13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 186 í B-deild Alþingistíðinda. (731)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil ekki á þessu stigi málsins greiða atkv. á móti frv., þó að ég álíti, að það ætti fyrir löngu að vera búið að afnema þennan skatt. En til þess þarf meiri undirbúning en hægt er að koma við á þessu þingi.

Ég vil í sambandi við þetta mál benda á, hvað það getur kostað undir vissum kringumstæðum að hafa slík ákvæði í l. Í fyrsta lagi vil ég taka fram, að í tekju- og eignarskattsl., sem voru sett 1949, eru ekki nema 1/2% dráttarvextir fyrir hvern heilan mánuð. Hvers vegna á að ríkja þetta ósamræmi í sambandi við dráttarvexti? Ég vil enn fremur taka skýrt dæmi í sambandi við þetta mál. Ef aðili höfðar mál í sambandi við ranglega álagðan skatt, getur sá málarekstur komið til með að standa í 1–4 ár. Ég hef glöggt dæmi um það, að málarekstur stóð 4 ár, og var deilt um 650 þús. kr. Undir slíkum kringumstæðum hefði viðkomandi skattþegn þá átt að greiða 650 þús. kr. við málshöfðun til að forða sér frá dráttarvöxtum. Hvað hefði það verið stór fúlga, sem það hefði kostað að láta allt það fé liggja vaxtalaust í 4 ár? Nú fór svo, að það varð réttarsætt um 350 þús. kr. Ég skal ekki segja, hvernig dæmið hefði farið, ef viðkomandi aðili hefði orðið að greiða 650 þús. kr. Hefði verið uppfyllt sú krafa, sem nú er sett fram fyrir ríkissjóð, að greiða fulla dráttarvexti frá því að skuldin féll í gjalddaga, hefði það orðið ekki lítil fúlga. Þá hefði gjaldandinn orðið að greiða 1/2% á mánuði fyrir að reyna að ná rétti sínum í 4 ár. Það er framið slíkt siðleysi í sambandi við þessi mál, að það er óþolandi í þjóðfélagi, sem vill telja sig sæmilega réttlátt, að þegnarnir skuli verða að greiða 12% vexti á ári, eins og nú er farið fram á, ef þeir vilja leita réttar síns, þegar þeir eru beittir ranglæti í skattaálagningu, en ef borgað er of mikið, fást engir vextir. Ríkissjóður hefur alla möguleika til að taka þessa skatta. Hann getur fyrst og fremst tekið þá hjá atvinnurekendum. Það eru forgangskröfur fyrir öllum öðrum kröfum. Ríkið getur tekið þá lögtaki. Það hefur fullt vald til að taka þessa skatta, þegar því sýnist. Og samt á að greiða 12% á ári í dráttarvexti. Það er óþolandi. Í skattalögunum sjálfum er það ekki nema 1/2%, en í útsvarsl. hefur það verið sett 1%. Ég mun því bera hér fram skrifl. brtt. um, að í staðinn fyrir 1% komi 1/2%, til samræmis við það, sem er í sjálfum skattalögunum.