13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

5. mál, tollskrá o.fl.

Viðskmrh. (Björn Ólafsson):

Herra forseti. Af því að hv. 2. þm. Reykv. er nú aftur kominn í d., vildi ég svara honum nokkrum orðum út af því, sem sí og æ klingir hjá honum bæði í tíma og ótíma, en það er það, hvað þjóðin tapi á því, að ekki er meira verzlað við vissar þjóðir. Hann sagð5, að þjóðin tapaði á því ca. 20–30 millj. kr. árlega í útflutningi, og síðan væri hægt að flytja inn í landið vörur fyrir þessa upphæð, og af því mundu skapast miklar tolltekjur. En viðskipti þessi eru ekki eins hagstæð og hann vill vera láta, en það ræðir þessi hv. þm. aldrei um. Vöruskiptin við Austurríki má telja að séu að vissu leyti hreinasta neyð, en þau voru gerð til að selja vörur, sem við áttum óseldar í landinu, og það má segja, að verðið sé sæmilegt, en vörur þær, sem við fáum í staðinn, eru seldar miklu hærra verði en við eigum að venjast, og það kemur svo aftur niður á neytendum í landinu. Það má segja, að það sé hagstætt að framleiða vörur og geta selt þær, en slíkt fer að verða hæpinn gróði, ef við verðum að taka í staðinn vörur, sem eru 30–100% dýrari en á frjálsum markaði, og slíkt er enn vafasamara, ef um er að ræða helztu nauðsynjar almennings. Á þessu sést, að mál þetta hefur tvær hliðar, sem vandlega verður að skoða, þegar málið er athugað. Ég veit, að hv. 2. þm. Reykv., jafngreindur maður sem hann er, sér þetta vel, en hann kærir sig bara ekki um að láta það koma fram í umr. — Þá sagði hv. þm., að áhrif gengislækkunarinnar væru ekki öll komin fram enn þá. Það er að vísu erfitt að fullyrða nokkuð um slíkt, en ég held að segja megi, að þessar hækkanir séu nú að fullu komnar fram og hækkanir af völdum gengisbreytingarinnar verða mjög litlar hér eftir, en aftur á móti má búast við verðhækkunum á ýmsum nauðsynjum á erlendum mörkuðum, en við slíkt getum við ekki ráðið og ekki hægt að spá örugglega fyrir um, hve miklar þær verði, því að sú hækkun stafar af þeirri ófriðarhættu, sem nú er ríkjandi, en ef svo vel tekst, að þeirri hættu verði bægt frá, þá má gera ráð fyrir, að þessar hækkanir komi ekki fram. Það er því ekki rétt að ásaka ríkisstj. fyrir, að hún geri ekki ráð fyrir slíkri hækkun, sem ekki er komin fram og enginn veit, hvort nokkurn tíma kemur.