07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (4443)

910. mál, greiðsla á erfðafjárskatti með skuldabréfum

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Við athugun á ríkisreikningnum fyrir árið 1948 veitti ég því athygli, að þar er fært með útborgunum keypt verðbréf fyrir 134350 kr., án þess að það sé skýrt nánar í reikningnum.

Ég aflaði mér þá upplýsinga, hvernig á þessu stæði, og fékk þá skýringu, að þetta væru skuldabréf, sem tekin voru upp í verð fyrir vélbát, sem ríkið seldi, kr. 32500, og skuldabréf tekin upp í erfðafjárskatt frá erfingjum Sturlu Jónssonar, að upphæð kr. 101850. Var mér sagt, að þau bréf væru vel tryggð, með veði í fasteignum. En mér kemur þetta einkennilega fyrir sjónir, þar sem ég veit ekki til, að heimild hafi verið veitt til þessa, og hef ég því borið fram þessa fyrirspurn til þess að fá vitneskju um, hvernig á þessu stendur. Ég geng þess ekki dulinn, að erfðafjáreigendur voru fullfærir um að greiða þennan erfðafjárskatt í reiðufé, og fann því ástæðu til að spyrjast fyrir um þetta.