13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

124. mál, lífeyrissjóður barnakennara

Haraldur Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel víst, að við þessari ósk hv. 1. þm. N–M. verði orðið, þegar athugunin fer fram. En í því sambandi vil ég benda á, að ekki er minnsti vafi á, að stórkostlegur halli hefur verið á lífeyrissjóði embættismanna. Á árunum 1920–1944 greiddu meðlimir sjóðsins 7% af tekjum sínum til hans, en aldrei var þó reiknað með hærri tekjum en 5 þús. kr. á ári. Nú eru þær greiðslur, sem sjóðurinn þarf að inna af hendi vegna þessara manna, 5–6-faldar miðað við þau iðgjöld, sem sjóðurinn hefur fengið. Til að mæta þessu eru þessi 2% ætluð, og er þó vafasamt, að þau nægi þegar stundir líða, og vil ég í því sambandi benda á, að síðan sjóðurinn tók til starfa 1944, hefur sagan endurtekið sig, iðgjöldin greiðzt af lægri launum en skuldbindingarnar.