07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (4439)

909. mál, vínveitingaleyfi lögreglustjórans í Reykjavík

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Mér virðist það atriði, sem mestu máli skiptir í þessu sambandi, vera óupplýst enn þá þrátt fyrir þessar umr., nema ég hafi skilið hæstv. dómsmrh. rétt, sem ég vona að ekki hafi verið. En mér skilst á honum, að eina lausnin á þessu vandamáli nú sé sú að bíða, þangað til lokið er endurskoðun áfengislöggjafarinnar. Er það þá ætlun hans að láta sömu framkvæmd haldast, unz því er lokið, sem væntanlega verður ekki á þessu þingi, og vafasamt, hvort það gæti orðið á næsta þingi? Í þessu sambandi vil ég minna hann á það, að það er á honum — og honum einum, sem ábyrgðin hvílir í þessum efnum. Ég tel enga þörf á að breyta reglugerðinni,— heldur hefur hún verið brotin upp á síðkastið. En ég get ekki fallizt á þá skoðun, að afbrot geti orðið að hefð, ef þau er framin nógu oft.

Loks vildi ég mega skjóta þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðh., hvort hann ætli að halda áfram þessu ófremdarástandi óbreyttu, unz áfengislöggjöfin hefur verið endurskoðuð. Ég tel það ekki gerlegt.