17.10.1950
Efri deild: 4. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 158 í B-deild Alþingistíðinda. (647)

5. mál, tollskrá o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þessu frv. er ætlað að koma í staðinn fyrir lög nr. 2/1950, en gerir þó ráð fyrir tveimur breytingum frá þeim l. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að álag á verðtoll sé lækkað úr 65 % í 45 %, í samræmi við 10. gr. l. nr. 22/1950, um gengisskráningu, launabreytingar, stóreignaskatt, framleiðslugjöld o.fl. — Hitt er það, að hér er lagt til, að felld verði niður lög nr. 98/1941, um heimild fyrir ríkisstj. til ráðstafana og tekjuöflunar vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna, en þau lög hafa verið framlengd fram að þessu, en það, sem enn er notað af þeim heimildum, sem felast í þeim lögum varðandi aðflutningsgjöld, verði tekið inn í þetta frv., og eru það ákvæði 3. gr. þessa frv. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir frv., en legg til, að því verði vísað til fjhn. að lokinni umr.