05.12.1950
Sameinað þing: 22. fundur, 70. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (786)

1. mál, fjárlög 1951

Frsm. 2. minni hl. (Ásmundur Sigurðsson):

Herra forseti. Áður en ég fer að ræða þetta mál ýtarlega, vildi ég víkja nokkuð að þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í meðferð fjárl. hér á Alþingi, hversu gjaldaáætlun fjárlfrv. hefur sífellt aukizt í hlutfalli við heildarútflutningstekjur þjóðarinnar. — Árið 1945 námu þær 37% af útflutningstekjunum og þótti þá mjög ógætileg fjármálastjórn. 1946 hækkar þetta enn, og námu gjaldaáætlanirnar þá 43,8% af útflutningstekjunum. 1947 hækkar það enn og er þá komið upp í 67,6%, eða 2/3 af heildartekjum þjóðarinnar. En svo verður breyting 1948, og lækkar þá þetta hlutfall niður í 55,9%, sem stafar af auknum útflutningstekjum, því að þá fóru að koma í ljós afleiðingarnar af uppbyggingu atvinnuveganna. Árið 1949 nema útflutningstekjur þjóðarinnar 289 millj., en gjaldaáætlun fjárl. 256 millj., eða 88,6% af tekjum þjóðarinnar. Og nú er ástandið svo, að fyrir mánuði síðan, um mánaðamótin okt.—nóv., voru útflutningstekjurnar orðnar jafnháar og áætluð rekstrarútgjöld fjárlfrv. Þess vegna verður það eitt fram yfir, sem flutt verður út í desember, allt annað er þegar uppétið. Ef athugaðir eru vissir þættir þessa máls, getur verið heilbrigt, að þetta hlutfall breytist í þessa átt, ef það stafar af því, að verið sé að leggja fé til stórfelldra framkvæmda til uppbyggingar atvinnulífsins, en ekki vegna aukinnar dýrtíðar, eins og aðallega er á þessum fjárl. beint og óbeint, en ef athugaðar eru fjárveitingar til verklegra framkvæmda, er það athyglisvert, að þær fara að sama skapi minnkandi, og áberandi, hve þær verða sífellt minni hluti af útflutningstekjunum. Þróun sú, sem þar hefur átt sér stað, er mjög athyglisverð. 1946 fóru til verklegra framkvæmda, sem eru reiknaðar með á rekstrarútgjöldum fjárl., til vega, brúa, hafnarmannvirkja, skipa og annarra atvinnutækja sjávarútvegsins, 15,3% af heildarútgjöldum fjárl. Síðan breytist þetta stöðugt, 1947 nemur þetta 14%, 1948 er það komið niður í 10% og 1949 9,1%, og 1950 er það 8,6%, og eins og afgreiðsla virðist nú ákveðin af hæstv. ríkisstj., munu þessar framkvæmdir fá í hæsta lagi 7,6% rekstrarútgjalda, eða helmingi lægra en fyrir 4–5 árum, 1946. Þetta sýnir, að verklegar framkvæmdir hafa aldrei fengið eins lítinn hluta af tekjum þjóðarinnar og nú, og eins má benda á það, að síðan síðustu fjárl. voru samþykkt fyrir einu ári hefur gengislækkun komið til framkvæmda, og verður því mun minna unnið fyrir sama fé nú en fyrir ári síðan. Það þýðir, að það fé, sem nægði til að veita 100 mönnum atvinnu áður, nægir nú aðeins til að veita 75 mönnum vinnu, þýðir atvinnuminnkun, sem á ekki svo lítinn þátt í lífi þjóðarinnar. Þetta fjárlfrv. stefnir því ekki að því að tryggja mönnum atvinnu, heldur þvert á móti kemur í veg fyrir að tryggja atvinnulífinu fjármagn á einn eða annan hátt.

Undanfarin ár, þangað til á síðustu fjárl., hafa verið töluverðar upphæðir til að tryggja afkomu sjávarútvegsins, upphæðir til að tryggja ábyrgðarverð á útfluttar sjávarafurðir. Nú er búið með þetta og sjávarútvegurinn býr við það öryggisleysi, að enginn veit, hvar hann á að fá fé til sinna framkvæmda. Því má fullyrða, að með því að tryggja honum þessar greiðslur, væri búið að skapa honum það öryggi, að ekki væri hætta á, að drægi úr öflun þeirrar framleiðslu, sem mest verðmæti flytur í þjóðarbúið. Á síðasta þingi kom svo gengislækkunin, en hún virðist hafa brugðizt, því að í staðinn fyrir það öryggi, sem hún átti að skapa sjávarútveginum, nemur nú útflutningurinn ekki nema 262 millj. kr., og allur rekstrarkostnaður hefur hækkað mjög. Þar að auki gerist það, að búið er að kippa fótunum undan bátaútveginum með því að fella niður þá aðstoð, sem honum var veitt á síðustu fjárl.

Í 16. gr. B., kaflanum um sjávarútvegsmál, legg ég til, að til aðstoðar vélbátaflotanum verði veittar 4,5 millj. kr., því að ekkert liggur fyrir um það, að vélbátaflotinn þurfi síður á aðstoð að halda nú en áður, en það er séð, að verði honum ekki veitt aðstoð nú, má gera ráð fyrir svo miklum samdrætti í þessum atvinnuvegi, að fjárlögin munu af þeim ástæðum ekki geta staðizt. Ég legg því til, að 4,5 millj. kr. verði varið til aðstoðar vélbátaflotanum. Það er óhætt að fullyrða, að verði þetta ekki samþ., þá verður þetta fjárlfrv. ekki til að tryggja atvinnulífið né þjóðarbúskapinn, og þá er hætt við, að enn versni það hlutfall, sem verður að vera milli útflutningsframleiðslunnar og verklegra framkvæmda.

Eitt af því, sem hefur verið fastur liður á fjárl. undanfarin ár, eru dýrtíðargreiðslurnar, sem hafa farið til þess að halda verðlaginu í nokkrum skefjum. Þessar greiðslur hafa verið mjög breytilegar, en hafa yfirleitt farið vaxandi á síðari árum, og ekki hvað sízt vegna ýmissa opinberra stjórnarráðstafana, sem beinlínis hafa hjálpað til að auka dýrtíðina í landinu. Árið 4945 námu þessar greiðslur 26,4 millj. kr., árið 1946 lækkuðu þær niður í 16,2 millj. kr., hækkuðu mjög árið 1947, eða upp í 35,9 millj. kr., hækkuðu árið 4948 upp í 44,6 millj. kr., en lækkuðu árið 1949 í 36,4 millj. kr. og voru áætlaðar í fjárl. yfirstandandi árs 33 millj. kr. En á þessu fjárlfrv. fyrir næsta ár eru þessar greiðslur áætlaðar aðeins 25 millj. kr., eða 19 millj. lægri en þær voru árið 1948. Hvaða áhrif hefur það, að þessar greiðslur skuli vera lækkaðar? Skyldi ætlunin vera sú að lækka þessi framlög til þess að halda verðbólgunni í skefjum, af því að hún fer minnkandi? Því fer hins vegar fjarri. Dýrtíðin fer vaxandi og hefur vaxið svo gífurlega upp á síðkastið einmitt vegna þeirra stjórnarráðstafana, sem gerðar voru á síðasta þingi með gengislækkuninni, og má með sanni segja, að almenningur í landinu hafi fengið að þreifa á því upp á síðkastið, hversu verðlag hefur vaxið. Það liggur því í augum uppi, að með því að lækka dýrtíðargreiðslurnar hlýtur verðbólguflóðið að vaxa í mjög ríkum mæli, sem enginn sér hvenær lægja muni. Og til þess að spara ríkissjóði útgjöld með meiri dýrtíðargreiðslum er margsinnis búið að ákveða vísitöluna með l. til þess að hindra, að í ljós komi, hve dýrtíðin er raunverulega mikil í landinu, í staðinn fyrir, að vísitalan ætti að vera eðlilegur mælikvarði á verðlag í landinu. Þær ríkisstj., sem setið hafa að völdum undanfarin ár, hafa allar meira og minna haft það á stefnuskrá sinni að halda dýrtíðinni í skefjum og lækka hana, en samt hefur afleiðingin orðið sú, að verðbólgan er meiri en nokkru sinni fyrr. Þetta fjárlfrv. stefnir síður en svo til lækkunar dýrtíðarinnar, heldur gerir ástandið mun verra en það hefur verið hingað til.

Það, sem er einkennandi fyrir frv. eins og það liggur fyrir, er það, að búið er að taka út af fjárl. vissar greiðslur, sem skipta tugum milljóna króna, sem ríkissjóður hefur greitt sumpart í því skyni að tryggja framleiðsluna innanlands, sumpart til þess að halda verðbólgunni í skefjum, sem sé dýrtíðargreiðslurnar, og sumpart til aðstoðar atvinnuvegunum, eins og þær upphæðir, sem taldar eru á 16. gr. til aðstoðar við vélbátaflotann. Þetta er allt fellt burt úr frv., en þrátt fyrir það lækkar það ekki, og er útlit fyrir, eins og frv. lítur nú út og ef brtt. hv. meiri hl. fjvn. verða samþ., að rekstrarútgjöld fjárl. lækki ekki nema um rúmlega 10 millj. kr. frá síðasta árs fjárl. Og það er áreiðanlegt, að það er eftir að bæta ekki svo fáum upphæðum inn á frv., áður en það verður endanlega afgr., þannig að útkoman verður sú, þrátt fyrir að sleppt sé úr frv. þeim greiðslum, sem áttu að styðja atvinnuvegina og þeir höfðu áður, að rekstrarútgjöld fjárlfrv. verða þau sömu og áður eða ekki lægri, vegna þess að einmitt þær ráðstafanir, þ.e. gengislækkunin, sem gerð var til þess að spara ríkissjóði t.d. fiskábyrgðar- og dýrtíðargreiðslurnar, hafa gert það að verkum, að nú þarf ríkisstj. að greiða þessi útgjöld á öðrum sviðum, bæði í launagreiðslum og öðru, er snertir rekstrarkerfi ríkisins. Það, sem eftir stendur, er öryggisleysi fyrir atvinnuvegina í landinu, og það er það, sem frv. ber með sér. Það sýnir afleiðingar þeirra aðgerða, sem gerðar voru á síðasta þingi, þannig að búið er að skapa öryggisleysi, sem áður hafði ekki verið á sviði atvinnulífsins í landinu, án þess þó að spara ríkissjóði neitt.

Þá vil ég leyfa mér að benda á ýmislegt fleira, sem vantar í fjárlfrv., sem eðlilega þarf að taka til greina.

Það virðist óeðlilegt, að nú hefur ekki verið tekin með í frv. ein dýrasta ríkisstofnunin, fjárhagsráð og undirdeildir þess, sem hefur kostað meira en sjálft Alþ., og hefur þó oft verið sagt, að Alþ. væri dýrt. Þessi stofnun hefur alltaf síðan hún var stofnuð verið tekin upp í fjárl., en þessum lið er nú sleppt úr frv. Í aths. við frv. er þess að vísu getið, að þetta stafi af því, að ef til vill verði gerðar breyt. á þessu kerfi og því sé erfitt að vita, hvers kostnaðar megi vænta í sambandi við reksturinn. Síðan frv. var lagt fram eru nú liðnir meira en 2 mánuðir, og mætti því ætla, að búið væri að ákveða, í hverju þessar breyt. væru fólgnar, og gera áætlun um rekstur þessarar stofnunar. Ég vil því vænta þess, að áður en 3. umr. fjárlfrv. fer fram, berist fjvn. áætlun um rekstrarkostnað þessarar starfsemi, til þess að unnt sé að sjá, hvort fyrirhugað sé að leggja einhverja af deildum fjárhagsráðs niður, t.d. skömmtunarskrifstofuna, þar sem búið er að afnema skömmtunina að mestu leyti, því að viðkunnanlegra væri að geta sett þessa stofnun inn á fjárlfrv., áður en það verður að l.

Einnig vil ég leyfa mér að benda á, að það vantar inn á frv. áætlun um Tóbakseinkasölu ríkisins og Áfengisverzlun ríkisins. Hefur sú skýring verið gefin á því, að til stæði að sameina þessar stofnanir í eina stofnun, og hefur frv. um það efni verið lagt fram á þessu þingi. Þrátt fyrir það vil ég vænta þess, að lögð verði fyrir fjvn. áætlun um rekstrarkostnað þessarar sameiginlegu stofnunar, áður en 3. umr. fer fram.

Þá vil ég enn fremur benda á það atriði, að framlag til almannatrygginga á 17. gr. er of lágt áætlað, miðað við að sömu bætur verði greiddar og áður, því að þar hefur ekki verið tekið tillit til þeirrar 15% vísitöluhækkunar, sem allar launagreiðslur eru reiknaðar eftir. Ég fæ ekki betur séð en að hér sé að skjóta upp kollinum gamalt mál, sem Alþ. hafði kveðið niður fyrir meira en hálfu öðru ári. Það er sú deila, sem þá stóð milli þáverandi fjmrh. og tryggingaráðs um það, hvernig ætti að fara með tekjuafganginn, sem yrði af tryggingunum. Ég veit, að Alþ. minnist þess, að þáverandi fjmrh. krafðist þess, að tryggingaráð greiddi inn í ríkissjóð tekjuafgang trygginganna, þar sem hann lagði þann skilning í vissa gr. í tryggingal., að ríkisframlag komi ekki til greina nema til að jafna tekjuhalla. Alþ. lýsti sig þó ekki samþykkt þessum skilningi, og hér var samþ., að hinn skilningurinn, sem áður hafði gilt, skyldi gilda áfram, að ríkið væri skyldugt að leggja fram þetta framlag í sama hlutfalli og aðrir aðilar, sem greiddu í tryggingarnar. Nú fæ ég ekki annað séð en að þessi sama deila sé að skjóta upp kollinum og nú á þeim grundvelli, að núverandi hæstv. fjmrh. virðist leggja þann skilning í málið, að réttlátt sé að láta iðgjöld ríkisins og sveitarfélaga standa í stað, þótt gert sé ráð fyrir að greiða hækkandi bætur með hækkaðri vísitölu og krafizt sé hærri iðgjalda af einstaklingum og atvinnurekendum. Þetta kemur greinilega fram í grg. með frv. um breyt. á l. um almannatryggingar, sem lagt hefur verið fram í Ed., þar sem tekið er fram, að tilætlunin sé að láta tryggingasjóð bera hallann, sem af þessu kann að leiða. Ég fæ hins vegar ekki séð, að þetta geti staðizt, því að hér væri þá verið að raska því kerfi, sem stofnað var með tryggingal., og ef sú stefna verður tekin að halda lengra inn á þessa braut, fæ ég ekki betur séð en að slíkt geti haft hinar alvarlegustu afleiðingar fyrir tryggingaráð. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að í fjárlfrv. verði hækkuð upphæðin til trygginganna, sem nemi því, er ætla mætti að þær þurfi til þess að geta staðizt hin auknu útgjöld.

Ég hef flutt nokkrar brtt. á þskj. 268 við fjárlfrv. Þær eru ekki margar, vegna þess að ég þóttist sjá, að það mundi yfirleitt ekki þýða mikið að flytja hér brtt., því að yfirleitt hefur sá andi verið mjög ríkjandi í fjvn., að meiri hl. hennar, sem fylgir ríkisstj., hefur ekki talið sér fært að samþ. neitt eða bera fram, nema hann hafi haft skriflegt leyfi hæstv. ríkisstj.

Í fyrsta lagi flyt ég 3 brtt. við 40. gr., sem gera ráð fyrir nokkrum sparnaði í utanríkisþjónustunni. Fyrir 2–3 árum var um það rætt við fjvn. af skrifstofustjóra utanrrn. og .einnig sjálfum dómsmrh., að það væri mjög til athugunar að leggja niður eða fækka um 2 sendiherra á Norðurlöndum og hafa þar aðeins einn sendiherra, sem annaðist þessi störf í þessum löndum, og var beinlínis látið í það skína, að þetta mundi verða gert, þegar núverandi sendiherrar, sem eru í tveim af þessum embættum, færu úr starfi. Ég hygg, að það hafi komið fleirum af fjvn.-mönnum en mér spánskt fyrir, þegar í byrjun þessa þings bárust þær upplýsingar frá utanrrn., að það væri ekki tilætlunin að fækka þessum embættum á nokkurn hátt í þessum löndum, heldur væri tilætlunin meira að segja sú að bæta við einum sendiherra, þ.e. í Stokkhólini, en þar hefur ekki verið sendiherra undanfarin ár, heldur sendifulltrúi. Mér sýnist einmitt hér vera hægt að spara, með tilliti til hvernig utanríkisþjónustu okkar er hagað annars staðar. Vil ég í þessu sambandi benda á sendiherrann í París. Sá maður, sem gegnir því embætti, er einnig sendiherra á Spáni, Ítalíu, í Sviss og Póllandi og ég held einnig í Luxemburg, og það er talið vera hægt að anna öllum þessum embættum fyrir sendiherrann í París. Mér sýnist því ástæða til að ætla, að hægt væri fyrir sendiherra í Kaupmannahöfn að gegna einnig þessu embætti fyrir hin Norðurlöndin, þótt það sé að vísu ekkert sérstakt atriði fyrir mér, í hverju Norðurlandanna sendiherrann hefði aðsetur. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja til að fella niður fjárveitingar til sendiráðanna í Osló og Stokkhólmi og að þeir liðir á 10. gr. falli báðir niður. Við þetta mundi sparast nærri 1/2 millj. kr.

Þá legg ég einnig til í 3. brtt., um lið IIL11 á 10. gr., sem fjallar um kostnað við alþjóðaráðstefnur, að sá liður lækki úr 550 þús. kr. niður í 350 þús. kr. Það þykir auðvitað sjálfsagt fyrir okkur Íslendinga að vera meðlimir í hvers konar alþjóðasamtökum og senda menn — helzt marga — á þau mót, sem haldin eru í öðrum löndum. Á síðasta sumri voru t.d. sendir 3 menn á fund Evrópuráðsins og aftur 3 menn nokkru seinna og ég er ekki enn farinn að heyra um nein sérstök afrek, sem Íslendingar hafa unnið þar. Ég tek þetta aðeins sem dæmi, en mér finnst full ástæða til að reyna að spara eitthvað á þessu sviði.

Við 14. gr. A. 15 flyt ég till. um að fella þann lið niður, en þar er um að ræða 50 þús. kr. fjárveitingu til viðgerðar á bæjarfógetahúsinu í Neskaupstað, sem orðið hefur fyrir skemmdum af völdum skriðuhlaups. En ég vil benda á, að á síðustu fjárl. voru veittar 100 þús. kr. til að gera við þetta sama hús, og sýnast þessar upphæðir báðar til samans óeðlilega háar til þess aðeins að bæta fyrir fyrrnefndar skemmdir.

Einnig við 14. gr. flyt ég till. um að lækka kostnað við húsaleigueftirlit um 50 þús. kr. Í því sambandi vil ég benda á, að húsaleigueftirlit úti á landi hefur lagzt niður og er aðeins hér í Reykjavík og störf í húsaleigun. eru oftast framkvæmd af mönnum, sem eru í hæstu stöðum hjá ríkinu á öðrum sviðum.

Við 12. gr. legg ég til, að aukið verði framlag til byggingar læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsbygginga um 200 þús. kr., sem þó er allt of lítið. Þetta framlag hefur verið hin 2–3 síðustu ár um 3 millj. kr., og er langt frá, að búið sé að leysa þau verkefni, sem nauðsynleg eru á þessu sviði, og 500 þús. kr., sem frv. gerir ráð fyrir, er mjög hverfandi lítil upphæð til þeirra verkefna.

Við 16. gr. B legg ég til, að tekin verði upp ný fjárveiting til aðstoðar við vélbátaflotann, 4 1/2 millj. kr., og er það sama upphæð og var á þessa árs fjárl., að vísu í 3 liðum. Ég býst við, að þessi upphæð nægi ekki, en legg til, að hún verði ekki lægri í næsta árs fjárl. en sett var inn í síðasta fjárlfrv., og vænti, að hún verði a.m.k. samþ.

Við 17. gr. flyt ég till. um að hækka framlag til almannatrygginga um 3 millj. kr., í samræmi við það, sem ég hef þegar gert grein fyrir.

Að lokum flyt ég brtt. við 20. gr. um að lækka framlag til sýslumannabústaða um 200 þús. kr. Ég vil leyfa mér að rökstyðja þessa till. með því, að í frv. eru þessar framkvæmdir lagðar að jöfnu: til læknisbústaða, sjúkraskýla og sjúkrahúsa annarra en fjórðungssjúkrahúsa eru ætlaðar 500 þús. kr., til prestssetra 500 þús. kr. og til sýslumannabústaða 500 þús. kr. Engum blandast hugur um það, að af þessum 3 framkvæmdum er þörfin langsamlega mest hjá læknisbústöðum, sjúkraskýlum og sjúkrahúsum. Ég tel því ekki ósanngjarnt að breyta þessum tölum þannig að færa yfir frá sýslumannabústöðunum yfir á sjúkraskýlin og sjúkrahúsin til þess að hækka þann lið.

Ég hef þá gert grein fyrir mínum brtt. og sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um fjárlfrv. á þessu stigi.