07.02.1951
Sameinað þing: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í D-deild Alþingistíðinda. (4446)

910. mál, greiðsla á erfðafjárskatti með skuldabréfum

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið, þar sem hann las upp skýrslu frá fyrirrennara sínum. En í þeirri skýrslu kemur í ljós, að dánarbúið hefur verið vel efnum búið, þar sem það greiðir á 3. hundrað þús. kr. í erfðafjárskatt.

Þrátt fyrir þessa skýrslu gat ég ekki sannfærzt um, að nauðsynlegt hafi verið að taka skuldabréfin upp í skattinn, því að það virðist augljóst, að dánarbúið hefði vel getað borgað þennan skatt til hins opinbera í peningum. Og ég tel óhætt að fullyrða, að það hefði verið til þess fært betur mörgum öðrum, sem að er gengið um greiðslur á sköttum til hins opinbera.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Vestm. sagði í lok ræðu sinnar, vil ég gleðja hann með því, að heilsa mín er ágæt, og ég vona, að hann hafi engar áhyggjur hennar vegna og geti notið svefns þess vegna.