14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 157 í B-deild Alþingistíðinda. (644)

8. mál, gjaldaviðauki 1951

Einar Olgeirsson:

Þetta er áframhald af þeim skattaálögum, sem hæstv. fjmrh. skýrði frá í gær, að mundu verða lagðar fram, og í þessum brtt. felast álögur á aukatekjur ýmiss konar. Ég mun nú ekki hafa mörg orð um þetta. Hér gildir það sama og ég sagði í gær um þessar hækkanir: Það er vægast sagt óviðfelldið að koma fram með þessar hækkanir og brtt. á síðustu stundu, og þetta þarf svo að fara í gegnum Nd. til að fá það samþ. Ég vil taka það fram, að ég er andvígur þessum hækkunum og álít, að ríkisstj. eigi að fara aðrar leiðir til að afla sér tekna. Hér er alltaf vegið í sama knérunn — að hækka álögur alþýðunnar. Og nú er tilkynnt, að laun megi ekki hækka frekar, hvað sem dýrtíðin vex, og skuli kaupgreiðslur miðaðar við vísitölu 122. Hér verða útundan allir starfsmenn ríkisins og launþegar almennt. M.ö.o., öll sú hækkun, sem ríkisstj. veit að dynur yfir, á að koma algerlega bótalaust niður hjá launþegum og opinberum starfsmönnum. hingað til hefur þó vísitalan verið nokkurt aðhald, þó að hún hafi verið reiknuð út eftir á. Nú er hæstv. ríkisstj. að búa sig undir að hindra, að kaupgjaldsvísitalan geti hækkað. Í stað þess þegar gengislögin voru sett, þá var sagt, að eftir svo sem 6 mánuði mundi allt vera búið að jafna sig og þyrfti þá ekki að gera ráðstafanir um kaupgjaldsvísitöluna. En nú á hins vegar að fara að þyngja þessar álögur enn meira. Eftir þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf við 3. umr. fjárl., þá eiga þessar álögur að koma harðast niður á alþýðu manna, og þess vegna greiði ég ákveðið atkv. á móti þessum till. sem sósíalisti.