13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (763)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi gera athugasemdir við ummæli nefndarform. út af brtt. n. Það hlyti að vera heppilegra að taka þær greinar upp úr 3. kafla, sem eiga að gilda áfram. Þetta er orðið svo ruglingslegt svona. Þannig verður það miklu aðgengilegra, með því að lögin eru nógu flókin, og þá sérstaklega tollaálögurnar. Hvað viðvíkur brtt. á þskj. 369 — annar liður um ákvæði viðvíkjandi innheimtu söluskatts — vil ég segja það, að skiljanlegt er, að ríkið gangi strangt eftir sínu, — en verður þetta ekki fullmikið? Við megum ekki líta eingöngu á þetta frá sjónarmiði ríkisins, sem á hér hagsmuna að gæta, en þegnarnir eru hér svo að segja réttlausir. Þeir, sem innheimta skattinn, eiga að standa skil á honum. Þarna er gengið svo langt, að ef einn maður hefur ekki greitt skatt sinn á tilsettum tíma, má setja atvinnurekstur hans undir innsigli. Það getur verið, að menn hafi þetta fé ekki handbært í bili, sérstaklega er þess er gætt, að margir þessara manna reka verkstæði sín með tapi, og svo ákveður ríkið álagninguna á vöruna, sem þeir selja. Þeir hafa enga möguleika á að afla sér annars hráefnis. Ef maður hefur verkstæði, hindrar ríkið, að hann fái hráefni til að halda rekstri sínum áfram. Ef skatturinn er ekki greiddur á tilteknum tíma, er hægt að loka öllum atvinnurekstri. Ég held, að þetta sé of strangt, og er ekki fylgjandi því. Tíminn er ekki eins áríðandi og það, að skatturinn verði greiddur. Viðkomandi maður getur átt í deilu við ríkisvaldið um það, hvort hann eigi að greiða slíkan skatt, og úrskurður enn ekki fenginn. Þá má með lögum, ef skatturinn hefur ekki verið greiddur, loka atvinnurekstri þess manns. Það hefði einhvern tíma verið sagt, að ríkinu væri gefið alvald, ef þessi till. væri komin frá öðrum. Eins og ég tók fram um breytingar á lögtökum, væri ekkert við þetta að athuga, ef breytingin væri þannig gagnvart þegnunum, að nóg væri flutt inn af þeim vörum, sem ríkið áliti, að þjóðin hefði efni á að flytja inn. Ríkið hefur tekið allan inn- og útflutning í sínar hendur, svíkur þegnana og leiðir yfir þá atvinnuleysi og hækkar alla skatta. Svo kemur sá, sem innheimtir skattinn, og segir: Ég loka, ef ekki er búið að greiða skattinn innan mánaðar. — Þetta er ofríki, sem ríkið hefur ekki rétt til. Ef þegnarnir væru frjálsir með inn- og útflutning, væri ekkert við þetta að athuga. Ég er á móti þessum kafla, 4. málsgr. síðasti liður, og kem með brtt. um að fella hann burt. Mér skilst, og ég spyr frsm. meiri hl. fjhn., hvort með þessari brtt. sé ekkert haggað við 31. gr., þótt ekkert sé tekið fram um 1. lið hennar. Nú var brtt. við 2. umr. um að fella hana niður, en hún var felld. Ég vildi leita upplýsinga, hvort mér hafi skjátlazt, að form. n. væri tilbúinn að gera undanþágu með atvinnubilstjóra. Ég bjóst við, að borin yrði fram brtt. um það, og vil reyna að bera fram brtt. núna um það, að þeir, sem eiga bíla, séu undanþegnir c-lið till. um innflutningsgjöld af fólksbifreiðum, sem nemur 39% af leyfisfjárhæð. Ég vil spyrja hæstv. fjmrh., hvort hann gangi út frá miklum tekjum af þessum innflutningi. Ég hef skilið það þannig, að búið væri að banna innflutning á bifreiðum, þó sérstaklega fólksbifreiðum. Mig langar til að vita, hvort ríkisstj. hefur í hyggju að flytja inn fólksbifreiðar og geyma þetta 39% gjald. Þá vildi ég einnig fá upplýst, hvort það sé meiningin að flytja inn fólksbifreiðar og fá þá þetta gjald.

Þá ætla ég að víkja að því, sem er aðalatriðið, en það er brtt. hæstv. fjmrh. á þskj. 370 um hækkun söluskattsins úr 6% í 7%, og þær tekjur eiga að nema 5 millj. kr. eftir hans útreikningi. Ég hef farið nokkrum orðum um þá stefnu, sem kemur fram í þessu, í því, sem ég sagði um síðasta mál, sem við vorum að ræða, viðvíkjandi verðlagsdómi. Svo fráleitt sem það var, þá er þetta enn fráleitara. Það eru engar spurnir um það, og ég sé, að það er allt við það sama. Það er ekki aðeins ranglætið í álagningu söluskattsins, sem á að haldast, þ.e. hvernig hann er lagður á nauðsynjar almennings, heldur á vitleysan líka að haldast. Ríkið á að borga af þeim fyrirtækjum, sem það er að koma upp, söluskatt til sjálfs sín. Þessi fyrirtæki þurfa svo að eltast við lánsstofnanir til að útvega peninga til að borga söluskattinn, síðan þurfa þær að fara til ríkisstj. til þess að vita, hvort hún getur ekki haft áhrif á Landsbankann, svo að hann láni ríkinu peninga til að borga sjálfu sér þennan skatt! Dæmið, sem ég nefndi, var um Sogsvirkjunina, sem varð að greiða 5 millj. kr. söluskatt, og borga hann til ríkisins, og ekki við það komandi að fá það fé hjá ríkinu, þó að ríkið eigi helming fyrirtækisins.

Nei, þetta er orðin slík hringavitleysa, að ég er hissa á, að hæstv. ríkisstj. skuli hafa þessa undarlegu innheimtuaðferð, fyrir utan það, að það þýðir, að allt, sem ríkið ræðst í, verður mun dýrara. Það er beinlínis verið að gera okkur á öllum sviðum ósamkeppnisfæra í stað þess að hæstv. ríkisstj. heldur fram, að hún sé að koma því til leiðar, að við verðum samkeppnisfærir. Ég sagði mitt álit á söluskattinum þegar þetta var til umræðu alveg nýlega, og ætla ég ekki að fara að endurtaka það. Ég er sem sé á móti þessari brtt. og mun nú semja þessar 2 litlu brtt., sem ég tilkynnti, og biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þeim.