07.03.1951
Sameinað þing: 50. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

Þinglausnir

forseti (JPálm) :

Þetta Alþingi, sem nú er að ljúka störfum, er eitt hið stytzta, sem haldið hefur verið á síðustu árum. Það hefur staðið 36 dögum skemur en þingið í fyrra. En á því þingi fór mikill hluti af þingtímanum í stjórnarkreppu og samningastríð. Nú hefur eigi verið um það að ræða, og því er þingið eigi lengra. En nú er það annað, sem sett hefur svip sinn á Alþingi. Það er óvenjulega örðugt árferði. Okkar fábreyttu atvinnuvegir eru háðari árferðinu en í flestum öðrum löndum. Svo hefur það verið, þannig er það og verður væntanlega. En eins og kunnugt er, þá er starfsemi Alþingis og aðstaða eins og nú er komið mjög háð afkomu atvinnuveganna.

Síðasta sumar var víða um land óvenjulega örðugt fyrir alla bjargræðisvegi til lands og sjávar. Og yfirstandandi vetur hefur verið harðari en við höfum þekkt síðustu 30 árin.

Ég ætla ekki að lýsa hér frekar en orðið er afgreiðslu mála á þessu þingi, enda gæti það orðið nokkuð langt mál. Það hefur líka verið gert og verður gert nánar í útvarpinu.

En ég veit, að allir háttvirtir alþingismenn vilja nú að þinglokum taka undir með mér, þegar ég óska þjóð vorri og landi árs og friðar. Ég óska þess, að vetrarharðindin dvíni fljótlega og vorsólin og vorblíðan taki við völdum. Ég óska, að hið komandi sumar verði farsælt og gott fyrir alla okkar atvinnuvegi til lands og sjávar. Að við fáum að njóta góðs heilsufars og friðar í landi. Þá munu verkefni næsta Alþingis verða auðveldari og ánægjulegri en verið hefur á þessu þingi.

Ég vil þakka öllum háttvirtum alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis góða og ánægjulega samvinnu við mig sem forseta. Og ég óska þeim öllum farsældar og ánægju á komandi tíma. Utanbæjarmönnum óska ég góðrar heimferðar og ánægjulegrar heimkomu. Þeim úr okkar hópi, sem nú eru veikir, óska ég góðrar heilsu og vona það og óska þess, að við megum allir heilir hittast, þá er næsta þing hefst.