28.02.1951
Sameinað þing: 48. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í D-deild Alþingistíðinda. (4455)

186. mál, launaflokkun opinberra starfsmanna o.fl.

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Já, ég þakka nú hæstv. ráðh., sem hefur svarað þessari spurningu, en því miður verð ég að játa, að ég er nokkurn veginn jafnnær eftir og áður. Ég held ég skilji rétt svör hæstv. menntmrh., að hann hafi upplýst, að það væri ekki fyrst og fremst farið ettir starfsaldri, þegar fólk er flutt á milli launaflokka, heldur eftir mati starfsmanna í stofnuninni, þ. e. a. s. skrifstofustjóranna í viðkomandi deild, um það, í hvaða flokki menn séu hæfir til að starfa, og þá hækkaðir í launaflokkum eftir því. Vafalaust er erfitt að fella óbrigðulan úrskurð um það, hverjir séu hæfir til þess að vera færðir upp í launaflokkum, og getur því hæglega hafa brugðizt að dæma það rétt, og það er kannske ekki um það að sakast.

Hitt er einstætt, að í þeirri stofnun, sem hefur á fjórða hundrað manns í þjónustu sinni og yfirgnæfandi meiri hl. kvenfólk, skuli allur þorri þessa kvenfólks vera í hinum lægstu launaflokkum, en karlmenn í hæstu launaflokkum; þannig hefur niðurstaðan af hæfnismatinu hjá þessari ríkisstofnun verið. Af hverju er þá kvenfólk valið að meiri hluta í þjónustu hjá þessari stofnun? Ég hygg það sé af því, að það hafi komið í ljós við langa reynslu, að kvenfólk er ekki verri starfskraftur hjá landssímanum en karlmenn og í mörgum tilfellum betri, en raunin er samt þessi, þrátt fyrir alveg skýr ákvæði launal. um að láta jafnt yfir konur sem karla ganga flutning milli launaflokka að öðru jöfnu, niðurstaðan er sú, að konur sitja eftir í hinum lægri launaflokkum, og veldur þetta mjög megnri óánægju í stofnuninni.

Ég hefði talið mjög eðlilegt og í anda 36. gr. launal. og fastra reglna um það, að eftir ákveðnum starfsaldri skyldi fólk færast milli launaflokka hjá þessari stofnun og eftir grundvallaratriðum um skiptingu launaflokka í launal., eftir ákveðinn árafjölda eru menn þar komnir í hæstu laun. Ég vil, þrátt fyrir þau svör, sem ég hef fengið hjá hæstv. ráðh., fullkomlega efast um, að hér sé gætt lagalegs réttar hjá því fólki, sem starfar í þjónustu hins opinbera, og ég tel ekki úr vegi, og það verður ef til vill gert, að það fólk, sem hér er misrétti beitt, leiti réttar síns fyrir dómstólunum.