14.11.1950
Efri deild: 19. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

87. mál, lögtak og fjárnám

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Í frv. þessu er gerð ýtarleg grein fyrir því, hvernig á því stendur, en upptök þess eru hjá fjmrn. eða innheimtumönnum þess. Þessir aðilar hafa talið óþarfa kostnað vera samfara innheimtu á almannagjöldum og að hægt sé að framkvæma hana á einfaldari hátt, en þó jafntryggan. Í þeim tilgangi að lækka kostnað við innheimtuna verulega hafa þessir aðilar komið hugmyndum sínum á framfæri til dómsmrn., og hefur málið síðan verið athugað þar, og eftir að nokkrar breyt. hafa verið gerðar frá minni hálfu til frekara réttaröryggis, var frv. lagt fram. Tel ég, að frv. eins og það er nú verði til verulegs sparnaðar, en um leið fullkomnari trygging fyrir viðkomandi aðila, þannig að ekki verði á þá hallað. Vegna þess að í grg. er ýtarlega skýrt frá þessum breyt. á l., sé ég ekki ástæðu til a$ rekja þær frekar.

Ég vil aðeins geta þess, að í 1. gr. er ætlazt til, að hreppstjórar megi gera lögtak fyrir allt að 10 þúsund króna skuld, en frá árinu 1928 var þetta miðað við 1000 kr. Með þeirri breyttu aðstöðu, sem orðin er, virðist ekki hættulegt að hækka þetta, einkum þar sem hægt er að leggja aðgerðir hreppstjóra undir fógeta, ef ástæða þykir til. — Þá er samkvæmt 2. gr. ætlazt til þess að hverfa frá þeirri meginreglu, sem nú er, að lögtak þurfi að byrja á heimili lögtaksþola, en í stað þess er ráðgert, að með hæfilegri aðvörun eða boðun megi lögtak hefjast á skrifstofu fógeta. — Síðan er ætlazt til þess, að einn lögtaksvottur nægi í stað tveggja, og loks er gerð rýmri heimild til þess að taka lögtak af inneignum manna í bönkum og sparisjóðum. — Ég hygg, að með þessu frv. ver$i verulega létt undir með eðlilegri innheimtu gjalda í landinu, en þó ekki hallað á gjaldþola, þannig að þeir hafi ekki yfir neinu að kvarta.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.