14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (704)

105. mál, friðun arnar og vals

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég finn, að þær fregnir, sem borizt hafa hv. þm. Mýr. og mér um valinn og viðkomu hans, eru ekki samhljóða. Mér er sagt, að hans; gæti mjög lítið og í mörgum héruðum landsins sé hann horfinn. Mér þykir vænt um, að hv. þm. Mýr. skuli ekki leggja svo mikið kapp á að ófriða valinn, að það þurfi að gerast um næstu áramót. Hann vill hafa valinn friðaðan um 2 ár í viðbót. Ef fregnir mínar eru réttar, þá þyrfti að gera breytingar á þessum lögum að 2 árum liðnum. Þess vegna virðist mér betra að friða valinn um næstu 10 ár, og ef það sýndi sig, að þess þyrfti ekki um svo langan tíma, þá væri ekki fyrirhafnarmeira að breyta lögunum þá. Og þetta finnst mér betra, því að allur er varinn góður. — Það má segja, að ekki er vansalaust, ef við reynum ekki að halda valnum við. Um aldaraðir var þessi íslenzki fugl heimskunnur, og enginn gjöf þótti erlendum þjóðhöfðingjum betri en íslenzki fálkinn, og til hans er oft vitnað í fræðibókum Þetta laut ekki aðeins að Evrópu, heldur löndum víða um heim. Til hans er vitnað í fræðibókum, hve hann sé einstæður í sinni röð, þannig að enginn fálki í heimi er talinn til jafns við hann, að því er harðfylgi, snilld og dirfsku í veiðiförum viðkemur. — Nú kann ég að meta tilhneigingu hv. þm. Mýr. til að sýna rjúpunni vægð. En stundum virðist mér eins og honum hafi hér á Alþ. ekki verið nógu ríkt í huga, að rjúpunni sé ekki banað um skör fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar, en vona að hv. þdm. felli þessa brtt. frá hv. þm. Mýr.