04.12.1950
Efri deild: 29. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 143 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

87. mál, lögtak og fjárnám

Frsm. (Rannveig Þorsteinsdóttir):

Herra forseti. Samkv. 1. gr. þessa frv. er lagt til að hækka það takmark, sem miðað hefur verið við, er hreppstjórum hefur verið heimilað að gera lögtak í sveitum. Fyrst var þetta miðað við 50 króna skuld, en með l. nr. 34 frá 1928 var hámark þetta hækkað upp í kr. 1000,00, og í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að það verði hækkað upp í 10 þús. krónur. Er þetta talið geta orðið til sparnaðar fyrir þá, sem lögtakið er gert hjá, og til hagræðis fyrir þá, sem lögtakið framkvæma. — Sama máli gegnir um 1. og 2. mgr. 2. gr., að það, sem þær fjalla um, er hugsað að miði til sparnaðar, og telur n., að það muni á engan hátt skerða rétt lögtaksþola.

Við 3. mgr. 2. gr. hefur n. hins vegar gert brtt., en samkv. henni er í frv. gert ráð fyrir því, að þegar gerðarþoli á inneignir í bönkum eða sparisjóðum, séu þær teknar upp í lögtak, áður en gengið er að nokkru öðru. N. þótti réttara að gera ráð fyrir því, að gerðarþoli gæti átt einhverja lágmarksinnstæðu með tilliti til þess, að það eru margir, sem eiga smáinnstæður í ákveðnum tilgangi, og hefur n. gert þá brtt., að ákvæði þetta taki ekki til innstæðu, sem nemi 5000 krónum eða minna, þannig að gerðarþoli má ráða, hvort innstæða hans sé tekin út úr banka til greiðslu skuldarinnar eða eitthvað annað, sem hann á. Ef hins vegar um hærri innstæðu en 5000 krónur er að ræða, má ganga að henni niður að 5000 krónum.

Ég sé, að hæstv. dómsmrh. er ekki hér í d. og enginn af hinum ráðh., en n. hafði hugsað sér að hreyfa því hér, samtímis því sem verið er að gera þessar breyt., að athuga í sambandi við 27. gr. aðfararl., þar sem gert er ráð fyrir lágmarksfjárhæð, sem gerðarþoli má eiga, hvort ekki væri eðlilegt að hækka þá upphæð með tilliti til lækkaðs verðgildis peninga. Mér þykir leiðinlegt, að hæstv. dómsmrh. er ekki viðstaddur, því að ég hefði viljað heyra álit hans á því atriði.

Allshn. mælir með því, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem hún leggur til á þskj. 242.