13.12.1950
Neðri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (608)

87. mál, lögtak og fjárnám

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um síðara atriðið, sem hv. 2. þm. Reykv. drap hér á í sinni ræðu, hvort gera skuli fjárnám í peningainneignir manna, þá verða menn að meta það hver um sig, — það er matsatriði, eins og margt í slíkum málum sem þessum. En vafalaust kemur þetta ekki vel við þá, sem eiga mikla fjármuni, né þá, sem eiga eitthvað af munum og verða að láta þá af hendi til lúkningar þessum kröfum. Það er erfitt að dæma um þetta fyrirfram, því að það getur staðið misjafnlega á í einstökum atriðum.

En viðvíkjandi öðru atriði hv. 2. þm. Reykv., þá er það annað en efni þessa frv., og vil ég ekki andmæla því, að það þurfi að taka það til athugunar. En efni þessa frv. snertir ekki þetta atriði. En hér er aðeins um að ræða breytingu á innheimtuframkvæmd. Og þetta ákvæði 2. gr., sem aðallega snertir Rvík, — en þetta horfir öðruvísi við úti á landi, — þá er um það að segja, að ég ætla ekki, að verr sé séð fyrir rétti þeirra, sem eiga að inna þessar greiðslur af hendi. Fógeti eða fulltrúi hans fara með tvo votta til gerðarþola og tilkynna lögtak. Sjaldan er farið öðruvísi að. En er kemur til gerðarinnar, fer fógeti heim til gerðarþola, og ef hann er ekki heima, þá verður fógeti að finna hann, og kostar það mikla fyrirhöfn. Það er ekkert varið í það fyrir fjölskyldu gerðarþola, að fógeti komi inn á heimili hans að honum fjarverandi, og að lokum fer svo, að er hann ætlar að framkvæma gerðina, þá leikur vafi á, hvað taka skuli, og ef um einhleypan mann er að ræða, þá getur íbúð hans verið lokuð, og þótt fógeti kæmist inn, veit hann ekki, hvað gera skuli, því að honum er ókunnugt um, hvernig háttað er um þá muni, sem inni kunna að vera. — Eftir þessari breytingu á gerðin að fara fram í skrifstofu fógeta, en áður er haft upp á gerðarþola, honum tilkynnt um stað og stund og hann beðinn um að mæta, en ef hann mætir ekki, þá er hann sóttur og málið afgert í skrifstofu fógeta, og ég sé ekki annað en réttur gerðarþola væri alveg eins tryggður. En mikið fjármagn og fyrirhöfn mundi sparast við þessa breytingu, og ég get ekki séð að það geti verið neinn ávinningur fyrir gerðarþola, að ríkið greiði meiri kostnað við þetta en nauðsynlegt er. Það, sem skiptir aðalmálinu fyrir hann, er, að hann eigi kost á að mæta og skýra mál sitt. Ég held því, hvað það atriði snertir, að hv. þm. þurfi ekki að kvíða neinu. Ég álít, að þetta sé æskilegra fyrir heimili gerðarþola en verið hefur.

En um hitt atriðið, sem hv. þm. talaði um og vissulega þarf að athuga, þá er það annað mál og annað atriði, og veit ég ekki, hvort nefndin vildi athuga það eins og þyrfti, en það þarf vissulega að hafa það í huga síðar.