05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 251 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. meiri hl. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur ekki getað komið sér saman um afgreiðslu fjárlfrv. Leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hann ber fram á þskj. 252. Á þetta gat minni hl., hv. 5. landsk. (ÁS) og hv. 6. landsk. (HV), ekki fallizt. Gefa þeir því út minnihlutanál. Það skal þó tekið fram, að þeir tóku allan tímann þátt í umr. og voru meiri hl. sammála um margar þær brtt., sem hann ber fram.

Þegar fjárlfrv., sem nú er hér til umr., var tekið til meðferðar í fjvn., kom meiri hl. n. sér saman um, að tvö meginsjónarmið skyldu verða ríkjandi við afgreiðslu þess í n. Hið fyrra, að frv. ásamt brtt., sem fram kynnu að verða bornar, skyldi skilað til 2. umr. svo tímanlega, að unnt yrði að ljúka afgreiðslu fjárl. fyrir áramót, hið síðara, að frv. skyldi afgr. frá n. greiðsluhallalaust.

Nokkur undanfarin ár hefur það orðið að fastri venju, að afgreiðsla fjárl. hefur dregizt langt eða skammt fram á fjárlagaárið og því orðið að gefa út með sérstakri löggjöf heimild til að greiða nauðsynlegar greiðslur úr ríkissjóði, þar til fjárlög yrðu endanlega afgreidd. Hefur þetta á engan hátt aukið virðingu þingsins, jafnvel þótt fyrir hafi verið meira eða minna veigamiklar ástæður og sumar slíkar, að engan veginn var auðvelt að víkja þeim úr vegi. Alþingi verður jafnan að hafa það hugfast, að það er þjóðinni engan veginn hollt, að sniðgengin séu beint eða óbeint fyrirmæli stjórnarskrárinnar, en hún mælir svo fyrir, að „ekkert gjald má greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum“. Því fylgir aftur það, að fjárlög verða að hafa verið afgr. áður en fjárlagaárið hefst. Mun þjóðin almennt fagna því, að sú stefna verði tekin upp á ný.

Vil ég við þetta tækifæri þakka öllum meðnefndarmönnum mínum fyrir það að hafa jafnan verið fúsir til þess að starfa langan vinnudag og oft fram á nætur til þess að ná því takmarki, sem sett var um þetta í upphafi, eins og ég vil einnig mega vænta þess, að Alþingi sjái sér fært að ljúka umr. um fjárl. og afgr. frv. endanlega fyrir lok þessa árs.

Hitt takmarkið, sem meiri hl. n. setti sér, að skila frv. til 2. umr. án greiðsluhalla, hefur einnig náðst. Ég tel víst, að um þetta verði ekki deilt, að stefna beri að því að afgr. fjárl. greiðsluhallalaus. Slíkt er svo sjálfsagt, nema fyrir séu alveg sérstakar ástæður, sem réttlæti annað. Hitt verður ávallt deilt um, hvort þau atriði, sem út undan hafa orðið, hefðu ekki einmitt átt að hafa forgangsrétt og hitt að víkja, sem inn er tekið.

Engum er ljósara en mér, hversu mikil lífsnauðsyn það er þjóð vorri að sinna meira og betur mörgum þeim málum, sem send hafa verið n. og gátu ekki í þetta sinn fengið fulla aðstoð. Vil ég þar í fyrstu röð nefna mál eins og heilsugæzlumálin, sjúkrahúsin, hælin, hjúkrunarkvennaskólann og annað, sem stendur í beinu sambandi við að lina þjáningar mannanna, lengja líf þeirra og gera þeim vistina sársaukaminni, skapa þeim fleiri gleðistundir og styrkja þá í trúnni á lífið og blessun þess. Í sömu röð má skipa fangamálunum, sem hafa með öllu verið vanrækt, svo að segja má, að þau hafi orðið úti í nepju skilningsleysisins á sálarlífi þeirra vesalinga, sem oft fyrir stundarhlátur, en enga glæpahneigð, stigu spor, sem að vísu fóru yfir merkjalínu laga og réttar, eins og hún er af mönnum mörkuð, en aldrei þurfa að leiða inn á braut síendurtekinna afbrota, ef vér legðum fram nægilegt fé til þess að hjálpa þessum vesalingum til að öðlast á ný manndóm og dómgreind á réttu og röngu.

Sama máli gegnir um vísindin, sem með raunhæfum tilraunum opna nýja heima og gætu ef til vill á svipstundu skapað örugga möguleika í framleiðslu og iðnaði, sem færðu þjóðinni milljónir í verðmætum, ef unnt væri að leggja fram nægilegt fé. Sama má og segja um listir og bókmenntir, sem ekki er einasta uppsprettulindin, sem allur almenningur sækir í hugmyndir og nýjan þrótt, heldur jafnframt öruggasta sönnunin þeim þjóðum, sem við oss skipta, að hér búi ekki villimenn, heldur þróttmikil menningarþjóð. Sama gildir um öll önnur afrek, sem kynna land vort og þjóð út á við. Mér er ljúft að lýsa því hér yfir, að öll þessi mál eiga djúpum skilningi að mæta hjá fjvn., þótt ekki hafi verið unnt á þessu stigi að leggja til, að til þeirra yrði veitt meira fé en þegar er gert á frv., vegna þess að öðrum málum þarf einnig að sinna, málum, sem einmitt verða að bera uppi framlögin til menningar- og mannúðarmála. Sú lindin má því sízt af öllu þorna.

Það er kunnugt alþjóð, að aðalatvinnuvegir landsmanna hafa á undanförnum árum fengið svo mörg og þung áföll, að þeir þola ekki þá skatta- og tollabyrði, sem á þá er lögð, nema einhver breyting verði á högum þeirra frá því, sem verið hefur. Það er einnig kunnugt, að vér höfum að undanförnu komizt yfir mestu erfiðleikana með aðstoð erlendra aðila, sem veitt hafa hingað fé á líkan hátt og til annarra Evrópuþjóða. En fjárhagsafkoma landsins í framtíðinni getur ekki byggzt á slíku fyrirbæri. Ef hún á að vera traust, verður hún að byggjast á aflamöguleikum þegnanna einna, en ekki á gjöfum frá öðrum þjóðum, og það er kominn tími til þess, að þjóðin geri sér þetta ljóst. Og séu aflamöguleikar til þess ekki nægilegir, eru úrræðin aðeins þau að auka þá eða draga úr eyðslunni.

Til þess að auka aflamöguleikana út í það ýtrasta, þarf samfellda sókn þegnanna á öllum sviðum þjóðlífsins og takmarkalaust einstaklingsfrelsi í athöfnum. Hvorugt er fyrir hendi í þessu landi, eins og nú er komið. Til þess að draga úr eyðslu hins opinbera þarf sterka meiri hluta flokksstjórn. Hún er ekki heldur fyrir hendi, og afgreiðsla frv. ber þess ljósastan vott, því að þótt veik tilraun sé gerð til þess að draga saman útgjöldin með því að leggja niður embætti skattdómara og loðdýraráðunauts, sem alveg er enn óvíst, hve mikill sparnaður verður að, og fella niður eftirlit með bókhaldi og kirkjugörðum, en þetta eru einu raunhæfu embættisfækkanir enn sem komið er, auk þess sem lagt er niður sendiráðið í Moskva, þá vegur þetta lítið upp á móti tugmilljóna hækkunum á ríkisgjöldum, sem stafa af kapphlaupinu um kaupkröfur.

Það er ekki vandalaust að draga saman ofþenslu í ríkisrekstri, og það verður heldur aldrei árekstralaust og sízt af öllu vinsælt, en það kann svo að fara, að það verði nauðsynlegt vegna þjóðarheildarinnar og afkomu ríkissjóðs. Meiri hl. n. hefur bent á margt, sem betur mætti fara í ríkisrekstrinum, gert víðtækar till. til ríkisstj. um sparnað, sem ræddar hafa verið frá ýmsum hliðum. Hefur ríkisstj. tekið þeim vel, en haldið því fram réttilega, að flestar till. séu þess eðlis, að þær þurfi frekari athugun og framkvæmdin lengri undirbúning en svo, að unnt sé að gera þær raunhæfar í byrjun næsta árs, og því sé ekki viturlegt að draga úr fjárframlögum, sem eingöngu byggjast á því, að slíkum sparnaði yrði skyndilega fram komið. Á þetta hefur meiri hl. n. fallizt, en hann væntir þess, að mál þessi verði gaumgæfilega athuguð, áður en fjárlagafrv. fyrir árið 1952 verður lagt fram.

Það er nú kunnugt, að þær upplýsingar, sem nýlega hafa verið birtar í sambandi við rekstur ríkisútvarpsins, komu alþjóð nokkuð á óvart og vöktu ekki alllitla undrun meðal almennings í landinu. Og því mun almennt hafa verið fagnað, hvernig ríkisstj. brást við í því máli. Væri ekki rétt að láta fara fram eftirlit með rekstri ýmissa annarra stofnana ríkisins, og mundi það ekki öllum aðilum hollt? Það er engin vansæmd fyrir forstjóra þeirra stofnana, sem enga aðra yfirstjórn hafa en ráðherra, sem hlaðinn er margvíslegum störfum, þótt ákveðnir menn séu settir til að athuga, hvort ekki sé unnt leiða og ekkert illt, ef allt er með felldu, og vá hvorki að valda sársauka né tortryggni.

Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt megináherzlu á í sambandi við afgreiðslu frv., er að halda niðri . fjárfestingu ríkisins svo sem nauðsynlegt þykir til þess að geta afgr. hallalaus fjárl. Og meginástæðan er sú, að nauðsynlegt er talið að halda innan vissra takmarka heildarfjárfestingunni í landinu til þess meðal annars að hefta verðbólguna. Nú er áætlað, að fjárfesting á næsta ári í sambandi við rafvirkjanir, áburðarverksmiðju og nýja togara verði um 156 milljónir. Aðrar fjárfestingar ríkisins eru taldar að vera um 81 millj. kr. miðað við fjárlagafrv. óbreytt. Það sé því óhjákvæmilegt að draga úr þeirri fjárfestingu, eftir því sem unnt er, en auka hana ekki.

Ég skal ekki hér ræða um það atriði, hvort allar þær upphæðir, sem taldar eru með í þeirri 81 millj., sem flokkað er sem fjárfesting, geti raunverulega talizt það, svo sem skógrækt, sandgræðsla, jarðræktarstyrkur, viðhald eigna og margt fleira, en hitt er ljóst, að það er margfalt meiri vinningur fyrir þjóðina í heild, ef unnt væri að draga úr beinum rekstrarkostnaði ríkisins með því að skipuleggja meiri vinnuafköst, lengja vinnutíma og hefta kapphlaupið um kaupkröfurnar, þó að ekkert af þessu sé flokkað undir fjárfestingu. Hitt er og jafnvarhugavert, að skerða þann hlut fjárfestingarinnar, sem beinlínis færir þjóðinni á skömmum tíma alla fjárfestingarupphæðina í erlendum gjaldeyri eða eflir eðlilega þróun atvinnuveganna.

Skal þá rætt hér nokkuð um hinar einstöku gr. frv. og þær brtt., sem meiri hl. n. ber fram.

Við áætlun teknanna þótti meiri hl. n. rétt að hafa til hliðsjónar eftirfarandi atriði:

1) Tekjur ársins 1949 voru alls 295,9 millj. kr.

2) Tekjur til októberloka 1949 voru alls 208 millj.

3) Tekjur til októberloka 1950 voru alls 215 millj. kr.

Tekjurnar árið 1949 verða aðeins 10 millj. kr. hærri en áætlað var, eða rúmlega 3%. Það er ekki að fullu vitað, hvað þær verða á þessu ári, en allt bendir til, að þær fari ekki ýkja mikið fram úr áætlun miðað við innkomnar tekjur í október árin 1949 og 1950. Má þó ef til vill ætla, að einstakir liðir í tekjuáætluninni séu mjög varlega áætlaðir, svo sem tekju- og eignarskattur og stríðsgróðaskattur, sem áætlaðir eru rúmar 36 millj. og eru því áætlaðir tæpum 16 millj. lægri en þeir reyndust það ár. Í októberlok það ár voru þessar tekjur að vísu um 2 millj. lægri en 1949, en þrátt fyrir það er þess að vænta, að hér sé um mjög varlega áætlun að ræða. Sama má og segja um vörumagnstollinn. Hann er að vísu rúmlega 3 millj. lægri í októberlok þessa árs en hann var í októberlok 1949, en það ár varð hann alls rúmar 25 millj., eða 5 millj. kr. hærri en áætlað er 1951. Þótt hugsað sé að takmarka mjög innflutning á næsta ári, þá er þó vitað, að allmikill innflutningur verður í sambandi við stórvirkjanir og verksmiðjubyggingar, auk þess sem gengi krónunnar hefur breytzt, eins og kunnugt er, síðan 1949. Það má því segja, að hér sé um mjög varlega áætlun að ræða. Ýmsir aðrir tekjuliðir sýnast heldur ekki vera óvarlega reiknaðir miðað við undanfarna reynslu, en þrátt fyrir þetta þótti meiri hl. ekki rétt á þessu stigi málsins að leggja til, að áætluninni samkv. 2. gr. yrði breytt. Verður þetta þó athugað nánar fyrir 3. umr.

N. kynnti sér, eftir því sem föng voru á, rekstur ríkisstofnananna, sem færðar eru á 3. gr. frv. Hafa ýmsar aths. og till. verið gerðar til ríkisstj. í sambandi við rekstur þessara stofnana, m.a. bent á, hvort ekki væri unnt að sameina öll verzlunarfyrirtæki ríkisins undir eina stjórn og spara þannig allverulega fjárhæð í rekstrinum, enn fremur hvort ekki væri rétt, að þessar stofnanir allar greiddu ákveðin rekstrargjöld beint í ríkissjóðinn, þar sem mest af þeim ágóða, sem færður er upp á fjárl., kemur aldrei ríkissjóði sérstaklega til tekna, nema frá tóbaks- og víneinkasölunni. Annað safnast að jafnaði saman ár frá ári sem rekstrarfé fyrirtækjanna.

Tekjur af ríkisstofnunum eru samkv. þessari gr. áætlaðar tæpar 73 millj. kr. Þær hafa orðið í lok október þetta ár rúmar 67 millj. kr., eða rúmum 4 millj. hærri en í októberlok 4949, en þá urðu þær alls tæpar 80 millj. kr. Það má því segja, að einnig hér sé um varlega áætlun að ræða. En með því að ýmis atriði í sambandi við rekstur þessara stofnana eru í athugun, þótti meiri hl. n. ekki rétt að leggja til, að 3. gr. yrði breytt á þessu stigi málsins. Þótt meiri hl. n. geri ekki till. til breyt. á 3. gr., sbr. það, sem ég hef áður tekið fram, þykir mér þó rétt að taka hér fram, að margt bendir til þess, að spara mætti verulegar upphæðir í rekstri pósts og síma og ríkisútvarpsins, og er þess að vænta, að ríkisstj. láti athuga þetta gaumgæfilega. Þá vil ég einnig geta þess, að n. bárust gögn um 145 þús. kr. kostnað við umferðaskrifstofu, sem rekin er í sambandi við póststofuna, en ekki færð á fjárl., vegna þess að hún hefur tekjur sínar beint úr sérleyfissjóði. Vegna aths. frá n. hefur verið staðfest til hennar, að þessi kostnaður hefur verið færður niður í 410 þús. kr. Álit n. er, að þetta starf megi fela ferðaskrifstofunni og lækka kostnaðinn miklu meira.

Þá hefur n. einnig fengið til athugunar ýmis gögn í sambandi við sölu sérleyfisbifreiða. Sýnast þau mál vera öll þannig, að ástæða sé til að láta athuga þau miklu nánar, og væntir n. að fá um þessi atriði fyllri upplýsingar frá ríkisstj., áður en þingi lýkur.

N. barst erindi frá ráðh. um nokkra hækkun á tekjum og gjöldum ríkisútvarpsins. Þótti rétt að geyma til 3. umr. að taka endanlega afstöðu til þess. — Augljóst er, að tekjur viðtækjaverzlunarinnar hafa minnkað stórlega vegna innflutningshafta á nauðsynlegum vörum til hennar, og það svo, að tekjur útvarpsins eru í verulegri hættu, ef ekki er bætt úr þessu. Hefur n. ritað viðkomandi stofnunum út af þessu máli og bent þeim á þessar staðreyndir.

Frá Innkaupastofnun ríkisins barst n. samningur, sem gerður hafði verið við Olíufélagið h/f um kaup á olíu og benzíni fyrir ríkisfyrirtækin. Ber að sjálfsögðu að fagna því, hversu vel hefur tekizt til um þau kaup. Hitt er svo annað mál, að það verð, sem þar er samið um, gefur fulla ástæðu til að krefjast þess, að ríkisstj. láti athuga á ný álagningu þá, sem leyfð er á olíusölu til almennings í landinu, og er þess vænzt, að það verði ekki látið dragast. Útvegurinn er sannarlega ekki svo vel stæður, að verjandi sé að leyfa að selja honum olíu með allt öðru og miklu hærra verði en unnt er að selja hana til ríkisstofnananna.

Þá vill n. einnig benda á, að landssmiðjan á enn ógreidda skuld til ríkissjóðs að upphæð rúmlega 681 þús. kr., er löngu átti að vera greidd. Væri æskilegt, að þessi viðskipti yrðu gerð upp sem fyrst.

Að síðustu skal tekið fram um þessa gr. frv., að alveg er óhjákvæmilegt að láta hið bráðasta fara fram endurskoðun á leigukjörum á fasteignum ríkisins. Eftir því, sem upplýst var í n., eru gjöldin af þessum fasteignum rúmum 100 þús. kr. hærri en tekjurnar, og er þó ekkert reiknað með vöxtum eða fyrningu eignanna. Væntir meiri hl. n. þess, að leiðrétting hér að lútandi verði ekki látin dragast.

Ég skal svo fara nokkrum orðum um einstakar brtt., sem meiri hl. leggur til að gerðar verði við frumvarpið.

1. brtt. er við 10. gr. Þar er lagt til að veita 40 þús. kr. til kaupa á innanstokksmunum. Þessi upphæð er þannig til komin, að óyfirfærð var sú upphæð, sem notuð var til kaupa á innanstokksmunum í erlendum gjaldeyri. Stafar þetta þá af gengisbreyt. Þótti sjálfsagt að taka upp þessa upphæð.

2. brtt. er um að hækka laun á skrifstofum sýslumanna um 10 þús. kr. Er hún gerð vegna þess, að nauðsynlegt þykir að bæta við starfskröftum við bæjarfógetaembættið á Akranesi.

3. brtt. er um 107 þús. kr. hækkun í sambandi við lögreglukostnað ríkisins í Reykjavík. Er þetta leiðrétting. N. hefur fengið upplýsingar um, að þessa upphæð þurfi að hækka úr 700 þús. kr. í 807 þús. kr.

4. brtt. er um að bæta við nýjum lið, 75 þús. kr., til byggingar fangahúsa. Er sú till. flutt samkv. ósk hæstv. dómsmrh., og hefur n. fallizt á að leggja til, að þessi upphæð verði tekin inn.

5. till. er um, að liður falli niður. Hann er um kostnað við framkvæmd l. um bókhald, 7200 kr. Hefur hæstv. ríkisstj. fallizt á, að þessi liður megi falla niður úr frv.

6. brtt. er við 11. gr. Hún er um að hækka tekjur við eftirlit með skipulagi bæja og sjávarþorpa, 47500 kr. hækkun, til að vega á móti gjöldunum. Það hefur þótt sjálfsagt að láta tekjur mæta gjöldum í sambandi við rekstur þessarar stofnunar.

Allar hækkunartill. á 11. gr. eru samtals 193500 kr., en lækkanir á móti eru 49369 kr. Hækkun umfram lækkun er því 153131 kr.

7. till. er um að hækka laun við Kristneshæli um 28980 kr., sem er raunverulega leiðrétting.

8. till. er um að fella niður framlag til drykkjumannahælis á Úlfarsá. Eins og hv. þm. er kunnugt, var á sínum tíma stofnað drykkjumannahæli í Kaldaðarnesi. Það var lagt niður og eignirnar seldar. Ég fer ekki frekar út í það mál. Úlfarsá hafði þá verið keypt af þáverandi landbrh. til þess að starfrækja þar tilraunastöð í jarðrækt, án þess að vitað sé, að fyrir því hafi verið heimild Alþingis. Síðan var af rn. ákveðið að setja upp nýtt drykkjumannahæli, skömmu eftir að það hafði verið lagt niður í Kaldaðarnesi. Þótti Úlfarsá þá tilvalinn staður fyrir þá hluti. Nú hefur jörðin verið seld Atvinnudeild háskólans allmiklu hærra verði, án þess að séð verði, að hún hafi verið nokkuð notuð síðan, og sett þó nokkurt fé í breyt. og umbætur, en allt er þó í óvissu um rekstur þessarar tilraunastöðvar, sem er nú annaðhvort leiguliði á annarri jörð eða hefur ekkert skýli yfir höfuðið og ekkert við að styðjast nema ágóða af sölu jarðarinnar. Meðan allt svífur svo í lausu lofti með framtíð drykkjumannahælisins, þykir ekki rétt að ætla fé í fjárl. til þess, enda er ekki ráðið, hvernig því verður hagað í framtíðinni.

9. till. er um hækkun á framlagi til heilsuverndarstöðva, og nemur sú hækkun 40 þús. kr. Þetta er leiðrétting, því að það hefur ekki enn verið tekin inn í frv. sú uppbót á laun embættismanna, sem samþ. hefur verið að greiða. Þess vegna er lagt til, að þessi liður verði hækkaður. Er það gert í samráði við Sigurð Sigurðsson berklayfirlækni, sem hefur upplýst n. að fullu um þetta atriði.

10. brtt. er um hækkun á framlagi til fjórðungssjúkrahúss á Akureyri, úr 350 þús. kr. í 500 þús. kr. Fjvn. hafði kynnt sér ástandið í málum sjúkrahússins í haust. Það er komið undir þak og búið að eyða mjög miklu fé í það. Er því nauðsyn að taka þessa byggingu í notkun svo fljótt sem unnt er. Meiri hl. er sammála um að leggja til, og raunar enginn ágreiningur um það í n., að þessi liður verði hækkaður um 450 þús. kr.

Hækkunartill. á þessari gr. eru samtals 218980 kr., en lækkanir 70 þús. kr. Raunveruleg hækkun er því 148980 kr., ef till. n. verða samþ. óbreyttar.

11. brtt. er um að fella niður ferðakostnað verkfræðinga, 250 þús. kr. Í frv. er þetta nú fært þannig, að ætlazt er til, að kostnaðurinn sé reiknaður á hvert mannvirki, sem framkvæmt er á 13. gr. Meiri hl. n. hefur lagt til, að þetta verði fellt niður. Ég skal geta þess hér, að um þetta atriði verður þó rætt nánar við hæstv. ráðh., áður en gengið verður til atkv. um þennan lið.

Þá er 12. brtt. Þar eru till. n. um framlag til nýrra akvega í töluliðunum 1–148. Hér er að mestu leyti farið eftir till. vegamálastjóra, en þó vikið frá í nokkrum atriðum. Það varð samkomulag hjá fjvn. að leggja til, að liðurinn yrði tekinn upp eins og hér segir. Ég vil þó í sambandi við þetta mega segja hér nokkur orð um Öxnadalsheiðarveg. N. fékk upplýsingar frá vegamálastjóra um það, að því verki væri lokið, en þar væri 350 þús. kr. skuld, og óskaði hann eftir, að tekið væri upp 250 þús. kr. framlag til þess vegar á árinu. N. treysti sér ekki til þess vegna þess, hve takmarkað var það fé, sem látið er til vega, en væntir þess, þótt ekki séu teknar nema 170 þús. kr., þá verði það ekki að vandræðum fyrir vegamálastjóra að ráða fram úr því á næstkomandi árum.

Þá er annað atriði, sem ég vil einnig leyfa mér að ræða í sambandi við þennan lið. Það komu erindi frá Grindavíkurhrepp í sambandi við Grindavíkurveg um breikkun á veginum, sem búið er að leggja til Grindavíkur, einnig frá Slysavarnafélagi Íslands um að leggja fram fé til þess að gera veg út á Reykjanes, en framlag til hans var tekið upp í síðustu fjárl. En nú ætlast Slysavarnafélagið til þess, að fénu verði varið til vegar að vestanverðu við Reykjanes, en hann er ekki í þjóðvegatölu. N. leggur það að sjálfsögðu í vald vegamálastjóra og ráðh., hvort það framlag, sem hér er lagt til, verði notað til að breikka veg, sem er lagður, eða halda áfram með nýjan veg, þar sem Grindavíkurvegur sá, sem lagður hefur verið, er í þjóðvegatölu, en verði ekki lagt til vegar, sem er ekki í þjóðvegatölu.

Vegamálastjóri ræddi við n. um nauðsyn þess að hækka framlag til viðhalds vega. N. hefur ekki lagt til, að það verði gert á þessu stigi, en mun ræða það nánar við ráðh., áður en 3. umr. fer fram.

13. brtt. er einnig við 13. gr., brúargerðir. Þar leggur meiri hl. n. til, að liðnum verði skipt eins og segir í þessari brtt., 1.–23. lið. Í sambandi við 11. lið skal ég geta þess, að hér er um prentvillu að ræða. Þar stendur „Víðidalsá í Miðfirði“, en á að vera: Víðidalsá nálægt Víðidalstungu. Verður það athugað, áður en frv. kemur endanlega til afgreiðslu. Ég vil enn fremur leyfa mér að taka fram, að af upphæðinni, sem ætluð er til smábrúa á 23. lið, 650 þús. kr., er ætlazt til, að verði varið fé til að byggja brú á Vestdalsá í Seyðisfirði, en kostnaður við þá brúarsmíði er áætlaður 70 þús. kr. Þykir rétt, að hún sé endurbyggð af þessu fé, og vil ég, að það komi fram í framsögu.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar brtt.

14. brtt. er nýir liðir: til ræktunarvega. Er þar sama skipting á fjárhæðinni og á undanförnum árum. Ég vil geta þess í sambandi við umr., sem fóru fram á síðasta þingi um ræktunarvegi, þegar rætt var um fjárlagafrv., þá kom fyrirspurn frá hv. 1. þm. Eyf., hvers vegna ekki væri tekið meira til ræktunarvegar í Hrísey. N. hefur fengið greinargóða skýrslu frá vegamálastjóra, þar sem er upplýst, að í Hrísey séu nær allir vegir í sýsluvegatölu. Hins vegar séu ræktunarvegir og smávegir út frá aðalvegunum. Eftir þær upplýsingar þótti n. ekki ástæða til að gera neinar breyt. á fjárframlögum þangað. Brtt. er því eins og þessi liður hefur áður verið í fjárl.

Þá er einnig b-liður: Til vegarlagningar á landi ríkissjóðs í Kópavogi, 50 þús. kr., en áður var þessi liður 80 þúsund. En það hefur verið lagt mikið af vegum um Kópavogsland. Það virðist eðlilegt, að Kópavogshreppur gerði sérstakar samþykktir um sínar vegaframkvæmdir. Er ætlazt til þess, að ríkissjóður þurfi ekki framvegis að standa straum af þessum vegalagningum. Rétt þótti þó að leggja til 50 þús. kr. fjárveitingu til vegagerðar á löndum ríkisins í Kópavogshreppi.

Meiri hl. n. hefur ekki á þessu stigi neinar brtt. við framlag til strandferða. Þó þykir mér rétt að benda á, að rekstrarhallinn er miklu meiri en þessar 750 þús., sem eru í frv., þar sem frá er dreginn hagnaður af rekstri Þyrils, 950 þús. kr. Líklegt er, að nokkuð mætti spara á þessu fjárfreka fyrirtæki, m.a. létta af 150 þús. kr. tapi við upp- og útskipun á vörum o.fl. Það væri engin goðgá að láta fara fram á þessu raunhæfa athugun.

Í sambandi við brúargerðirnar vil ég leyfa mér að benda á, að vegamálastjóri hefur afhent fjvn. mjög góða skýrslu um brúaframkvæmdir, sem hafa verið gerðar á árinu og væntanlega verða gerðar á næstu árum, m.a. áætlun um, hvernig hann hugsar sér að nota brúasjóð á árinu 1951. Í l. um brúasjóð, sem stofnaður var af bifreiðaskatti, segir svo m.a. í 8. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Í brúasjóð renni fjárhæð, sem svarar 5 aura flutningsgjaldi af hverjum lítra af benzíni, er Alþingi ráðstafar, og skulu fyrstu tekjur hans ganga til byggingar Þjórsárbrúar“.

Þó að vegamálastjóri hafi sent n. tillögur sínar, hvernig hann hugsar sér að nota brúasjóð á næsta ári, hefur n. á þessu stigi ekki gert till. um að taka það inn í fjárl., en það verður að sjálfsögðu rætt við hæstv. ríkisstj., hvort ekki sé rétt að taka þetta inn í fjárl. með tilvísun til beinna fyrirmæla l. frá Alþingi til ráðstöfunar fénu. N. hefur enn ekkert um það sagt, hvort hún vill fallast á þá till. um skiptingu fjárins, sem vegamálastjóri hefur gert till. um, en mun taka það til athugunar á síðara stigi málsins.

Þá er 15. till. n. Hún er um það, hve miklu fé skuli verja til hafnarmannvirkja og lendingarbóta. Leggur hún til, að það verði svo sem segir í 15. brtt. a. 1–27 og b. 1–21. Er þar að langmestu leyti fylgt till. vitamálastjóra um skiptingu þessa fjár. Þó skal tekið fram, að upphæðin til Rifs á Snæfellsnesi, sem áætluð er í frv. 700 þús. kr., er lækkuð um 200 þús. kr. Þessu er skipt á þær hafnir, sem langmest eiga inni hjá ríkissjóði, og nemur það hjá sumum allt að 800 þús. kr. Samt þótti ekki fært að ætla meira en 200 þús. kr. á nokkra höfn, en þó er bætt 20 þús. kr. á örfáar hafnir, eins og sést á till. Hins vegar er ætlað nokkurt framlag til Sandgerðis vegna þeirrar aðstöðu, sem skapazt hefur þar við síldveiðina á þessu árí. Það er sýnilegt, að það verður að gera þar mikið átak til að bæta úr því neyðarástandi, sem þar er fyrir þá, sem leggja þar afla á land. Að öðru leyti hefur sáralítið verið hreyft við till. vitamálastjóra. Það hefur að vísu verið tekið þar upp eitt framlag til eins nýs staðar, sem stóð ekki í till. vitamálastjóra, Reykjaness við Ísafjarðardjúp, 10 þús. kr.

16. till. er um að hækka úr 500 þús. í 1300 þús. kr. framlag til hafnarbótasjóðs. Fjvn. fékk um þetta erindi frá vitamálastjóra, þar sem hann tilkynnir n., hversu mikið fé þurfi að taka upp til að uppfylla ákvæði gildandi l. um hafnarbótasjóð, en það er 1300 þús. kr. á næsta ári. Hefur það verið tekið upp. Einnig er tekinn upp nýr liður, 125 þús. kr., til þriggja ferjuhafna. Er þess vænzt, að sú tillaga verði einnig samþ.

Fjvn. ber ekki fram brtt. í sambandi við framlag til flóabáta, en ég geri ráð fyrir að samvinnunefnd samgöngumála geri till. um skiptingu fjárins og þær breyt., sem henni þykir ástæða til. Það hefur verið venja að undanförnu, að það hefur verið gert af þeirri nefnd.

Það liggur engin brtt. fyrir um Ferðaskrifstofu ríkisins, en ég vil vísa til þess, sem ég hef sagt, að fela ætti henni verkefni umferðaskrifstofunnar.

Brtt. til hækkunar á 13. gr. nema alls 1722 þús. kr., en til lækkunar 20 þús. kr.

Í sambandi við hafnarmál vil ég leyfa mér að geta þess, að fjvn. fékk lista frá ríkisstj. yfir þær skuldir, sem ríkissjóður hefur orðið að greiða vegna ábyrgða í sambandi við lán til hafnargerða og lendingarbóta. Nemur sú upphæð alls 1700 þús. kr. Þar er ekki um margar hafnir að ræða, en nokkrar þó. M.a. skuldar ein 900 þús. kr. Ég vil leyfa mér að geta þess, að 1948 eru þau tilmæli í nál. fjvn. til ríkisstj., að hún láti athuga þessi mál þá þegar. Fjvn. hefur ekki séð, að það hafi verið gert. Leggur hún mikla áherzlu á það nú að kippa þessu í lag. Ef ekki verður spyrnt við fótum, þannig að settur verði beinlínis endurskoðandi á þessi fyrirtæki til að athuga m.a., að þessar hafnargerðir fái tekjur samkvæmt gildandi reglugerðum fyrir hafnirnar, eða hvort reglugerðirnar séu þannig, að ekki sé hægt að fá meiri gjöld, svo að þessi fyrirtæki fái meiri tekjur, og í þriðja lagi, að fé, sem veitt er til þessara aðila, sé beinlínis látið til að greiða skuldir, þá er sýnilegt, að þessar stofnanir hafa tilhneigingu til að greiða ekki sínar skuldir, heldur taka stórar fjárfúlgur úr ríkissjóði, án þess að þau hafi viðunandi skipulag á fjármálum sínum. Fjvn. mun skrifa ríkisstj. um þetta og væntir, að þessu verði kippt í lag.

17. till. er við 14. gr., að fella niður kostnað við eftirlit með kirkjugörðum, 7200 kr. Hefur það verið rætt við ríkisstj.

18. brtt. er aðeins leiðrétting, að fyrir „Sjómannaskólinn“ komi „Stýrimannaskólinn“.

19. till. er nýr liður, að hækka kostnað við kennslu á Hvanneyri, 35708 kr. Það er leiðrétting. Hefur þetta fallið úr frv., þegar það var samið, og er nauðsynlegt að taka það upp aftur.

20. brtt. er hækkun á framlagi til iðnskóla úr 250 þús. í 335 þús. kr. Það hefur ekki verið reiknað með uppbótum á þennan lið eins og við aðra skóla í landinu. Er því nauðsyn að taka þessa hækkun inn.

21. till. er um að hækka um 650 þús. kr. framlag ríkisins til rekstrarkostnaðar gagnfræða- og héraðsskóla. Það er leiðrétting, sem kom til n., og er nauðsynlegt að taka hana inn í frv.

22. brtt. er um að lækka um 100 þús. kr. framlag til byggingar gagnfræða- og héraðsskóla. Skuld ríkisins við þessa skóla er nú 2800 þús. kr., en ógreitt framlag til byggingar barnaskóla er um 6 millj. kr. Þó er ekki tekinn upp nema 1/3 af því. Hefur það verið rætt við ríkisstj.

23. till. er um, að 5 þús. kr. verði veittar til byggingar skóla Árnýjar Filippusdóttur. Varð samkomulag um að taka þessa upphæð inn í frv.

24. till. er um að lækka kostnað við ferðakennslu í íþróttum um 10 þús. kr.

25. till. er um 50 þús. kr. framlag vegna undirbúnings þátttöku Íslendinga í Ólympíuleikunum 1952. Ég vil leyfa mér að geta þess, að annað erindi lá fyrir n. um 90 þús. kr. styrk til íþróttamanna til ferðalaga, og það var sannarlega ekki sársaukalaust fyrir fjvn. að geta ekki lagt til, að þetta yrði tekið upp, eftir þann sóma, sem íslenzkir íþróttamenn hafa gert Íslandi síðastliðið sumar.

Hún sá sér því miður ekki fært að verða við þessu, en tók upp 50 þús. kr. upphæð til undirbúnings þátttöku í Ólympíuleikunum.

26. brtt. er um að lækka kostnað við rannsókn á þroskastigi skólabarna um 31598 kr. Það er m.a. vegna þess, að það var talið, þegar upphæð til þessa starfs var tekin upp í fjárl. yfirstandandi árs, að þessu verki væri svo langt komið, að ekki þyrfti að hugsa til að hækka framlagið mikið. Nú er verið að hækka það á frv. þvert ofan í það, sem sagt var þá. Leggur n. til, að það verði lækkað eins og segir í brtt.

Brtt. til hækkunar við 14. gr. nema alls 825708 kr., en brtt. til lækkunar 148798 kr. Verði allar brtt. n. við þessa gr. samþ., verður raunveruleg hækkun á gr. 676910 kr.

27. brtt. er við 15. gr., um að tekinn verði upp nýr liður til uppsetningar þjóðminjasafns, 75 þús. kr. N. ræddi þetta atriði við þjóðminjavörð, sem upplýsti, að þeir hefðu nægilegt fé til flutnings á safninu á næsta ári, en hins vegar þyrfti fé til þess að smíða nauðsynlegar geymslur, hillur og skápa, og taldi n., að hægt yrði að komast af með þá upphæð, sem í till. greinir, 75 þús. — Þá er í 28. till. tekinn upp nýr liður: Til að skrá og setja upp jurtasafn (í eitt skipti fyrir öll), 20 þús. kr. — N. hefur verið tjáð, að ríkið eigi mjög verðmætt jurtasafn, og hefur því fallizt á, að veittar verði 20 þús. kr. til að koma þessu safni fyrir, skrá það og koma því upp, en ekki er ætlazt til, að ráðinn verði fastur starfsmaður til að gera þetta, nema þetta eina ár, og er því gert ráð fyrir, að til þess að ljúka verkinu nægi sú upphæð, sem hér er til tekin.

30. brtt. er um að lækka um 5 þús, kr. framlag vegna útgáfu ritsins „Zoology of Iceland“, úr 10 þús. kr. í 5 þús. kr. Hefur verið rætt um þetta við Árna Friðriksson, og er brtt. gerð í samráði við hann. — 31. brtt. er um að hækka framlag til Jóns Dúasonar um 10 þús. kr., úr 15 þús. í 25 þús. kr. — 32. brtt. er um, að tekinn verði upp nýr liður: Til Jóns Norðfjörðs til að kenna leiklist á Akureyri, 8 þús. — 33. brtt. er einnig um, að tekinn verði upp nýr liður: Til Tónlistarskóla Siglufjarðar, 10 þús. kr. — Þá er 34. brtt. um, að tekinn verði upp nýr liður: Til kantötukórs Akureyrar, vegna utanfarar, 30 þús. — 35. brtt. er um, að Guðrúnu Á. Símonar verði veittar 6 þús. kr. til söngnáms. Það hefur verið á fjárl. áður. — Þá er lagt til í 36. brtt., að veittar verði 6 þús. kr. til Lögreglukórs Reykjavíkur, vegna utanfarar. Og í 37. brtt. er lagt til, að framlag til listasafns Einars Jónssonar verði hækkað úr 20 þús. í 25 þús. kr.

Í 38. brtt. er lagt til, að framlag til umbóta á Þingvöllum verði hækkað úr 30 þús. í 100 þús. Árið 1949 var þessi upphæð 100 þús., en 1950 var hún færð niður í 50 þús. Nú er ástandið þannig á Þingvöllum, að nauðsynlegt er að girða þjóðgarðinn, og kostar það stórfé, ef á að girða hann þannig, að hann sé gripheldur. Hefur verið plantað mjög miklu á hverju ári og ekki unnt að halda því áfram, nema tryggt sé, að fé komist ekki inn í garðinn. Auk þess er þarna um annað verkefni að ræða, sem sé að koma upp almenningssalerni, sem kostar töluvert fé. Er ekki sæmandi, að þau mál séu eins og þau eru nú, á slíkum stað, þar sem jafnmargir ferðamenn koma, og er nauðsynlegt, að þessu verði kippt í lag. N. hefur fallizt á að taka upp á þessu ári 100 þús. kr. framlag til þess að gera þarna umbætur.

39. brtt. er þess efnis, að veittar verði 20 þús. kr. til minnismerkis Jóns biskups Arasonar á Hólum. Þessu minnismerki hefur nú þegar verið komið upp, en það hefur kostað miklu meira fé en gert var ráð fyrir, og hefur orðið að samkomulagi að taka upp 20 þús. kr. til að greiða í sambandi við byggingu minnismerkisins á Hólum.

40. brtt. er í sambandi við veðurstofuna, að niður falli 30 þús. kr. framlag til kaupa á nýjum jarðskjálftamæli. Þykir ekki ástæða til að setja þetta inn á 15. gr. undir þann lið, vegna þess að síðar er tekin upp önnur upphæð til kaupa á jarðskjálftamæli.

41. brtt. er um að taka upp nýtt framlag til mótvirðissjóðs. Í fyrsta lagi er það framlag til tæknilegrar aðstoðar, sem er þegar á frv., en auk þess framlag til kaupa á nýjum jarðskjálftamæli, 50 þús. í stað 30 þús., og svo er til kortlagningar jarðvegsins tekið upp 198 þús.

Allar hækkunartill. við 15. gr. nema samtals 698 þús. kr. og lækkunartill. 30 þús., þannig að verði allar brtt. við þessa gr. samþ., hækkar gr. um 668 þús. kr. — Í sambandi við þessa gr. vil ég benda menntmrh. á, að styrkir til lesstofa og bókasafna eru teknir hér upp 269850 kr. á frv., á bls. 38. Fjvn. hefur fengið skrá yfir þá styrki, sem hafa verið auk þess greiddir til bókasafna og lesstofa um land allt, og nemur það um 144 þús. kr. Það væri því æskilegt, þegar fjárl. verða samin næst, að fella að mestu leyti niður þessa liði, sem eru hér í frv., en láta nægja þá upphæð, sem tekin er til bókasafna frá skemmtanaskattinum, þó að sjálfsögðu ekki fjórðungsbókasafna, sem alltaf hafa haldið sínum ákveðna styrk undanfarin ár, eða a.m.k. að samræma þetta betur en hér er gert. Er ekki ástæða til að hafa þetta svona í tvennu lagi.

Í 42. brtt. er lagt til, að framlag til skurðgröfukaupa verði hækkað úr 100 þús. í 200 þús. kr., en aftur á móti er í 43. brtt. lagt til, að framlag til kaupa á jarðræktarvélum verði lækkað úr 1 millj. í 500 þús. Þetta hefur verið rætt við hæstv. ríkisstj., og með því að talið er vafasamt, að innflutningur á vélum verði meiri, hefur verið fallizt á þá breyt., sem hér um ræðir.

44. till. er um framlag til umbóta á Reykhólum vegna skipulags staðarins. Þar hafa verið gerðar ýmsar framkvæmdir, og hefur skipulagsnefnd haft þær með höndum, en þessi nefnd hefur ekki fengið neitt fé til þessara framkvæmda fyrr en nú, að tekið er upp í fyrsta skipti 25 þús. kr. framlag til umbóta á þeim stað.

45. brtt. er um að hækka framlag til fyrirhleðslu á Þverá og Markarfljóti úr 350 þús. kr. í 550 þús. kr. Fjvn. kynnti sér þetta verk, sem hefur kostað ríkissjóð óhemju fé undanfarin ár, og fullvissaði sig um það, að óhjákvæmilegt væri að halda þessu verki áfram, og meira að segja þyrfti að láta töluvert fé í það á yfirstandandi hausti, til þess að ekki ónýttist svo og svo mikill hluti af því, sem búið er að gera. — Þá eru einnig í sömu till. teknir upp nýir liðir, þ.e. til fyrirhleðslu á Kaldaklifsá og Hólmsá í Austur-Skaftafellssýslu, en þetta hefur verið á fjárl. áður, og er þessu verki enn ekki lokið.

Í 46. till. er lagt til, að framlag til landþurrkunar á Eyrarbakka verði lækkað úr 20 þús. í 10 þús. kr., en tekið verði upp 10 þús. kr. framlag til landþurrkunar á Stokkseyri og 20 þús. kr. framlag til landþurrkunar í Austur-Landeyjum.

Í 47. brtt. er lagt til, að tekið verði upp 30 þús. kr. framlag til raflýsingar í Gunnarsholti. Það hefur legið fyrir erindi hjá n., sem sýnir, að með því að raflýsa Gunnarsholt með vatnsrafstöð í stað þess að taka línu frá aðallínukerfinu, þá er þetta miklu kostnaðarminna. Er gert ráð fyrir, að raforkusjóður láni eitthvað til þessa verks, eins og fyrir er mælt í 39. gr., að mig minnir, og megi því komast af með 30 þús., a.m.k. á þessu ári, til verksins, og er því lagt til, að þessi liður sé tekinn upp í frv.

48. brtt. er um að hækka framlag vegna fjárskiptanna um 1 millj. og 900 þús. kr., eða upp í 9 millj. og 460 þús. kr. Það verður að segjast, að sjálfsagt er enginn liður í fjárlfrv., sem kemur til að verða eins erfiður og þungur á ríkissjóði og þessi liður hér. En niðurskurðurinn þykir sjálfsagður, enginn hefur mælt gegn honum, enda hefur hann reynzt þannig, enn sem komið er, að ekki er ástæða til þess að kvarta. Að vísu hafa orðið mistök í einstöku sýslum, og er þess vænzt, að landbrh. gangi fast eftir, að hlýtt verði þeim reglum, sem settar eru í sambandi við fjárskiptin. Það væri hroðalegt, ef skera þyrfti niður á ný heila hópa af fé, sem nýlega hefur verið skipt, og láta ríkissjóð greiða niður á ný þann mismun. Fjvn. leggur mjög mikla áherzlu á það, að ekkert sé látið ógert til þess, að þeim reglum verði fylgt út í það ýtrasta. Það er hugsað að taka af þessari upphæð 1 millj. inn á 20. gr. sem nýtt lán. Er þetta gert skv. ósk rn.

Þá er lagt til í 49. brtt., að tekið verði upp nýtt framlag vegna kostnaðar við norrænt búnaðarmót á Íslandi, 25 þús. kr. Hins vegar leggur meiri hl. n. til, að felldur verði niður 27. liður 16. gr., til hreindýraræktar á Suðurlandi, 30 þús. kr. — Þá er lagt til í 54. brtt. að hækka framlag vegna reikningastofu sjávarútvegsins úr 22 þús. í 31 þús., og í 52. brtt. er lagt til, að framlag til Alþjóðahvalveiðaráðs verði hækkað um 2295 kr. — Þá er gert ráð fyrir í 53. brtt., að framlag til nýrra síldveiðiaðferða verði hækkað um 50 þús. kr., úr 300 þús. í 350 þús. kr. Hefur fjvn. fallizt .á þessa hækkun og leggur til, að hún verði gerð.

Í 54. brtt. er lagt til, að framlag til Landssambands iðnaðarmanna hækki úr 50 þús. í 60 þús., og í 55. brtt. er lagt til, að framlag til iðnráða hækki um 5 þús.

Allar hækkunartill. á 16. gr. nema 2454295 kr., en till. til lækkunar nema 530 þús. kr., þannig að þessi gr. hækkar um 4924295 kr., ef allar till. verða samþ. Munar þar að sjálfsögðu langmest um það fé, sem lagt er til fjárskiptanna. — Þessar brtt. hafa allar verið ræddar við hæstv. ríkisstj. og fullt samkomulag milli ríkisstj. og n. um þessi atriði.

Í sambandi við 17. gr. er lagt til, að framlag til sjúkrasamlaga hækki um 300 þús. kr., eða upp í 4 millj. og 800 þús., vegna hækkunar á sjúkrasamlagsgjöldum. Hins vegar hefur n. á þessu stigi málsins ekki gert neinar till. til breytinga um framlag til almannatrygginganna að öðru leyti en það hefur verið upplýst, að þurfa muni 3 millj. og 200 þús. kr. hærri upphæð en tekin hefur verið inn á fjárl., ef haldast eiga sömu hlutföll milli þeirra þriggja aðila, sem greiða iðgjöld til trygginganna, þ.e. ríkissjóðs, sveitarsjóða og einstaklinga. Um þetta hefur ekki verið endanlega ákveðið neitt í n., m.a. vegna þess, að fyrir Alþ. liggja nú brtt. við gildandi l. um almannatryggingar, og fyrr en séð verður, hvernig þeim brtt. reiðir af, er ekki endanlega hægt að ákveða, hvað þarf til þessara framkvæmda, en um það verður að sjálfsögðu rætt fyrir 3. umr.

57. brtt. er um það að fella niður byggingarstyrk til Sambands íslenzkra berklasjúklinga, 200 þús. kr. Þetta er byggt á því samkomulagi við hæstv. ríkisstj., að hún afhendi Sambandi íslenzkra berklasjúklinga trésmiðju ríkisins við Silfurtún ásamt vélum, byggingum og óunnu efni og um þetta takist samningar milli stjórnar Sambands íslenzkra berklasjúklinga annars vegar og hæstv. ríkisstj. hins vegar, sem þegar hafa verið mótaðir nokkuð, þannig að rætt hefur verið um það, að niður félli þá byggingarstyrkur til sambandsins a.m.k. næstu tvö ár. Að sjálfsögðu er þetta atriði, sem hægt er að ræða um á hverju Alþ., en hér er lagt til, að þetta sé fellt niður. — Ég vil í sambandi við þetta leyfa mér að benda á, — sem ég raunar veit, að allir hv. þm. vita og öll þjóðin veit, — að þau undur hafa skeð í sambandi við reksturinn á Reykjalundi, að þar hefur mjög veikt líf sigrað mjög sterkan dauða og það mjög glæsilega. Þetta er líklega eina stofnunin, sem rekin er í sambandi við mannúðarmál, sem hefur getað staðið undir rekstrinum og skilað ágóða. Þess vegna ber að meta þetta starf, og því er treyst, að ríkissjóður noti þá heimild, sem lagt er til að tekin verði upp á 22. gr. í sambandi við afhendingu þessarar eignar, sem ég hef þegar rætt um. — Þá er lagt til hér, að hækkaður sé rekstrarstyrkurinn vegna læknislauna í sambandi við Reykjalund upp í sama og læknum á Vífilsstöðum og öðrum heilsuhælum er greitt. Er ríkissjóður skyldugur að greiða læknislaun eins og þau eru á hverjum tíma, og er því hér um leiðréttingu að ræða.

Þá er hér í 59. brtt. lagt til, að tekið verði upp framlag til dagheimilis Kvenfélagsins Hlífar, Akureyri, 15 þús. kr. byggingarstyrkur.

Alls nema hækkunartill. á 17. gr. 326849 kr., lækkunartill. 200 þús. kr., þannig að gr. mundi hækka um 126849 kr., ef allar brtt. yrðu samþ.

Þá hefur n. gert nokkrar brtt. við 18. gr. Ég sé ekki ástæðu til að lesa hvern einstakan lið, en vil í sambandi við þessa gr. leyfa mér að benda á, að fjvn. er óánægð með það, hvernig það mál hefur verið útbúið af hæstv. ríkisstj. Þar ríkir hið megnasta ósamræmi og rangsleitni í sambandi við þá, sem taka eftirlaun. Þar er um að ræða fátækar, gamlar prestsekkjur, sem aðeins hafa örfáar krónur, og útilokað fyrir fjvn. að laga þetta vegna ákvæða í almennu tryggingalöggjöfinni, sem segir, að það, sem veitt er á 48. gr. sem eftírlaun, skuli dragast frá þeim tekjum, sem viðkomandi aðilar eiga að fá frá Tryggingastofnuninni. — Það hefur sannarlega ekki verið sársaukalaust að víkja sanngjörnum beiðnum þessara kvenna frá sér ár eftir ár, og vil ég vænta þess, að fundnar verði einhverjar leiðir til úrbóta. Hér er um að ræða 5–6 gamlar konur, komnar yfir áttrætt, en hins vegar eru svo inni á 18. gr. margir menn með full laun, sem þeir greiða ekki af í lífeyrissjóð, sem þeir þó höfðu orðið að gera áður, meðan þeir unnu fulla vinnu. Hér eru t.d. einnig á 18. gr. menn, sem komnir eru úr starfi og hafa full laun og þar að auki stórkostlegar launauppbætur, sem byggist á því, að það hafa verið samningar frá gamalli tíð, þegar þurfti að kaupa þá til að gegna ákveðnum störfum. Það, sem þarf að gera, er að ákveða alveg fast, hvað hver embættismaður skuli fá, þegar hann hættir störfum, og það sé farið þar eftir föstum reglum, en ekki eftir því, hvaða áróður er rekinn í þinginu á hverjum tíma. Meðal annars er talað um að taka hér upp á 18. gr. einhvern allra prýðilegasta mann, sem nú er að láta af störfum. Er ekkert samkomulag um það í fjvn., hvernig farið skuli með það mál. Okkur hefur verið tilkynnt, að þessi maður hafi ekki óskað að fá annað eða meira en 60% af sínum hámarkslaunum. En til n. hefur komið ákveðin beiðni um það, að þessi maður verði tekinn upp á full laun. N. hefur ekki viljað taka neina afstöðu til þessa máls, vegna þess að það ríkir engin stefna enn þá í sambandi við 18. gr. Ég vil því mega vænta þess, að áður en næsta fjárlfrv. verður lagt fram, verði búið að athuga þessi mál gaumgæfilega. Og líklega væri bezt að skipa sérstaka n. manna milli þinga til þess að ákveða þetta mál.

Hækkunartill. á 18. gr. nema samtals kr. 9729, en lækkunartill. nema kr. 47352.87, og mundi þetta því þýða um 38 þús. kr. lækkun, ef till. verða allar samþ.

Í sambandi við 20. gr. er lagt til í 62. brtt., að hækkuð séu lán þau, sem tekin verða á árinu, úr 2 millj. í 3 millj. í sambandi við sauðfjárskiptin, eins og ég hef áður minnzt á. — Þá er einnig lagt til, að niður falli á sömu gr. liðurinn „Til byggingar tilraunastöðvar á Keldum“. Er þetta gert í samráði við ríkisstj. — Í 64. brtt. er lagt til, að framlag til Menntaskólans á Akureyri lækki úr 400 þús. í 200 þús., en aftur á móti hækkað framlag til sjúkrahúss. Þykir nauðsynlegra að nota það fé til þess að koma sjúkrahúsinu áleiðis en til menntaskólans, þó að það sé einnig nokkuð aðkallandi.

65. brtt. er um það að lækka framlag til sjómannaskólans úr 500 þús. í 400 þús. kr. Ég vil í þessu sambandi benda á, að komið hefur erindi frá skólastjóranum, sem kvartað hefur undan því, hvernig hitalögn hússins er og að ekki hafi verið hægt að koma henni í æskilegt lag, sumpart vegna vöntunar á fé og sumpart vegna þess, að ekki hafi fengizt heimild hjá fjárhagsráði til þess að gera þetta verk. Fjvn. leggur áherzlu á, að af þessum 440 þús. kr., sem veittar eru á 20. gr. í ár, verði fyrst og fremst fé notað til þess að koma hitalögn skólans í viðunandi horf, til þess að lækka stórlega hitakostnaðinn árlega.

66. brtt. er um að taka upp nýjan lið: Til byggingar prestsseturshúss á Hólum, 100 þús. kr. — Er þetta loforð, sem hæstv. forsrh. mun hafa gefið á yfirstandandi sumri, og hefur fjvn. fallizt á, að þessi liður sé tekinn upp.

Brtt. við 20. gr. verka þá þannig, ef þær verða samþ., að „Inn“ hækkar um 1 millj., en „Út“ lækkar um 500 þús., en hækkar um 100 þús., eða 400 þús. kr. lækkun.

Á 22. gr. er tekinn nýr liður í sambandi víð afhendingu á trésmiðju ríkisins til stjórnar Reykjalundar, eins og ég hef þegar lýst, og er ekki ástæða til að endurtaka það. Ég vænti, að sú brtt. verði samþ.

Í sambandi við 22. gr. vil ég leyfa mér að taka fram, að fjvn. hefur ekki enn þá tekið endanlega afstöðu til VIII. liðarins á gr., að ábyrgjast lán, allt að 3 millj. kr., til að fullgera hraðfrystihús. Telur n., að um þetta þurfi að ræða miklu nánar, áður en frv. er endanlega ákveðið, og sama er að segja um IX, um að veita útvegsmönnum, er síldveiðar stunduðu fyrir Norðurlandi sumurin 1948 og 1949, eftirgjöf. Það veltur að sjálfsögðu á því frv., sem nú liggur fyrir hv. Nd., um aðstoð til bátaútvegsins, hvort þörf verður á þessari heimild eða ekki. Í þriðja lagi hefur ekki enn verið tekin ákvörðun um XIII. liðinn, þ.e. að kaupa húseignina Laufásveg 7 í Reykjavík, ef hún fæst með viðunandi verði og greiðsluskilmálum. — Þetta er alveg nýr háttur, að eiga að fara að kaupa eignir af sama aðilanum og á að fara að styrkja, og satt að segja skilur ekki fjvn. annað en að þessi liður sé kominn inn fyrir einhvern misskilning. Til þessara þriggja liða hefur n. ekki tekið endanlega afstöðu, en mun ræða þá nánar við hæstv. ríkisstj. fyrir 3. umr.

Ég vil að síðustu skýra hér frá, hvernig niðurstöðutölurnar verða, ef allar brtt. verða samþ.

Hækkun gjalda alls

6556064.00

=

lækkun gjalda alls

1086519.87

Gjaldahækkun alls kr.

5469441.13

Eignabreytingar.

Inn.

Hækkun á lántöku skv.

brtt. á 20. gr.

1000000

Út.

Lækkun á útborgun skv.

20. gr.

500000

= hækkun

100000

Útborgunarlækkun alls kr.

400000

Rekstraryfirlit.

Tekjur alls

287387064

Gjöld

251756182.13

Rekstrarhagnaður

35630881.87

Kr.

287387064.00

287387064

Sjóðsyfirlit.

Innborganir

293347064.00

Útborganir

292599709.13

Hagstæður greiðslujöfnuður kr.

747354.87

Ég vil geta þess, að fyrir öllum þessum brtt. er meiri hl. í n., og beini ég þeirri ósk til forseta, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.