14.12.1950
Neðri deild: 40. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í B-deild Alþingistíðinda. (709)

105. mál, friðun arnar og vals

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala um minkinn. En ekki vil ég samþykkja það, að það sé fyrst og fremst af því, að minkurinn sé aðfluttur, að hann er hættulegur, heldur af því, að hann er í eðli sínu hættulegur fuglalífi. Svartbakurinn er ekki aðfluttur. En undanfarna áratugi hefur þó verið leitazt við að eyða þeim fugli vegna þess, hve hann er hættulegur íslenzkum varplöndum. Og sama er að segja um refinn. Hann er ekki aðfluttur. En ef Íslendingar hefðu ekki barizt gegn honum með oddi og egg og eitri, hefði hann orðið enn skæðari en hann hefur verið.

Hv. 1. þm. Árn. sagði, að valurinn dræpi ekki fugla, nema á flugi. öðruvísi hefur Jónas Hallgrímsson litið á, því að hann lýsir því í snilldarkvæði um rjúpuna, sem er saklaus að hirða mola í krafsi „kind hjá kærri“, hvernig valurinn „hnitar hringa marga“ yfir rjúpunni; og ef rjúpan hefði ekki séð hættu af því vofa yfir sér, hefði hún haldið áfram að tína. — Annars er rétt að athuga, hvort valnum stafar ekki hætta af friðun, því að það er talið, að ef rjúpan sé friðuð, komi upp í henni fár. En er þá ekki ástæða til að athuga, hvort friðun hefur ekki eyðandi áhrif á þennan fugl, valinn, líka, sem stundum hefur verið sagt, að væri hálfbróðir rjúpunnar?