður var.

Ef menn telja, að leyfisveitingarnar að meginstefnu til séu of rúmar, er eðlilegt, að ríkisstj. og Alþingi — og þá fyrst og fremst Alþingi — segi til um það, en embættismenn, sem eingöngu hafa farið eftir eðli málsins og eftir þeim venjum, sem fylgt hefur verið, séu ekki bornir ásökunum.

Til dæmis bæði um þann vafa, sem í þessum málum ríkir, og þá sjálfheldu, sem þau eru komin í, skal þess getið, að mér barst í vetur erindi frá flugvallastjóra, þar sem farið var fram á, að vínveitingaleyfi yrði veitt flugstöðinni í Keflavík. Ég vísaði þessu frá mér og sagði þessum aðilum að snúa sér til Alþingis með málið, vegna þess að fast vínveitingaleyfi væri ekki hægt að veita þar nema með lagabreytingu. Nú hefur mér borizt bréf fyrir milligöngu samgmrn., sem hljóðar svo:

„Nefndin hefur meðtekið heiðrað bréf hins háa ráðuneytis frá 5. des. f. á. varðandi tilmæli flugvallastjóra frá 11. nóv., en þar er farið fram á, að leyft verði að selja erlendum flugfarþegum, er fara um Keflavíkurflugvöll, áfengi til hressingar, eins og tíðkast alls staðar annars staðar.

Meiri hluti nefndarinnar (5 af 7) telur eðlilegt, að slík áfengissala verði leyfð með þeim takmörkunum, sem um getur í bréfi flugvallastjóra, en leggur engan dóm á það, hvort þetta sé heimilt eftir núgildandi lögum.

2 nefndarmenn greiddu atkvæði á móti framangreindri afgreiðslu, annar á þeim grundvelli, að lagaheimild vantaði.

Þetta viljum vér hér með tilkynna hinu háa ráðuneyti.“

Ég held, að um það verði ekki deilt, að þarna vanti lagaheimild. Engu að síður leggja 5 hv. þm. til, að þetta verði veitt, og vilja koma ábyrgðinni af því yfir á ríkisstj. (PO: Hvaða þm. eru það?) Það er allshn. Sþ. Ég held, að málefnalega verði ekki um það deilt, að úr því að á annað borð er veitt vín í landinu, þá sé skynsamlegast að leyfa vínveitingar á þessum stað.

Ég vil láta þess getið, til að kasta ekki steinum að hv. nefnd, að hún gerir þá skynsamlegu till., að öll áfengislöggjöfin sé endurskoðuð. Þetta er höfuðatriði, sem ég vil leggja áherzlu á, að menn sameinist um að láta endurskoða þessi lög og reynt verði að finna betra form á þeim en nú er og það verði raunverulega viðurkennt, sem ómögulegt er að komast hjá að viðurkenna, að í jafnstórum bæ og Reykjavík, þar sem jafnmikið er drukkið af víni og þar, er ómögulegt að takmarka vínveitingarnar við einn veitingastað. Það er miklu betra að viðurkenna þetta í framkvæmd og löggjöf, reyna svo að stilla því í hóf á þeim stöðum, sem það er veitt, og hafa betra eftirlit og betra skipulag en nú.

Ég vil eindregið stuðla að og taka þátt í, að slík endurskoðun geti átt sér stað. Ég þarf ekki að taka það fram, að ég vil láta þá skipun verða á þessum málum, að drykkjuskapur geti minnkað og orðið sem hneykslisminnstur, og því fagna ég því, að umræður fari fram um þessi mál og heilbrigð gagnrýni komi fram. En það er alveg ástæðulaust og rangt, þó að lög séu framkvæmd á sama hátt og þau hafa verið framkvæmd lengi, að gera það sérstakt árásarefni á tiltekinn embættismann, og það er sízt til farsældar fyrir góðan framgang þessa máls.