14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (708)

105. mál, friðun arnar og vals

Áki Jakobsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessu máli. Ég er eindregið fylgjandi því, að frv. þetta verði samþ. eins og það er, þannig að þessir fuglar, örn og valur, verði friðaðir nú um tíu árin næstu. Þegar þessi friðunarlöggjöf var sett, árið 1940, þá var talið, að þessar fuglategundir hvorar tveggja væru svo komnar, að mikil hætta væri á, að þessum fuglum yrði útrýmt úr íslenzkri náttúru. Og eins og tekið er fram í grg. þessa frv., er mjög óvíst, að hægt verði að komast hjá, að erninum verði útrýmt hér hjá okkur, en eitthvað mun vera um val hér og töluvert fleira um hann en örninn. En það er ekki sýnilegri fjölgun valsins en það, að menn geta ekki orðið sammála um, hvort valnum hefur fjölgað aftur, frá því sem var, en ýtarleg rannsókn hefur ekki farið fram á því. Og þegar svo er, að þetta er ekki víst, þá nær náttúrlega engri átt fyrir okkur að leyfa það, að farið sé að drepa valinn, því að það væri mjög leiðinlegt fyrir okkur, ef svo færi, að þessi fugl hyrfi úr íslenzku fuglalífi. Og mér finnst ákaflega óviðeigandi að bera þennan fugl saman við minkinn, af því að minkurinn er aðfluttur og því sérstaklega hættulegur fyrir íslenzkt dýralíf, eins og yfirleitt aðflutt dýr eru alltaf. Þar í löndum, sem minkurinn lifir eðlilegu lífi, þar sem hann er upprunninn, hefur hann sína fjendur, sem halda viðkomu hans í skefjum og þar með hindra þau skemmdarverk, sem þetta dýr getur unnið, ef því fjölgar ótakmarkað. Hér á Íslandi eru engin þau dýr, sem minkurinn þarf að óttast tortímingu fyrir. Hann hefur hér góð tímgunarskilyrði, og getur orðið hér mjög mikill fjöldi af honum. Og það em ákaflega mörg dæmi þess, að illa hefur farið. þegar dýr hafa verið flutt inn í önnur lönd en þar sem þau hafa átt heima, en þar sem þau eru flutt inn, vantað eitthvað það, sem heldur viðkomu þeirra í skefjum. Og einna gleggsta dæmið höfum við um það frá kanínunum í Ástralíu, sem þangað voru fluttar og eru orðnar svo stórkostlegt vandamál, að það eru heil héruð þar í landinu í auðn., af því að viðkoma þessara dýra er svo mikil. Þar eru þær í milljónatali um hin grónu svæði og breyta þessum gresjum í eyðimerkur. Og þetta er svo magnað, að það þarf að byggja háa garða meðfram vegum til þess að fyrirbyggja, að kanínurnar stöðvi umferð á vegunum. Þetta er aðeins dæmi um það, þegar dýr er flutt inn í eitthvert land og kemur í umhverfi, þar sem dýralífið sjálft skapar ekki innbyrðis jafnvægi. Og mesta hættan, sem stafar af minknum, er einmitt af því, að það er svo mikil hætta á því, að viðkoman verði svo mikil, vegna þess að hér vantar þau dýr, sem mundu halda viðkomu hans í skefjum, eins og á sér stað í Kanada, þar sem minkurinn er upprunninn. Þar eru stærri rándýr, sem berjast við þau smærri og halda viðkomu þeirra í skefjum. Ég álít þess vegna, að það sé alveg sérstakt vandamál að losna við minkinn. Og það er svo aðkallandi að gera þarna stórfelldar ráðstafanir til þess að losna við hann, að ýmsar af okkar varpstöðvum, sem eru einstakt fyrirbrigði í heiminum, eins og við Mývatn, munu bókstaflega eyðast, ef minkurinn kemst í þær. Hér verpa endur í varpstöðvum í þúsunda- og hundraðþúsundatali, og ef minkurinn kemst í þessi andavörp, þá hverfur þetta. Það hefur verið mikil búbót fyrir bændur að njóta þeirra hlunninda, sem vörpin eru. Og þó er þetta frekar öllu öðru athyglisvert fyrir það, hve það er einstakt fyrirbrigði í náttúrunni, að þannig sé hægt að gera villt dýr bókstaflega að húsdýrum. Og ég hygg, að íslenzka þjóðin sé einstæð í sögu sinni meðal annarra þjóða hvað það snertir að geta komizt langt í því að hagnýta villt dýr til ábata fyrir sig, án þess þó að drepa. En æðarvarp okkar, andavarp og jafnvel fleiri varpstöðvar okkar eru beinlínis í bráðri hættu, ef minkurinn kemst um allar trissur, út í varpeyjar, varphólma, fuglabjörg og víðar, því að minkurinn á ákaflega létt með að klifra. Þessar varpstöðvar okkar eru dýrmæt þjóðareign, sem alls ekki má spilla. — Þess vegna finnst mér alveg óviðurkvæmilegt að bera þetta tvennt saman, mink annars vegar og val og örn hins vegar. Valurinn og örninn hafa verið hér alla tíð síðan Ísland byggðist og vafalaust í margar aldir þar áður. Og þegar menn komu hér fyrst að landinu, var fuglalíf hér mjög fjölskrúðugt og hefur vafalaust verið miklu fjölskrúðugra þá heldur en nú er. Og tilvera arnarins og valsins hefur ekki hindrað viðgang og vöxt annarra fugla, sem hér hafa lifað þá, eða hindrað sem sagt vörpin. Og þess vegna þarf alls ekki að bera örninn og valinn að því leyti saman við minkinn.

Ég vil þess vegna mjög eindregið mæla með því, að sú brtt., sem hv. km. Mýr. hefur borið fram, verði felld, en frv. verði samþ. óbreytt eins og það er á þskj. 191.