14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

105. mál, friðun arnar og vals

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég þykist hafa kunnað að meta það, sem hv. þm. Mýr. hefur lagt gott til þess máls að útrýma minkum. En við erum hér að vísu að ræða annað mál. Ég hefði bara kosið að hann hefði viljað með mér setja svo til höfuðs minknum, að við hefðum von um, að hann hyrfi héðan alveg af landinu. — Það er annars óviðunandi að tala um mink um leið og við tölum um íslenzka fálkann, jafnvel í því tilliti, hvernig hann veiðir. Fálkinn veiðir aðeins sér til lífsviðurhalds og notar sinn fræknleik í því að taka fugla í loftinu, en gerir ekki mikið að því að tylla sér niður og taka varnarlítil dýr og leggja sér til munns. En þetta verður nú ekki sagt um það aðskotadýr, sem illu heilli hefur verið flutt hingað til lands, minkinn. Það er nú jarðbundnara en svo. Og það mætti segja um skaðsemi minksins það, sem stendur í rímunni:

„Eins gat lifað sá í sjó

sem á þurru landi.

Grund og kletta gegnum smó

galdraslægur fjandi.“

Þetta óféti, sem minkurinn er, skaðar bæði fugla himinsins, þegar þeir tylla sér til jarðar, og dýr merkurinnar og fiska í ám og vötnum. — Og að fara svo að tala um íslenzka fálkann, þann frækna fugl, í sambandi við þetta aðskotadýr, og ætla að setja þann fræga fugl á bekk með þessu jarðbundna óféti, sem minkurinn er, það megum við ekki gera, sakir þeirrar tignar, sem er yfir nafni þessa fugls, og þeirrar þekkingar, sem fræðimenn hafa haft víðs vegar um heim um fræknleik hans. Ég vildi því vænta þess, að hv, þdm. sýni með atkv. sínu, hversu þeir unna og meta göfgi þessa frægasta fugls, sem er hér í náttúru Íslands.