31.01.1951
Sameinað þing: 34. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í D-deild Alþingistíðinda. (4469)

134. mál, endurheimt handrita frá Danmörku

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Allshn. hefur orðið ásátt um að leggja til við hæstv. Alþ., að það samþ. þessa þáltill. með þeirri breyt., sem n. flytur og er á þskj. 520. Það, sem brtt. felur í sér til breyt. á aðaltill., sem er að finna á þskj. 320 og flutt er af hv. þm. Borgf., er aðeins það, að fellt verði niður úr till. orðið forngripir. N. leizt það hyggilegra að blanda ekki þessum tveimur atriðum saman. — Þetta mál hefur komið nokkrum sinnum fyrir Alþ. og verið gerðar ályktanir um endurheimt fornrita og handrita úr söfnum í Danmörku. Því var fyrst hreyft árið 1907 og svo aftur 1924, þá 1930 og svo loks 1938. Í öll skiptin nema einu sinni eru handritin og fornritin höfð aðeins út af fyrir sig, og allshn. álítur, að það sé rétt að halda því áfram. Ekki stafar það af því, að n. sé ekki þeirrar skoðunar, að við eigum fullt tilkall til forngripanna, sem fluttust héðan og eru geymdir í söfnum í Danmörku, alveg eins og til handritanna, því að það er vitanlegt, að mikið af þessum forngripum var tekið hér á opinberum stöðum, og voru það gripir, sem þjóðin átti, og voru þeir fluttir til Danmerkur, flestir þannig, að annaðhvort lítið eða ekkert gjald kom fyrir. Og hvað áhrærir förgun þeirra, þá hefur það býsna mikla þýðingu, því að vitanlega var það ekki leyfilegt neinum embættismönnum að farga þessum gripum þjóðarinnar út úr landinu. Íslendingum stendur þess vegna, þó að þetta atriði sé ekki með í þál., sem gerð væri um fornritin og handritin, opinn vegur til þess að krefjast þess, að þessum forngripum verði skilað aftur.

Út af þeim ályktunum, sem á Alþ. hafa verið gerðar viðvíkjandi handritunum og fornritunum, er það að segja, að það hefur borið árangur aðeins í eitt sinn, þ. e. eftir að ályktunin var samþ. 1924. Það mun hafa verið árið 1928, sem skilað var talsverðu af embættisskjölum úr skjalasöfnum Dana og Árnasafni, en mjög fáum eldri handritum eða bókum. Og sýnist þó, að það hefði átt að fara eins með þá gripi eins og skjölin.

Nú hefur, eins og kunnugt er, verið af hálfu Dana sett nefnd til þess að íhuga þetta mál. Mér er ekki kunnugt um, að frá þeirri n. hafi neitt komið. Og ég hygg, að verkefni þeirrar n. hafi ekki verið annað en að hún hafi átt að kynna sér, hvernig ástatt væri um þessi skjöl, sem eru í söfnum í Danmörku og Íslendingar gera tilkall til. Og hefði það þó átt að vera auðvelt verk fyrir n., svo framarlega sem hún sinnti sinu starfi, að ganga úr skugga um, hvernig háttað væri um þessi skjöl. En ekkert mun hafa komið frá þessari n. í málinu, og það sýnir, hve Danir fara hægt í sakirnar um að fullnægja óskum Íslendinga um að skila þessum munum aftur. Verð ég að segja, að það gegnir nokkurri furðu, vegna þess einmitt hvernig þessi skjöl og handrit eru til þeirra komin. En þau eru til þeirra komin, eins og kunnugt er, þannig, að fyrr á öldum gerðu konungar Danmerkur, sérstaklega Friðrik III. og Kristján V., gangskör að því að ná héðan handritum og bókum. Þegar Brynjólfur Sveinsson biskup var í Skálholti og hafði undir höndum mikið af fornum skjölum og handritum, þá ákvað hann að hefja prentun á þeim, en fékk því ekki framgengt, sökum þess að þótt prentsmiðja væri á Hólum, voru ekki aðstæður til að prenta þessi handrit og skjöl hér. En þá lézt konungur Dana hafa hug á að gefa út þessi fornrit. Það var til þess að ýta undir það, að þessi fornrit voru send út til Danmerkur í söfn, til þess að eitthvað yrði úr framkvæmdum á prentun þeirra. — Svo vita allir, sem ég þarf ekki að rekja, hve Árni Magnússon gerði mikið að því að safna handritum og skjölum, sem voru á sínum tíma flutt til Danmerkur. Fyrir þessar sakir vantar nú stórkostlega í þau skjalasöfn, sem hér eru fyrir í landinu. Þetta er svo kunnugt, að ég ætla ekki að rekja það nánar. Allir hv. alþm. vita glögg deili á þessu og hve þýðingarmikið mál hér er um að ræða fyrir Íslendinga fyrst og fremst, upp á allar fræðiiðkanir, og þá einnig fyrir útlendinga, sem vildu kynna sér þessi mál og rannsaka þessi skjöl. —Svo hörmulega tókst þá líka til — og maður skyldi ætla, að einmitt út frá því yrðu Danir fúsari að skila þessu aftur —, að 1728 var stórbruni í Kaupmannahöfn og þar með í bókhlöðu Árna Magnússonar. Og menn, sem höfðu nánasta kunnugleika, svo sem Finnur Jónsson og Grunnavíkur-Jón, segja um þetta það, að Finnur segir, að þriðjungnum hafi verið bjargað af safninu, en Jón, að helmingnum hafi verið bjargað. Og það er vitað um þó nokkrar bækur og handrit, sem eyðilögðust í þessum bruna. Af hendi Árna Magnússonar var það gert að flytja þessi skjöl og handrit til Danmerkur til þess að koma þessu í örugga geymslu. En svona fór það — þótt engum detti í hug að saka hann fyrir þessa ráðstöfun. En þannig vill til, að hér heima varð enginn bruni á þessu tímabili, frá því að þessir munir voru fluttir út úr landinu, hvorki á biskupsstólnum né á Bessastöðum, svo að sennilegt er, að mest af þessu, ef ekki allt, hefði geymzt í vörzlum þjóðarinnar enn, ef það hefði ekki verið flutt úr landi. Og víst er, að Íslendingar voru búnir að varðveita þessi verðmæti sín um aldaraðir, og er ólíklegt, að frekar eftir þann tíma, er þetta var flutt út, hefðu Íslendingar verið svo hirðulausir um þessi verðmæti, að þeir hefðu látið þau glatast.

Nú er talið, að geymsla í þessum dönsku söfnum sé léleg. Og því hefur líka verið hreyft, sem er ekki lítið atriði, að söfn þessi séu í stórkostlegri hættu, ef til ófriðar drægi. Þessi söfn mundu eyðileggjast í Kaupmannahöfn, ef hernaður yrði gerður á þá borg. Og væri þá aumt til þess að vita, að í viðbót við það, sem gerzt hefur í sambandi við þessi mál, ættu þessi verðmæti Íslendinga eftir að fara forgörðum þannig — þó að maður saki ekki Dani um að þeir vildu, að svo færi. En manni sýnist, m. a. út frá því, hvernig allir málavextir eru um þetta mál, að Dönum ætti að vera ljúft að verða við þessum óskum Íslendinga.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um málið frekar. N. mælir eindregið með samþykkt þessarar till.

Það liggur einnig önnur till. fyrir Alþ. nú, sem snertir þetta mál, sem maður verður að vona að fái góða afgreiðslu. Það væri ekki vel farið af hálfu okkar hér á Alþ., ef við ekki tækjum nú af eindrægni og góðum vilja undir þau ummæli og óskir, sem mjög skelegglega og myndarlega hafa komið frá sumum okkar fræðimönnum, um það, að Íslendingum sé skilað þessum minjagripum aftur. Þeir eru héðan, þeir urðu hér til, og þeir eru eign þessarar þjóðar og eiga hvergi heima annars staðar en hér á landi.