13.12.1950
Efri deild: 38. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

9. mál, tekjuskattsviðauki, lækkun skatts af lágtekjum o.fl.

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætlaði að vitna í þessu máli sem eini skattheimtumaðurinn í d., en þar sem hæstv. fjmrh. hefur nú talað í málinu og sagt ýmislegt, sem ég vildi segja, þá get ég orðið stuttorður í þessu máli. Ég hef rekið mig á það, sem flestir skattheimtumenn hafa rekið sig á, að til eru tvenns konar gjaldendur„ skilamenn og skuldseigir menn. Það fer ekki allt eftir efnum.

Fátækir menn eru eins skilasamir og ríkir. Sumir vilja draga á langinn að greiða, svo að þeir geti tekið vexti af peningum sínum. Þess vegna er oft mjög erfitt að fá menn til að greiða fyrr en kominn er nokkuð langur tími, og þá helzt með ógnunum um, að það séu teknir af þeim dráttarvextir, svo að þeir sjá, að það borgar sig ekki að bíða lengur með að greiða. Ég er því hræddur um, eins og hæstv. ráðh., að menn yrðu tregir til að greiða gjöld sín, ef ætti að veita mönnum tækifæri til að draga það á langinn, eins og hér er lagt til.

Nú er það þannig, að það er auðlærð ill danska. Og ef það kemur í ljós, að þessum mönnum á að haldast uppi að sleppa ódýrt frá þessu og fara frekar með gróða en tap, þá gæti það orðið þannig, að skilamennirnir færu að semja sig að siðum hinna að verða seinir til greiðslu. Nú eiga allir skattar að greiðast á manntalsþingi. En ég er hræddur um, að slíkt verði ekki talið til siðs, ef mjög eiga að tíðkast hin breiðu spjót, sem nú er farið fram á að fara að beita. Ég held, að það sé réttara að halda sig við það, sem þegar var gert á þessu kvöldi, en ekki verði farið að hlaupa frá því aftur og fara að samþ. ofan í sjálfan sig frá því, sem þá var gert.