28.11.1950
Efri deild: 27. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í B-deild Alþingistíðinda. (563)

90. mál, sala Vatnsleysu í Viðvíkursveit

Landbrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég var því miður forfallaður, er þessi brtt. kom fram, og ég er það raunar enn, því að ég var búinn að lofa manni samtali, sem er á förum til útlanda og bíður eftir mér. En um þessa brtt. vildi ég segja það, að ég er ekki svo kunnugur staðháttum, að ég geti sagt um það, hvort eðlilegt er að samþykkja þessa till., en það er sjálfsagt að líta á málið með sanngirni og taka það til athugunar. Og væri þá líklega hagkvæmast að fresta atkvgr. og umr. um brtt. til 3. umr. Eins og fram kom bæði í umr. og greinargerð, þá er frv. um að selja Vatnsleysu komið fram af eðlilegum ástæðum. Með því að selja Vatnsleysu er ríkisstj. gert auðveldara að byggja upp á Hólum, og í öðru lagi það, að jörðin var í eigu Jósefs J. Björnssonar, og hann hafði hugsað sér, að sín ætt tæki við henni, og nú hefur maður í ættinni gefið sig fram, sem vill búa á jörðinni, og er salan enn eðlilegri þar sem líka er verið að leggja starf þessa manns í þágu hins opinbera niður. Það fjórða er svo það, að öll hreppsnefnd Viðvíkursveitar mælir með þessum kaupum og vill ekki sitja fyrir jörðinni, en afsalar þessum manni forkaupsrétt sinn að henni. Það má annars vel vera, að þessi brtt. um sölu á annarri jörð sé eðlileg, og ég er reiðubúinn til að láta athuga hana á milli umr., ef flm. vildi fresta henni.