07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (4430)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Ég hef ekki viljað blanda mér í þær deilur, sem hér hafa risið. Þær umræður, sem fram hafa farið, sýna ljóslega, hve viðurhlutamikið málið er, sem verið er að ræða. Hv. þm. V-Húnv. lagði aðaláherzlu á að framfylgja reglugerðarákvæðum, sem nú væru í gildi, og í því sambandi væri aðalatriðið að ná í hnakkadrambið á lögreglustjóranum í Reykjavík. Hv. þm. Ísaf. lagði til, að nú í bili, meðan frekari rannsókn færi fram, væri horfið að þeirri reglu, sem framfylgt var, er hann var dómsmrh., og mér skilst, að þá yrðu leyfin eitthvað takmörkuð. Ég vil minna á í sambandi við þetta, að það er ekki einsdæmi, að erfitt sé að framfylgja lögum og reglugerðum. Við höfum t. d. húsaleigulög, hv. þm. vita, hve vel hefur gengið að framfylgja þeim. Það vill oft verða þannig, ekki sízt þegar gömul reglugerðarákvæði hafa staðið um langan tíma, að það verður ranglæti úr, ef reynt er að fylgja þeim bókstaflega. Það er skylda þm. í slíkum kringumstæðum að reyna að koma til vegar því, sem betur má fara. Ég held, að það sé miklu betra að reyna að koma betri skipun á málin og beita kröftunum frekar að því en hinu, að láta fylgja bókstaflega gömlum reglugerðarákvæðum.

Hv. þm. Ísaf. sýndi ljóslega, hve mikil þörf er á að rannsaka þessi mál, er hann talaði um reglur, sem gilt höfðu, er hann var dómsmrh., og það kom berlega í ljós, að hann vissi ekki sjálfur, hvaða reglur höfðu gilt. Hann viðurkenndi þetta líka sjálfur, hann sagði, að ekki hefðu komið neinar kvartanir, og því hefði hann aldei sett sig inn í þessi mál. Hann vildi þó, að farið væri eftir reglum, sem hann taldi að hefðu gilt þá, að vínveitingar væru aðeins leyfðar í veizlum, en ekki þar, sem seldur er inngangur. Þetta er ekki rétt. Meðan hann var dómsmrh. voru vínveitingar leyfðar víðar en þetta. Það þurfti einmitt líka að grípa til þess á þeim eina stað, sem vínveitingaleyfi hafði, þ. e. Hótel Borg, vegna þess að leyfið var takmarkað við almennan rekstur til kl. 11½ e. h., en almennir dansleikir voru haldnir eftir þann tíma, og þá þurfti sérstakt leyfi. Það er dálítið einkennileg aðstaða, að það veitingahús, sem hefur vínveitingaleyfi, skuli þurfa að sækja um slíka undanþágu.

Það hefur verið vikið að því hér, að það væri kannske hæpið að veita skemmtifélagi, eins og t. d. Bláu stjörnunni, vínveitingaleyfi, og jafnvel að það væri óheimilt. Nú er þetta aðeins sagt til þess að undirstrika það, að ef ætti að fallast á bókstaf þessara laga og breyta til um framkvæmd í þessum efnum án nokkurrar endurskoðunar á þessari löggjöf, þá væri tekið fyrir vínveitingar á samkomum hér í bæ, sem ég hika þó ekki við að staðhæfa, að séu til fyrirmyndar mörgum öðrum samkomum, þar sem engin vínveitingaleyfi hafa verið veitt.

Ég hef áður látið þá skoðun í ljós, að ég teldi mjög vafasaman vinning að því á þessu stigi málsins að taka fyrir vínveitingaleyfi á samkomum, meðan vínveitingar eru jafnfrjálsar hér í bæ og þær eru nú. Mér hefur verið tjáð af eftirlitsmönnum hér í bæ, að það hafi þurft að stöðva samkomur vegna ölvunar, þar sem ekki hefur verið vínveitingaleyfi, en það hafi ekki komið fyrir á öðrum stöðum.

Ég vildi láta þetta sjónarmið koma fram, og ég legg áherzlu á, að þetta mál verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar með það fyrir augum að fá skaplegri hátt á það en hefur verið hafður undanfarið. Það hygg ég að sé höfuðskylda, sem hvílir á þm. og ríkisstj., sem eiga að setja lög og reglugerðir í þessu sambandi, — og þegar fyrir liggur till. frá nefnd um heildarendurskoðun á þessu hvoru tveggja, — að ganga með samvizkusemi að þessari endurskoðun og hraða henni eftir föngum og reyna að komast að sem skaplegastri niðurstöðu, eftir því sem hægt er í þessum málum.