13.12.1950
Efri deild: 37. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (727)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þær brtt., sem hv. fjhn. ber fram við þetta frv. á þskj. 366 í samráði við mig, eru í fyrsta lagi um það að framlengja ákvæði l. nr. 60 25. maí 1950 til ársloka 4954. Er það lagt hér til þess vegna, að mér finnst heppilegra að koma þessum framlengingarákvæðum á einn stað, og bað ég því n. að bæta þessu við.

Þá er b-liður fyrri brtt. um umreikning á tekjuskatti og tekjuskattsviðauka. Hv. þm. muna vafalaust, að í skattalögunum er gert ráð fyrir, að tekjur undir vissu marki séu umreiknaðar, svo að hægt sé að halda tekjum á svipuðum grundvelli í skattstiganum eins og áður, þrátt fyrir vaxandi dýrtíð og launagreiðslur í krónutali. Á meðan þessi umreikningur er ekki numinn í burtu, þarf að endurskoða þetta árlega. Og nú sýnir það sig, að umreikningstalan þarf að verða 340 í stað 315 í gömlu dýrtíðarlöggjöfinni, ef menn eiga að vera í sama skattstiganum og áður, í stað þess að lenda í hærri skatti vegna hækkaðra uppbóta á laun.

Þriðja atriðið í þessum brtt. er máske vafasamara um, hvort það eigi hér heima. En það leikur nokkur vafi á því, hvort nógu tryggilega sé búið um ákvæðin varðandi dráttarvexti í gildandi l. Samkv. þessu verða þeir hinir sömu og áður, en ákvæðið aðeins tryggara; en þannig þurfti um að búa fyrir áramót, og varð því að ráði að tengja þetta hér við.