20.11.1950
Neðri deild: 24. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 163 í B-deild Alþingistíðinda. (664)

5. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta mál er öllum svo vel kunnugt, að ekki þarf að hafa mörg orð um það.

Það er aðalspursmálið, hvort framlengja skuli vörumagnstollinn og verðtollinn. Það blandast engum hugur um, að ríkið þurfi á þeirri upphæð að halda, sem fæst af þessum tollum.

En nefndarmenn greinir á um, hvort ekki væri réttlátara að taka meira af tekjum ríkisins í sköttum af stóreignum eða gróða af innflutningsverzluninni, sem oft hefur verið deilt um og ég ætla ekki að ræða nú. Því er 1. gr. fyrst og fremst andstæð stefnu sósíalista gagnvart tollum, og svo kemur hins vegar til greina, að þó að það verði að taka tekjur með tollum, hlýtur að vera meiningamunur um, hvort ekki sé unnt að ná sömu upphæð með lægri tollum, ef annarri verzlunarstefnu væri fylgt. Það er gefið, að um leið og ríkið verður að draga úr innflutningnum, gefa þessir tollar minna en ella. Ef lækka ætti tollana, yrði að gera breytingu á frjálsræðinu í innflutnings- og útflutningsverzluninni. Hef ég því tekið afstöðu gegn 1. gr. frv. og vil minna á, að er gengislækkunin var samþykkt, þá var því lofað, að tollarnir yrðu lækkaðir eins og aðrar álögur á almenningi. Því er það hart, að nú skuli ekki sjást, að reynt sé að lækka tollana. Þetta var jafnvel undirstrikað með fyrirsögninni, þar sem stendur „um bráðabirgðabreyting á l.“ o.s.frv.

Ég ætla ekki að orðlengja frekar um þetta, enda var mjög mikið rætt um þetta, er það var sett á í fyrra. Tillaga mín er, að 3. gr. verði látin standa. Hins vegar verð ég með 2. og 4. gr., sem eru um undanþágu frá 1. gr., þótt ég vilji aðeins láta 3. gr. standa.

Ég ætla að reyna við 3. umr. að fá tollinn lægri, ef ég sé að það verður hægt, annars greiði ég atkv. á móti frv.