13.12.1950
Neðri deild: 39. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

10. mál, dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna

Frsm. meiri hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Það er út af athugasemdum hv. 2. þm. Reykv., sem ég ætla að segja nokkur orð. — Hv. þm. telur, að í till. okkar sé gengið hart að þeim mönnum, sem eiga að innheimta þennan söluskatt fyrir ríkið og skila honum til ríkissjóðs, þar sem gert er ráð fyrir, að ef dregst fram yfir ákveðinn tíma frá gjalddaga að skila þessu fé, þá geti komið til mála að stöðva viðkomandi atvinnurekstur. Út af þessu vil ég benda á, að fé það, sem þarna er um að ræða, er ekki raunveruleg eign þessara manna. Söluskatturinn er því að verulegu leyti frábrugðinn öðrum sköttum og útsvörum, og það er skýrt fram tekið í lögunum, að þennan skatt megi viðkomandi aðilar leggja á og bæta við verð þeirrar vöru og þjónustu, sem þeir selja. Þeir taka með því að sér innheimtu á þessu fé fyrir ríkið. Þetta er ekki þeirra eign, og þeim ber því vitanlega að halda þessu aðskildu frá öðru fé, og þeir eiga að skila því af sér á réttum tíma. Sem betur fer mun það vera svo með marga einstaklinga og félög, sem innheimta þennan söluskatt fyrir ríkið, að þeir skila honum á réttum tíma til innheimtumanna ríkissjóðs. Hins vegar hefur orðið nokkur dráttur á því hjá öðrum, og er vitanlega sjálfsagt að gera ráðstafanir til, að skil á þessu fé verði betri en verið hefur að undanförnu. — Hv. þm. sagði, að ríkið gripi fram fyrir hendurnar á mönnum í viðleitni þeirra til að láta atvinnureksturinn bera sig, og nefndi þar til dæmis verzlanir og iðnað. Mér hefur oft skilizt á hv. þm., að hann teldi verzlun og iðnað ábatasaman atvinnurekstur, en ekki hið gagnstæða, eins og nú kom fram í ræðu hans. En hvað sem um það er, þá er með lögunum um söluskattinn aðeins verið að fela þeim, sem verzlun og iðnað hafa með höndum, innheimtu á fé fyrir ríkið. Í brtt. okkar er lagt til, að þessi skattur verði greinilega aðskilinn frá hinni venjulegu og löglegu álagningu verzlana og annarra fyrirtækja.

Þá vík ég að 31. gr. l. frá 1948, sem hv. 2. þm. Reykv. gerði að umtalsefni. Hún er um sölugjald af bifreiðum, sem seldar eru hér innanlands. Eins og þingmenn muna, kom fram till. við 2. umr. frv. frá hv. þm. V-Ísf. um að fella þessa grein niður, en sú till. var felld. Hv. þm. sagði, að sér hefði skilizt á meiri hl. fjhn., að þetta ákvæði 31. gr. yrði tekið til nánari athugunar. En hafi hann skilið það þannig, að við mundum leggja til, að skatturinn yrði felldur niður, þá hefur hann misskilið. Við vildum fá nánari vitneskju um þennan tekjustofn. Þær upplýsingar fengust, að fyrstu 10 mán. ársins hefur þetta sölugjald af bifreiðum, sem seldar hafa verið innanlands, numið 1278000 kr., það má því gera ráð fyrir, að þessi tekjustofn verði 11/2 millj. kr. yfir árið, og við í meiri hl. fjhn. litum svo á, að eins og nú er ástatt, megi ríkissjóður ekki missa af þessum tekjum, enda vil ég segja það, að ég tel vafasamt, þegar á það er litið, hvað bifreiðar hafa gengið kaupum og sölum fyrir hátt verð, að hægt væri að finna annan tekjustofn, sem sanngjarnari væri, til að ná þessari upphæð, og ríkissjóður þarf vafalaust á henni að halda á næsta ári ekki síður en á því, sem er að líða. — Fleira held ég að það sé ekki, sem ég sé ástæðu til að taka fram út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði.